- Þjónustutekjur jukust vegna vaxandi umsvifa en vaxtamunur minnkaði, aðallega vegna áherslu bankans á að bjóða mjög samkeppnishæfa vexti á íbúðalánum.
- Kostnaðarhlutfall (K/T) var 45,8% og hélt hagkvæmni í rekstri áfram að aukast.
- Spár um efnahagsbata og ítarlegt mat á útlánasafninu valda því að virðisbreytingar útlána eru jákvæðar um 2,5 milljarða króna.
- Markaðshlutdeild á einstaklingsmarkaði er um 38%.
- Hlutdeild á íbúðalánamarkaði hefur aldrei verið hærri og er nú 26,8% en var 22,0% í ársbyrjun 2020.
- Um 500 fyrirtæki komu í viðskipti við Landsbankann á fyrstu þremur mánuðum ársins.
- Á fyrstu þremur mánuðum ársins pöntuðu viðskiptavinir samtals um 15.000 símtöl og fundi.
- Um 1.900 reikningar hafa verið stofnaðir í gegnum Sparað í appi frá því það var kynnt í lok mars.
- Stórir áfangar í átt að sjálfbærni náðust á tímabilinu.
Hagnaður Landsbankans á fyrstu þremur mánuðum ársins 2021 nam 7,6 milljörðum króna eftir skatta, samanborið við 3,6 milljarða króna tap á sama tímabili árið 2020. Arðsemi eigin fjár á tímabilinu var 11,7% á ársgrundvelli, samanborið við -5,9% á sama tímabili 2020.
Hreinar vaxtatekjur námu 8,6 milljörðum króna samanborið við 9,4 milljarða króna á sama tímabili árið á undan, sem er 8,5% lækkun á milli tímabila. Hreinar þjónustutekjur Landsbankans námu 2,1 milljarði króna samanborið við 1,9 milljarða króna á sama tímabili árið á undan. Aðrar rekstrartekjur voru 5,1 milljarð króna en voru neikvæðar um 8 milljarða króna á sama ársfjórðungi árið 2020. Breytingin á milli ára skýrist af 2,5 milljarða króna jákvæðri virðisbreytingu útlána, samanborið við virðisrýrnun upp á 5,2 milljarða króna á sama tímabili árið á undan sem rekja má til þeirra óvissu sem ríkti vegna Covid-19-faraldursins, sem þá var nýhafinn. Jákvæðar virðisbreytingar á fjórðungnum má rekja til þess að efnahagssamdráttur árið 2020 reyndist minni en útlit var fyrir og horfur eru á jákvæðum viðsnúningi á árinu 2021.
Vaxtamunur í hlutfalli af meðalstöðu eigna nam 2,2% á fyrstu þremur mánuðum ársins 2021 en var 2,6% á sama tímabili árið áður.
Rekstrarkostnaður var 6,6 milljarðar króna á tímabilinu samanborið við 6,7 milljarða króna á sama tímabili árið áður. Þar af voru laun og launa¬tengd gjöld 3,8 milljarðar króna og standa í stað á milli tímabila. Annar rekstrarkostnaður var 2,8 milljarðar króna samanborið við 2,9 milljarða króna á sama tímabili árið áður.
Kostnaður sem hlutfall af tekjum (K/T) fyrstu þrjá mánuði ársins var 45,8%, samanborið við 72,6% á sama tímabili árið 2020.
Heildareignir Landsbankans jukust um 36,8 milljarða króna á tímabilinu og námu 1.601 millj¬arði króna í lok fyrsta ársfjórðungs. Útlán jukust um 14 milljarða króna en útlánaaukningin á fjórðungnum má rekja til aukningar á lánum einstaklinga. Í lok fyrsta ársfjórðungs voru innlán frá viðskiptavinum 794 milljarðar króna, samanborið við 793 milljarða króna í árslok 2020.
Eigið fé Landsbankans var 261,4 milljarðar króna þann 31. mars sl. og eiginfjárhlutfallið var 24,9%. Á aðalfundi bankans, sem haldinn var þann 24. mars 2021, var samþykkt tillaga bankaráðs um að greiða arð til hluthafa vegna rekstrarársins 2020 að fjárhæð 4.489 milljónir króna og hefur arðurinn verið greiddur út.
Árshlutareikningur samstæðu 1F 2021
Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, segir:
„Gott uppgjör Landsbankans fyrir fyrsta ársfjórðung endurspeglar góðan árangur í öllum rekstri bankans og batnandi efnahagshorfur. Markaðshlutdeild bankans á einstaklingsmarkaði er um 38% og á rúmlega einu ári hefur hlutdeild bankans á íbúðalánamarkaði aukist úr 22,0% í 26,8% og hefur aldrei verið hærri. Á fyrstu þremur mánuðum ársins tóku yfir tvö þúsund einstaklingar og fjölskyldur íbúðalán hjá bankanum og þar af voru tæplega 400 að kaupa sína fyrstu íbúð. Staða bankans á fyrirtækjamarkaði er sömuleiðis sterk og ánægja með þjónustuna er mikil.
Það ber hæst í þessu uppgjöri að þjónustutekjur hafa aukist og má þar sér í lagi nefna tekjur vegna aukinna umsvifa í markaðsviðskiptum, ekki síst vegna góðs árangurs bankans í eignastýringu. Góð afkoma er af verðbréfum í eigu bankans og vaxtatekjur eru traustar. Vaxtamunur fer þó enn lækkandi en þar munar mestu um áherslu bankans á að bjóða mjög samkeppnishæfa vexti á húsnæðislánum. Vel hefur gengið að halda rekstrargjöldum í skefjum og hagkvæmni í rekstri bankans heldur áfram að aukast. Hlutfall rekstrarkostnaðar af meðalstöðu heildareigna er 1,5% og hefur lækkað jafnt og þétt undanfarin ár.
Í heild var hagnaður bankans á fyrsta ársfjórðungi 7,6 milljarðar króna, samanborið við tap upp á um 3,6 milljarða króna á sama tímabili 2020. Arðsemin var 11,7%, samanborið við -5,9% á sama tíma í fyrra. Ítarlegt mat okkar á væntu útlánatapi og spár um efnahagbata skýra jákvæðar virðisbreytingar útlána upp á 2,5 milljarða króna.
Fyrsti fjórðungur var afar mikilvægur fyrir sjálfbærnivegferð bankans og stórum áföngum var náð. Við birtum nýja sjálfbæra fjármálaumgjörð og í kjölfarið gáfum við út græn skuldabréf upp á 300 milljónir evra á lægstu vöxtum sem bankinn hefur fengið til þessa. Í bankanum er djúp og traust þekking á sjálfbærni í fjármálaþjónustu og bankinn verður áfram leiðandi á því sviði, bæði í eigin rekstri og fyrir viðskiptavini bankans.
Skýr stefna bankans hefur skilað sér í nýjum lausnum fyrir viðskiptavini, aukinni ánægju og betri og skilvirkari þjónustu. Frá árinu 2017 höfum við einblínt á að efla stafræna þjónustu eftir að hafa lokið löngu tímabili innviðauppbyggingar. Síðan hafa um 40 nýjar lausnir litið dagsins ljós. Um leið höfum við haldið áfram að byggja upp sterkar tæknistoðir og lagt mikla áherslu á öfluga gagnauppbyggingu og gagnanýtingu. Árangurinn birtist m.a. í því að á fyrsta ársfjórðungi nýttu langflest þeirra 500 fyrirtækja sem komu í viðskipti við bankann sér vef eða app bankans til að skrá sig í viðskipti, en að meðaltali tók aðeins um 85 sekúndur að ljúka skráningu. Næstum allir samningar og samskipti eru rafræn og viðskiptavinir hafa verið fljótir að tileinka sér tímapöntun á netinu, en á fyrsta ársfjórðungi voru alls pöntuð um 15.000 símtöl og fundir. Við gerðum líf einstaklinga, vinahópa og fjölskyldna einfaldara með því að bjóða fólki að spara í appi, annað hvort á eigin spýtur eða í félagi við aðra. Frá því að lausnin var kynnt í mars hafa um 1.900 sparireikningar verið stofnaðir. Flestir eru að spara fyrir fríi, enda hlökkum við öll til endaloka faraldursins. Við erum að einfalda líf okkar viðskiptavina, um það snýst Landsbanki nýrra tíma.“
Helstu atriði úr rekstri á fyrsta ársfjórðungi (1F) 2021
Rekstur
- Hagnaður Landsbankans á 1F 2021 nam 7,6 milljörðum króna samanborið við tap upp á 3,6 milljarða króna á sama ársfjórðungi árið 2020.
- Arðsemi eiginfjár var 11,7% á 1F 2021, samanborið við -5,9% á sama ársfjórðungi árið á undan.
- Hreinar vaxtatekjur á ársfjórðungnum voru 8,6 milljarðar króna en þær námu 9,4 milljörðum króna á 1F 2020.
- Virðisbreyting útlána og krafna var jákvæð um 2,5 milljarða króna á 1F 2021 en var neikvæð um 5,2 milljarða króna á 1F 2020.
- Hreinar þjónustutekjur námu 2,1 milljarði króna en þær voru 1,9 milljarður króna á 1F 2020
- Vaxtamunur í hlutfalli af meðalstöðu eigna var 2,2% á 1F 2021, samanborið við 2,6% á sama ársfjórðungi 2020.
- Laun og launatengd gjöld námu 3,8 milljörðum króna samanborið við 3,8 milljarða króna á sama ársfjórðungi 2020.
- Rekstrarkostnaður að frátöldum launum og launatengdum gjöldum nam 2,8 milljörðum króna á 1F 2021 samanborið við 2,9 milljarða króna á sama ársfjórðungi 2020.
- Kostnaður sem hlutfall af tekjum (K/T) á fyrsta ársfjórðungi 2021 var 45,8% samanborið við 72,6% á sama ársfjórðungi árið á undan.
- Stöðugildi hjá Landsbankanum þann 31. mars 2021 voru 869 en voru 886 á sama tíma fyrir ári.
Efnahagur
- Eigið fé Landsbankans í lok fyrsta ársfjórðungs 2021 var 261,4 milljarðar króna, sem er 3,1 milljarði krónum hærra en í árslok 2020. Greiddur var út arður að fjárhæð 4.489 milljónir króna til hluthafa þann 31. mars sl.
- Eiginfjárhlutfall bankans (e. total capital ratio) í lok fyrsta árshluta 2021 var 24,9% en var 25,1% í lok árs 2020. Það er verulega umfram 18,8% eiginfjárviðmið Fjármálaeftirlits Seðlabankans.
- Heildareignir bankans námu 1.601 milljarði króna í lok mars 2021.
- Útlán jukust um 14 milljarða króna, útlán til einstaklinga jukust um 26 milljarða króna en útlán til fyrirtækja drógust saman um 12 milljarða króna.
- Innlán viðskiptavina námu 794 milljörðum króna í lok mars 2021, samanborið við 793 milljarða króna í lok árs 2020
- Bankinn fylgist náið með og stýrir lausafjáráhættu sinni í heild, í erlendum myntum og í íslenskum krónum. Lausafjárhlutfall bankans (e. liquidity coverage ratio) var 202% í lok mars 2021 samanborið við 154% í lok árs 2020.
- Heildarvanskil fyrirtækja og heimila voru 0,6% af útlánum. Vegna tímabundinna COVD-19 úrræða og frestunar á greiðslum má ætla að vanskil mælist minni en ella.
Fjárhæðir í milljónum króna
1F 2021 | 1F 2020 | 2020 | 2019 | |
---|---|---|---|---|
Hagnaður (tap) eftir skatta | 7.618 | (3.628) | 10.521 | 18.235 |
Arðsemi eiginfjár eftir skatta | 11,7% | -5,9% | 4,3% | 7,5% |
Vaxtamunur í hlutfalli af meðalstöðu eigna | 2,2% | 2,6% | 2,5% | 2,8% |
Kostnaður sem hlutfall af tekjum (K/T)* | 45,8% | 72,6% | 47,4% | 42,6% |
31.03.2021 | 31.03.2020 | 31.12.2020 | 31.12.2019 | |
Heildareignir | 1.600.952 | 1.523.188 | 1.564.177 | 1.426.328 |
Útlán til viðskiptavina | 1.287.448 | 1.190.536 | 1.273.426 | 1.140.184 |
Innlán frá viðskiptavinum | 794.252 | 755.160 | 793.427 | 707.813 |
Eigið fé | 261.384 | 244.106 | 258.255 | 247.734 |
Eiginfjárhlutfall alls | 24,9% | 24,8% | 25,1% | 25,8% |
Fjármögnunarþekja erlendra mynta | 140% | 127% | 132% | 143% |
Heildarlausafjárþekja | 202% | 196% | 154% | 161% |
Lausafjárþekja erlendra mynta | 477% | 489% | 424% | 769% |
Vanskilahlutfall (>90 daga) | 0,6% | 0,7% | 0,8% | 0,8% |
Stöðugildi | 869 | 886 | 878 | 893 |
*K/T - Rekstrargjöld alls/(Hreinar rekstrartekjur - virðisbreytingar útlána).
Tengd skjöl
Árshlutareikningur samstæðu 1F 2021
Símafundur vegna uppgjörs
Föstudaginn 7. maí kl. 10.00 mun bankinn bjóða upp á símafund á ensku þar sem farið verður yfir uppgjör bankans vegna fyrsta ársfjórðungs 2021. Vinsamlegast skráið ykkur á símafundinn með því að senda tölvupóst á netfangið ir@landsbankinn.is.
Fjárhagsdagatal Landsbankans
Uppgjör 2F 2021 22. júlí 2021
Uppgjör 3F 2021 28. október 2021
Ársuppgjör 2021 3. febrúar 2022