Svindlarar nýta sér nöfn íslenskra fyrirtækja til að falast eftir greiðslukortaupplýsingum
Svindlarar nýta nú enn á ný nöfn íslenskra fyrirtækja til að falast eftir greiðslukortaupplýsingum. Við minnum á að heiðvirð fyrirtæki biðja aldrei um slíkar upplýsingar í gegnum tölvupóst eða síma.
Tilraunum til fjársvika á netinu hefur fjölgað á undanförnum árum. Svikararnir beita ýmsum brögðum og fjársvikin beinast bæði gegn einstaklingum og fyrirtækjum. Landsbankinn vill stuðla að auknu netöryggi og því birtir bankinn nú aðgengilegar upplýsingar um hvernig auka má öryggi á netinu á Umræðunni, efnis- og fréttaveitu bankans.
Landsbankinn leggur mikla áherslu á netöryggismál og tekur þátt í margvíslegu samstarfi á því sviði. Bankinn á m.a. sæti í öryggishópi norrænna banka, starfar náið með lögreglu og tekur þátt í öryggissamstarfi á vettvangi Samtaka fjármálafyrirtækja, svo nokkuð sé nefnt.
Á Umræðunni er fjallað um netöryggi og þar eru meðal annars góð ráð hvernig forðast megi vefveiðar.