- Hagnaður Landsbankans á árinu 2022 nam 17,0 milljörðum króna eftir skatta.
- Góð aukning var í útlánum til fyrirtækja og jukust þau um 92,0 milljarða króna sem jafngildir um 10% vexti þegar tekið hefur verið tillit til gengisáhrifa.
- Íbúðalán jukust um 59,0 milljarða króna en það hægði á eftirspurn á 4. ársfjórðungi.
- Arðsemi eiginfjár á fjórða ársfjórðungi 2022 var 8,2% , samanborið við 10,5% arðsemi á sama ársfjórðungi árið 2021.
- Arðsemi ársins var 6,3%, þrátt fyrir góðan grunnrekstur. Neikvæð áhrif sem drógu úr arðsemi voru aðallega mikil lækkun á gangvirði eignarhluta bankans í Eyri Invest hf. Markmið bankans er að arðsemi eiginfjár verði að lágmarki 10%.
- Rekstrarkostnaður er stöðugur.
- Landsbankinn er með ánægðustu viðskiptavinina á bankamarkaði fjórða árið í röð, samkvæmt Íslensku ánægjuvoginni. Markaðshlutdeild á einstaklingsmarkaði hefur aldrei verið hærri og mælist nú í fyrsta skipti yfir 40%.
- Vanskil eru í sögulegu lágmarki og sl. áramót var vanskilahlutfallið 0,2%.
- Bankinn greiddi 20,5 milljarða króna í arð árið 2022 og 14,1 milljarð króna í skatta.
- Bankaráð hyggst leggja til við aðalfund 23. mars nk. að bankinn greiði 8,5 milljarða króna í reglulegan arð til hluthafa vegna rekstrarársins 2022.
- Bankinn gefur í dag út ítarlegar sjálfbærniupplýsingar, þ.e. tilvísunartöflu samkvæmt viðmiðum Global Reporting Initiative, skýrslu í samræmi við reglur Principles for Responsible Banking og útreikninga á kolefnisspori bankans samkvæmt aðferðafræði Principles for Carbon Accounting Financials (PCAF) fyrir árið 2021. Upplýsingarnar eru endurskoðaðar að hluta eða öllu leyti af Deloitte.
- Útreikningar á losun vegna lánasafns bankans samkvæmt aðferðafræði PCAF fyrir árið 2021 liggja fyrir og nam losunin 280 kílótonnum af CO2 ígildum. Losun vegna eigin starfsemi bankans nam tæplega 1 kílótonni af CO2 ígildum árið 2022.
- Pillar III áhættuskýrsla fyrir árið 2022 kemur út samhliða birtingu ársuppgjörsins.
- Árs- og sjálfbærniskýrsla Landsbankans kemur út 16. febrúar nk.
Hagnaður Landsbankans á árinu 2022 nam 17,0 milljörðum króna eftir skatta (2021: 28,9 milljarðar króna). Arðsemi eigin fjár var 6,3% á árinu 2022 eftir skatta (2021: 10,8%).
Hreinar vaxtatekjur námu 46,5 milljörðum króna árið 2022 (2021: 39,0 milljarðar króna). Vaxtamunur sem hlutfall af meðalstöðu heildareigna nam 2,7% á árinu 2022 (2021: 2,3%). Hreinar þjónustutekjur námu 10,6 milljörðum króna árið 2022 (2021: 9,5 milljarðar króna). Aðrar rekstrartekjur voru neikvæðar um 3,8 milljarða króna (2021: jákvæðar um 13,9 milljarða króna). Hreint tap af fjáreignum og fjárskuldum á gangvirði nam 7.963 milljónum króna (2021: 5.980 milljóna króna hagnaður). Þar vegur þyngst lækkun á gangvirði óskráðra eignarhluta bankans í Eyri Invest hf. sem nemur 10.500 milljónum króna á árinu (2021: 2.076 milljóna króna hækkun). Virðisbreytingar útlána voru jákvæðar um 2,5 milljarða króna á árinu 2022 (2021: 7,0 milljarðar króna).
Rekstrartekjur bankans á árinu 2022 námu 53,3 milljörðum króna (2021: 62,3 milljarðar króna).
Rekstrargjöld voru 25,9 milljarðar króna á árinu 2022 og eru óbreytt frá fyrra ári. Þar af voru laun og launatengd gjöld 14,5 milljarðar króna (2021: 14,8 milljarðar króna). Annar rekstrarkostnaður var 9,3 milljarður króna á árinu 2022 (2021: 9,1 milljarður króna).
Hagnaður fyrir skatta á árinu 2022 var 27,4 milljarðar króna (2021: 36,5 milljarðar króna). Reiknaðir skattar, þar með talið skattur á heildarskuldir fjármálafyrirtækja og sérstakur fjársýsluskattur á laun, voru 13,2 milljarðar króna árið 2022 (2021: 10,3 milljarðar króna).
Kostnaður sem hlutfall af tekjum (K/T) á árinu 2022 var 46,8% (2021: 43,2%).
Heildareignir jukust um 57,2 milljarða króna á milli ára og námu í árslok 2022 alls 1.787 milljörðum króna. Útlán jukust um 11,3% milli ára, eða um 156,9 milljarða króna. Í árslok 2022 voru innlán frá viðskiptavinum 967,9 milljarðar króna (2021: 900,1 milljarður króna) og höfðu aukist um 67,8 milljarða króna.
Eigið fé í árslok 2022 var 279,1 milljarður króna (2021: 282,6 milljarðar króna). Á árinu 2022 greiddi Landsbankinn 14,4 milljarða króna í arð til hluthafa, ásamt sérstakri arðgreiðslu að fjárhæð 6,1 milljarður króna. Eiginfjárhlutfall í árslok 2022 var 24,7% (2021: 26,6%). Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands gerir 20,7% heildarkröfu um eiginfjárgrunn Landsbankans.
Bankaráð Landsbankans mun leggja til við aðalfund þann 23. mars 2023 að greiddur verði arður til hluthafa sem nemur 0,36 krónum á hlut vegna rekstrarársins 2022, samtals 8,5 milljarðar króna. Arðgreiðslan samsvarar 50% af hagnaði samstæðu bankans á árinu 2022. Verði tillagan samþykkt munu arðgreiðslur Landsbankans á árunum 2013-2023 samtals nema 175,2 milljörðum króna.
Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, segir:
„Grunnrekstur bankans gekk vel á krefjandi ári en lækkun á hlutabréfaeignum dregur afkomuna niður. Það er ánægjulegt að útlán til fyrirtækja jukust talsvert og það var áfram ágæt aukning í íbúðalánum þó hægt hafi á síðari hluta ársins. Viðskiptavinum bankans hélt áfram að fjölga, tekjur af fjölbreyttri starfsemi bankans jukust og rekstrarkostnaður var stöðugur. Innlán jukust töluvert og góður árangur við fjármögnun bankans á árinu 2021 gerði okkur kleift að bíða af okkur verstu sveiflurnar á fjármálamörkuðum á árinu 2022.
Það var risastór viðurkenning að Landsbankinn varð efstur banka í Íslensku ánægjuvoginni fjórða árið í röð. Það er vert að rifja upp nokkra sigra ársins sem einfalda viðskiptavinum lífið. Fyrst má nefna að sparað í appi sló algjörlega í gegn. Lausnin er einföld og býður upp á þann skemmtilega möguleika að spara saman en þar bjóðum við líka bestu kjörin okkar á óbundinn sparnað. Sparnaður í appi 35-faldaðist sem sýnir að appið er bæði mikilvæg og áhrifamikil söluleið fyrir nýjar vörur og þjónustu og að viðskiptavinir eru fljótir að nýta sér spennandi nýjungar. Aðrir góðir sigrar voru t.d. rafrænar þinglýsingar á íbúðalánum, Aukakrónur í símann og mun öruggari auðkenning við innskráningu og staðfestingu á greiðslum í netbanka og appi. Notkun á appinu jókst mikið, einkum hjá fyrirtækjum, enda er allt einfaldara og þægilegra í Landsbankappinu.
Á árinu bættust um 6.000 einstaklingar í hóp ánægðra viðskiptavina og markaðshlutdeild á einstaklingsmarkaði mælist 40,1%, hærri en nokkru sinni fyrr. Fyrirtækjum og félögum í viðskiptum fjölgaði á sama tíma um hátt í 2.000. Mikil ánægja hefur verið með áherslu okkar á að einfalda fyrirtækjum lífið með öflugum fyrirtækjabanka og appi sem mætir flestum daglegum þörfum. Það eru enn fleiri nýjungar fyrir fyrirtæki í bígerð og við hlökkum til að kynna viðskiptavinum færsluhirðingu bankans sem er að fara í loftið þessa dagana.
Landsbankinn er umsvifamesti bankinn í útlánum til fyrirtækja með um 40% hlutdeild í fyrirtækjalánum. Það er ánægjulegt að útlán til fyrirtækja í öllum atvinnugreinum jukust. Alls nam aukningin 92 milljörðum króna, en um 80 milljörðum króna ef litið er framhjá gengisáhrifum sem jafngildir um 10% útlánavexti. Við lánuðum mikið til byggingarverkefna á árinu þótt heildarútlán til greinarinnar hafi ekki hækkað að sama skapi þar sem sala eigna hefur gengið vel og uppgreiðslur því hraðar. Okkur telst til að á síðasta ári höfum við fjármagnað um 4.300 íbúðir í 142 byggingarverkefnum. Við höfum stutt vel við íbúðauppbyggingu en undanfarið höfum við að jafnaði lánað um 36 milljarða króna til byggingarverkefna á hverju ári.
Við náðum góðum árangri á öðrum sviðum fyrirtækjaþjónustu, ekki síst við gjaldeyrismiðlun og lausafjárstýringu. Þá lauk Fyrirtækjaráðgjöf bankans mörgum vel heppnuðum verkefnum. Það er líka afrakstur margra ára markvissrar vinnu að þrátt fyrir erfitt ár á mörkuðum, var áfram vöxtur í grunntekjum Landsbréfa. Félagið hefur náð góðum árangri, reksturinn gengið vel og Landsbréf greiddu 3 milljarða króna í arð til bankans á árinu.
Þróttur í fyrirtækjaþjónustu, vel heppnuð uppbygging sjóða og aukin umsvif í eignastýringu eiga stóran þátt í því að þjónustutekjur bankans jukust um 12% á árinu.
Landsbankinn hefur undanfarin ár fjárfest stöðugt í tæknilegum innviðum sem birtist viðskiptavinum helst í fjölda nýjunga, öruggara umhverfi og stöðugleika. Við leggjum sem fyrr mikla áherslu á öryggismál. Því miður hefur mikið borið á fjársvikatilraunum á netinu og í gegnum síma undanfarið. Umræða og fræðsla er besta vörnin og því hefur starfsfólk bankans farið víða með kynningar og fræðslu um netöryggi, bæði til einstaklinga og fyrirtækja, nú síðast í þessari viku fyrir eldri borgara á Akureyri við góðar undirtektir.
Jákvæð áhrif bankans á íslenskt samfélag eru mikil. Við erum einn umfangsmesti styrktaraðili landsins en í fyrra styrktum við um 250 einstaklinga, félög og verkefni með ýmsum hætti. Árlega birtum við mikinn fjölda af greiningum um efnahagsmál og ýmsa fjármálafræðslu. Vikubyrjun Hagfræðideildar er ómissandi á mánudögum og Hagsjárnar eru nauðsynlegar fyrir öll sem vilja taka þátt í umræðu um efnahagsmál. Það munar líka um arð- og skattgreiðslur bankans, en í fyrra greiddi bankinn 20,5 milljarða króna í arð og 14,1 milljarð króna í skatta, rúma 34,6 milljarða króna samtals.
Það hefur verið gott að fá starfsfólk bankans aftur í hús eftir Covid-19-faraldurinn en jafnframt hefur ný fjarvinnustefna með skýrum viðmiðum og tækifærum til að vinna frá fjarlægum stöðum mælst mjög vel fyrir. Einnig vildum við koma til móts við yngra fólk með því að bæta fæðingarorlofsgreiðslur, sem eru nú orðnar 80% af launum. Við viljum að starfsfólk bankans sé stolt af Landsbankanum og mæli með bankanum sem vinnustað. Það er eitt af lykilmarkmiðum bankans.
Það er mikill kraftur í starfsfólki bankans og við erum bjartsýn. Öflug þjónusta við fyrirtæki og fjárfesta ásamt hæstu markaðshlutdeild sem við höfum séð á einstaklingsmarkaði skapa tækifæri til frekari sóknar. Við mætum samkeppninni með góðu aðgengi að reyndu starfsfólki, frábæru appi og sanngjörnum kjörum. Það er Landsbanki nýrra tíma.“
Helstu atriði úr rekstri á fjórða ársfjórðungi (4F) 2022
- Hagnaður á 4F 2022 nam 5,7 milljörðum króna samanborið við hagnað upp á 7,3 milljarða króna á sama ársfjórðungi árið 2021.
- Arðsemi eiginfjár eftir skatta var 8,2% á 4F 2022, samanborið við 10,5% arðsemi á sama ársfjórðungi árið á undan.
- Hreinar vaxtatekjur á ársfjórðungnum voru 12,9 milljarðar króna en þær námu 10,4 milljörðum króna á 4F 2021.
- Virðisbreyting útlána og krafna var neikvæð um 0,2 milljarða króna á 4F 2022 en var jákvæð um 3,2 milljarð króna á 4F 2021.
- Hreinar þjónustutekjur námu 2,7 milljörðum króna en voru 2,6 milljarðar króna á 4F 2021.
- Vaxtamunur í hlutfalli af meðalstöðu heildareigna var 2,9% á 4F 2022 en var 2,4% á 4F 2021.
- Laun og launatengd gjöld á 4F 2022 námu 4,0 milljörðum króna, óbreytt frá 4F 2021.
- Rekstrarkostnaður að frátöldum launum og launatengdum gjöldum nam 2,6 milljörðum króna á 4F 2022 samanborið við 2,4 milljarða króna á sama ársfjórðungi 2021.
- Kostnaðaðarhlutfall (K/T) á fjórða ársfjórðungi 2022 var 42,0% samanborið við 47,6% á sama ársfjórðungi árið á undan.
Helstu atriði úr rekstri og efnahag árið 2022
Rekstur:
- Hagnaður á árinu 2022 nam 17,0 milljörðum króna eftir skatta, samanborið við 28,9 milljarða króna á árinu 2021.
- Arðsemi eigin fjár eftir skatta var 6,3% samanborið við 10,8% arðsemi árið áður.
- Hreinar vaxtatekjur námu 46,5 milljörðum króna á árinu 2022 samanborið við 39,0 milljarða króna á árinu 2021.
- Vaxtamunur í hlutfalli af meðalstöðu heildareigna var 2,7% árið 2022 samanborið við 2,3% árið 2021.
- Hreinar þjónustutekjur námu 10,6 milljörðum króna á árinu 2022 samanborið við 9,5 milljarða króna á árinu 2021.
- Aðrar rekstrartekjur voru neikvæðar um 3,8 milljarða króna samanborið við jákvæðar um 13,9 milljarða króna árið 2021. Virðisbreyting útlána og krafna var jákvæð um 2,5 milljarða króna árið 2022 samanborið við jákvæða virðisbreytingu upp á 7,0 milljarða króna árið 2021. Breytingarnar má rekja til betri horfa í efnahagsmálum og minni áhrifa heimsfaraldurs Covid-19 á útlán bankans en áður var gert ráð fyrir.
- Laun og launatengd gjöld námu 14,5 milljörðum króna á árinu 2022, samanborið við 14,8 milljarða króna árið áður.
- Rekstrarkostnaður að frátöldum launum og tengdum gjöldum nam 11,4 milljörðum króna samanborið við 11,1 milljarð króna árið 2021.
- Kostnaður sem hlutfall af tekjum (K/T) var 46,8% árið 2022 samanborið við 43,2% árið 2021.
- Tekjuskattur á árinu 2022 nam 10,4 milljörðum króna samanborið við 7,5 milljarða króna á árinu 2021.
- Meðalstöðugildi ársins voru 843 en voru 890 árið 2021. Stöðugildi í árslok 2022 voru 813.
Efnahagur:
- Eigið fé í árslok 2022 var 279,1 milljarður króna, sem er 3,6 milljörðum krónum lægra en í árslok 2021.
- Á árinu 2022 greiddi Landsbankinn 14,5 milljarða króna í arð til hluthafa, ásamt sérstakri arðgreiðslu að fjárhæð 6,1 milljarður króna.
- Eiginfjárhlutfall bankans (e. total capital ratio) í lok árs 2022 var 24,7% en var 26,6% í lok árs 2021. Það er verulega umfram 20,7% eiginfjárkröfu Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands.
- Heildareignir bankans námu 1.787 milljörðum króna í lok árs 2022 og hækkuðu um 3,3% á milli ára.
- Útlán jukust um 11,3% á milli ára, eða um 156,9 milljarða króna. Útlán til einstaklinga jukust um 64,7 milljarða króna og útlán til fyrirtækja jukust um 92,0 milljarða króna, en þar af skýra breytingar á gengi gjaldmiðla 12,3 milljarða króna.
- Innlán viðskiptavina jukust um 7,5% á árinu 2022, eða um 67,8 milljarða króna. Innlán frá fjármálafyrirtækjum námu 6,6 milljörðum í árslok 2022.
- Bankinn fylgist náið með og stýrir lausafjáráhættu sinni í heild, í erlendum myntum og í íslenskum krónum. Lausafjárhlutfall bankans (e. liquidity coverage ratio) var 134% í lok árs 2022 samanborið við 179% í lok árs 2021.
- Á árinu 2022 lækkaði liðurinn eignir til sölu um 397 milljónir króna.
- Heildarvanskil fyrirtækja og heimila voru 0,2% af útlánum í árslok 2022 samanborið við 0,3% í árslok 2021.
Helstu niðurstöður
Fjárhæðir í milljónum króna
2022 | 2021 | 4F 2022 | 4F 2021 | |
---|---|---|---|---|
Hagnaður eftir skatta | 16.997 | 28.919 | 5.677 | 7.322 |
Arðsemi eigin fjár eftir skatta | 6,3% |
10,8% | 8,2% | 10,5% |
Vaxtamunur í hlutfalli af meðalstöðu eigna | 2,7% | 2,3% | 2,9% | 2,4% |
Kostnaður sem hlutfall af tekjum (K/T) * | 46,8% | 43,2% | 42% | 47,6% |
31.12.2022 | 31.12.2021 | |
---|---|---|
Heildareignir | 1.787.024 | 1.729.798 |
Útlán til viðskiptavina | 1.544.360 | 1.387.463 |
Innlán frá viðskiptavinum | 967.863 | 900.098 |
Eigið fé | 279.091 | 282.645 |
Eiginfjárhlutfall alls | 24,7% | 26,6% |
Fjármögnunarþekja erlendra mynta | 132% | 142% |
Heildarlausafjárþekja | 134% | 179% |
Lausafjárþekja erlendra mynta | 351% | 556% |
Vanskilahlutfall (>90 daga) | 0,2% | 0,3% |
Meðalstöðugildi ársins | 843 | 890 |
Stöðugildi í lok árs | 813 | 816 |
* K/T = Rekstrargjöld alls/(Hreinar rekstrartekjur – virðisbreytingar útlána).
Aðrir þættir í rekstri bankans á árinu 2022
- Landsbankinn mældist efstur banka í Íslensku ánægjuvoginni hjá viðskiptavinum í bankaþjónustu árið 2022, fjórða árið í röð.
- Markaðshlutdeild á einstaklingsmarkaði mældist 40,1% í árslok 2022, samkvæmt gögnum bankans, og hefur aldrei verið hærri. Einstaklingum í virkum viðskiptum við bankann fjölgaði um 6.000 á árinu. Bankinn hefur verið með mestu markaðshlutdeild á einstaklingsmarkaði frá árinu 2014.
- Á árinu fjölgaði heimsóknum í Landsbankaappið um 35% og er það meira notað en netbanki einstaklinga.
- Lífeyrissamningum fjölgaði um 7% á árinu.
- Notkun fyrirtækja á appinu jókst um 168% í kjölfar breytinga á virkni.
- Fyrirtækjum í viðskiptum við bankann fjölgaði um tæplega 2.000 árið 2022. Markaðshlutdeild á fyrirtækjamarkaði mældist 33,1%, samkvæmt gögnum bankans, en aðrar mælingar sýna enn hærri hlutdeild. Bankinn er sem fyrr með um 40% hlutdeild í fyrirtækjalánum.
- Fyrirtækjaráðgjöf bankans lauk mörgum árangursríkum verkefnum á árinu og hafði m.a. umsjón með hlutafjáraukningu og skráningu lyfjafyrirtækisins Alvotech, var ráðgjafi kaupenda í stærstu erlendu fjárfestingu seinni ára á Íslandi þegar alþjóðlega sjóðastýringarfyrirtækið Ardian keypti Mílu af Símanum, og hafði umsjón með nokkrum vel heppnuðum söluferlum.
- Í desember var greint frá því að Landsbankinn yrði bakhjarl Hönnunarmars næstu þrjú árin.
- Landsbankinn gerðist aðili að samtökunum PBAF sem eru að þróa aðferð til að mæla áhrif fjármálafyrirtækja á líffræðilega fjölbreytni.
- Hagfræðideild Landsbankans gaf í desember út ítarlega úttekt á stöðu verslunar og þjónustu.
- Í nóvember var greint frá því að fjárfestingarfélagið Kaldbakur hefði keypt Landsbankahúsið á Akureyri.
- Samkvæmt hagspá Hagfræðideildar til 2025 má búast við kröftugum hagvexti en að kaupmáttur dragist aftur úr.
- Landsbankinn ákvað að tryggja starfsfólki 80% af launum í fæðingarorlofi.
- Samningur við íslenska ríkið um kaup á Norðurhúsi Austurbakka, húsi Landsbankans, var undirritaður í september.
- Í júlí var úthlutað úr Menningarnæturpotti Landsbankans og Reykjavíkurborgar og úr Gleðigöngupotti Landsbankans og Hinsegin daga.
- Við opnuðum fyrir möguleika þriðju aðila til að birta upplýsingar um greiðslureikninga viðskiptavina okkar í sínum eigin lausnum.
- Átján fyrirtæki hafa nú fengið sjálfbærnimerki Landsbankans, þar af fimmtán á árinu 2022. Merkið er veitt þeim fyrirtækjum sem uppfylla skilyrði um sjálfbærni sem sett eru fram í sjálfbærri fjármálaumgjörð bankans og standast strangar kröfur um umhverfisvæn eða félagsleg verkefni.
- Við tókum upp ný viðmið um fjarvinnu og miðum almennt við að starfsfólk vinni fjarvinnu átta daga í mánuði og ekki lengur en tvo daga samfleytt. Hægt er að óska eftir lengri samfelldri fjarvinnu, s.s. vegna búferlaflutninga eða fjölskylduaðstæðna.
- Við gerðum breytingar á innskráningu í netbanka og app og við staðfestingu greiðslna sem fela í sér að nota þarf sterka auðkenningu við þessar aðgerðir.
- Í ágúst gaf bankinn út skuldabréf í norskum krónum til 2 og 3 ára, samtals að fjárhæð 650 milljónir norskra króna.
- Sex verkefni fengu styrk úr Sjálfbærnisjóði Landsbankans þegar úthlutað var úr sjóðnum í fyrsta skipti í júní. Við úthlutuðum einnig námsstyrkjum til 15 framúrskarandi námsmanna úr Samfélagssjóðnum og styrktum 32 mikilvæg samfélagsleg verkefni.
- Landsbankinn gerði samstarfssamning við Vinnuvernd um heilbrigðis- og velferðarþjónustu fyrir starfsfólk bankans
- Samkvæmt uppfærðu UFS-áhættumati frá Sustainalytics er hverfandi hætta á að bankinn verði fyrir fjárhagslegum áföllum vegna umhverfismála, félagslegra þátta og stjórnarhátta (UFS-þátta).
- Alþjóðlega lánshæfismatsfyrirtækið S&P Global Ratings tilkynnti í maí að það hefði hækkað lánshæfismat sértryggðra skuldabréfa útgefnum af Landsbankanum í A með stöðugar horfur.
- Landsbankinn varð í maí fyrstur banka til að bjóða upp á rafræna þinglýsingu við endurfjármögnun íbúðalána.
- Í janúar gaf bankinn út skuldabréf í sænskum krónum til 2 og 3 ára, samtals að fjárhæð 1.700 milljónir sænskra króna og í norskum krónum til 3 ára að fjárhæð 500 milljónir norskra króna.