Upp­gjör Lands­bank­ans fyr­ir árið 2021

Hagnaður Landsbankans á árinu 2021 nam 28,9 milljörðum króna eftir skatta. Arðsemi eiginfjár á árinu 2021 var 10,8% eftir skatta. Markmið bankans er að arðsemi eiginfjár verði að lágmarki 10%.
Fjölskylda
3. febrúar 2022
  • Hagnaður Landsbankans á árinu 2021 nam 28,9 milljörðum króna eftir skatta.
  • Arðsemi eiginfjár á árinu 2021 var 10,8% eftir skatta. Markmið bankans er að arðsemi eiginfjár verði að lágmarki 10%.
  • Arðsemi eiginfjár á fjórða ársfjórðungi 2021 var 10,5% eftir skatta, samanborið við 15,5% arðsemi á sama ársfjórðungi árið 2020.
  • Hreinar þjónustutekjur jukust um 24% á milli ára, einkum vegna vaxandi umsvifa í eignastýringu og markaðsviðskiptum.
  • Markaðshlutdeild á einstaklingsmarkaði er 39,5% og hefur aldrei verið hærri. Aldrei hafa fleiri bæst í hóp ánægðra viðskiptavina bankans.
  • Um 2.500 fyrirtæki og einyrkjar komu í viðskipti við Landsbankann á árinu 2021, fleiri en nokkru sinni fyrr.
  • Samningum um eignastýringu fjölgaði um 25% á milli ára.
  • Hagkvæmni í rekstri hélt áfram að aukast. Kostnaðarhlutfall var 43,2% á árinu 2021 og hlutfall rekstrarkostnaðar af meðalstöðu heildareigna var 1,4%.
  • Eigið fé nam 282,6 milljörðum króna í árslok 2021 og eiginfjárhlutfall bankans var 26,6%.
  • Bankaráð mun leggja til við aðalfund að greiddur verði 14,4 milljarða króna arður til hluthafa vegna ársins 2021. Verði þessi tillaga samþykkt munu arðgreiðslur bankans á árunum 2013-2022 samtals nema um 160,6 milljörðum króna.
  • Bankaráð er jafnframt með til skoðunar að leggja til að greiddur verði út sérstakur arður á árinu 2022.
  • Árs- og sjálfbærniskýrsla Landsbankans og Pillar III áhættuskýrsla fyrir árið 2021 koma út samhliða birtingu ársuppgjörsins.

Hagnaður Landsbankans á árinu 2021 nam 28,9 milljörðum króna eftir skatta, samanborið við 10,5 milljarða króna á árinu 2020. Arðsemi eigin fjár var 10,8% á árinu 2021 eftir skatta, samanborið við 4,3% arðsemi árið áður.

Hreinar vaxtatekjur námu 39,0 milljörðum króna árið 2021 samanborið við 38,1 milljarð króna árið á undan. Vaxtamunur sem hlutfall af meðalstöðu eigna og skulda nam 2,3% á árinu 2021 en var 2,5% árið áður. Hreinar þjónustutekjur námu 9,5 milljörðum króna árið 2021 samanborið við 7,6 milljarða króna á árinu 2020. Aðrar rekstrartekjur voru 13,9 milljarðar króna samanborið við neikvæðar rekstrartekjur upp á 7,5 milljarða króna á árinu 2020. Viðsnúningur varð í virðisbreytingu útlána milli ára og voru virðisbreytingar jákvæðar um 7,0 milljarða króna á árinu 2021 samanborið við neikvæðar virðisbreytingar upp á 12,0 milljarða króna árið 2020. Viðsnúninginn má rekja til þess að betri horfur eru í efnahagsmálum og áhrif kórónuveirufaraldursins á útlán bankans eru minni en áður var gert ráð fyrir.

Rekstrartekjur bankans á árinu 2021 námu 62,3 milljörðum króna samanborið við 38,3 milljarða króna árið áður.

Rekstrargjöld voru 25,9 milljarðar króna á árinu 2021 samanborið við 25,6 milljarða króna á árinu 2020. Þar af voru laun og launatengd gjöld 14,8 milljarðar króna, sem er sama fjárhæð og árið 2020. Annar rekstrarkostnaður var 9,1 milljarður króna á árinu 2021, óbreyttur frá fyrra ári.

Hagnaður fyrir skatta á árinu 2021 var 36,5 milljarðar króna samanborið við 12,6 milljarða króna árið 2020. Reiknaðir skattar, þar með talið skattur á heildarskuldir fjármálafyrirtækja og sérstakur fjársýsluskattur á laun, voru 10,3 milljarðar króna árið 2021 samanborið við 4,6 milljarða króna árið 2020.

Kostnaður sem hlutfall af tekjum (K/T) á árinu 2021 var 43,2%, samanborið við 47,4% á árinu 2020.

Heildareignir jukust um 165,6 milljarða króna á milli ára og námu í árslok 2021 alls 1.730 milljörðum króna. Útlán jukust um 9% milli ára, eða um 114 milljarða króna. Útlánaaukningu ársins má rekja til aukningar á íbúðalánum til einstaklinga. Í árslok 2021 voru innlán frá viðskiptavinum 900 milljarðar króna, samanborið við 793 milljarða króna í árslok 2020 og höfðu því aukist um 107 milljarða króna.

Eigið fé í árslok 2021 var 282,6 milljarðar króna samanborið við 258,3 milljarða króna í árslok 2020. Á árinu 2021 greiddi Landsbankinn 4,5 milljarða króna í arð til hluthafa. Eiginfjárhlutfall í árslok 2021 var 26,6%, samanborið við 25,1% í árslok 2020. Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands gerir 18,9% heildarkröfu um eiginfjárgrunn Landsbankans.

Bankaráð Landsbankans mun leggja til við aðalfund þann 23. mars 2022 að greiddur verði arður til hluthafa vegna ársins 2021 sem nemur 0,61 krónu á hlut, eða samtals 14,4 milljörðum króna. Arðgreiðslan samsvarar 50% af hagnaði samstæðunnar á árinu 2021. Verði tillagan samþykkt munu arðgreiðslur bankans á árunum 2013-2022 samtals nema um 160,6 milljörðum króna. Þá er bankaráð jafnframt með til skoðunar að leggja til að greiddur verði út sérstakur arður á árinu 2022.

Ársreikningur samstæðu 2021

Afkomukynning

Fréttatilkynning

Fjárhagsbók

Ársskýrsla 2021

Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, segir:

„Eins og uppgjörið ber með sér gekk rekstur Landsbankans vel á árinu 2021. Arðsemi bankans var 10,8% sem er í samræmi við okkar markmið og telst vera gríðarlega góður árangur, sérstaklega ef litið er til þess að bankinn býr yfir miklu eigin fé, eða um 283 milljörðum króna, og er eiginfjárhlutfallið töluvert umfram kröfur eftirlitsaðila. Tekjur hafa aukist en umbætur í rekstri hafa leitt til aukinnar skilvirkni og kostnaður hefur haldist stöðugur mörg undanfarin ár. Á árinu jukust þjónustutekjur töluvert umfram markmið, en sá árangur skýrist einna helst af auknum verðbréfaviðskiptum og góðum árangri í eignastýringu. Við komum að nokkrum árangursríkum hluta- og skuldafjárútboðum á árinu og Fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans sá m.a. um frumútboð Síldarvinnslunnar, sem heppnaðist mjög vel.

Þótt Covid-19 hafi sett mikinn svip á árið 2021 náði starfsfólk bankans verulega góðum árangri. Viðskiptavinum á öllum viðskiptasviðum bankans fjölgaði mikið og við kynntum fjölmargar nýjungar og betri þjónustu fyrir einstaklinga, fyrirtæki, fagfjárfesta og viðskiptavini í eignastýringu. Þriðja árið í röð var Landsbankinn efstur banka í Íslensku ánægjuvoginni. Við hlökkum til að kynna enn frekari nýjungar og góða þjónustu fyrir þeim fjölmörgu nýju viðskiptavinum sem bættust í hópinn á árinu, en þeir voru fleiri en nokkru sinni fyrr.

Góður rekstur bankans skilar sér til viðskiptavina og í þrjú ár höfum við til að mynda getað boðið lægstu íbúðalánavexti á óverðtryggðum íbúðalánum. Þetta hefur leitt til þess að fleiri velja að taka íbúðalán hjá bankanum og á árinu 2021 tóku að meðaltali rúmlega 700 fjölskyldur og einstaklingar lán hjá bankanum í hverjum mánuði. Fyrirtæki hafa frekar haldið að sér höndum sökum óvissu, og því minna óskað eftir lánum, þó með þeirri undantekningu að ágætur gangur hefur verið í útlánum til verktaka, en bankinn tók þátt í að fjármagna byggingu um 3.800 íbúða á árinu 2021. Þá er staða bankans áfram sterk í sjávarútvegi og útlán til sjávarútvegsfyrirtækja mynda stærsta hluta lánasafns bankans, fyrir utan lán til einstaklinga. Horfur fyrir næsta ár eru enn óljósar hvað varðar útlán til fyrirtækja, því þó staða þeirra sé almennt góð og bankinn tilbúinn að fjármagna verkefni, þá eykur hætta á verðbólgu og verðhækkunum óvissuna. Landsbankinn hefur unnið ötullega að sjálfbærni í starfsemi bankans undanfarin ár og óhætt er að segja að þessi vinna hafi borið ríkulegan ávöxt á árinu 2021. Nýr sjálfbær fjármálarammi hefur leitt til aukinnar fjölbreytni í fjármögnun en á árinu 2021 gáfum við út tvo græna skuldabréfaflokka, samtals að fjárhæð 600 milljónir evra. Sjálfbærnivinna bankans hefur líka myndað tækifæri fyrir aukna þjónustu til viðskiptavina, til dæmis í skuldabréfaútgáfu og við lánveitingar. Samkvæmt mati alþjóðlega matsfyrirtækisins Sustainalytics er talin hverfandi áhætta á að bankinn verði fyrir áföllum vegna UFS-þátta, sem eru mikilvæg skilaboð til fjárfesta, hluthafa og viðskiptavina bankans.

Góð afkoma bankans veldur því að það er töluvert svigrúm til að greiða út arð til hluthafa. Þá er eigið fé bankans talsvert umfram kröfur eftirlitsaðila og umfram það sem við teljum hæfilegt. Við sjáum tækifæri til að bæta fjármagnsskipan bankans með því að lækka eigið fé með arðgreiðslum og stjórn bankans mun leggja fram tillögu til aðalfundar um greiðslu arðs sem nemur um helmingi hagnaðar ársins 2021.

Enn er gjarnan rætt um Landsbankann sem banka allra landsmanna. Um er að ræða gamalt slagorð en við erum stolt af því að vera vel tengd við allt landið. Við viljum taka stöðugum framförum, vera til staðar um allt land, einfalda líf viðskiptavina og veita framúrskarandi fjármálaþjónustu fyrir fjölbreytta atvinnustarfsemi og fyrirtæki af öllum stærðum og gerðum. Við viljum að fólk um land allt velji Landsbankann, fái þannig aðgang að bankaþjónustu allan sólarhringinn og geti leitað til þaulreyndra sérfræðinga og ráðgjafa, hvort sem er á staðnum eða á fjarfundum. Síðast en ekki síst viljum við þróast í takt við samfélagið. Það er Landsbanki nýrra tíma.“

Helstu atriði úr rekstri á fjórða ársfjórðungi (4F) 2021

  • Hagnaður á 4F 2021 nam 7,3 milljörðum króna samanborið við hagnað upp á 9,8 milljarða króna á sama ársfjórðungi árið 2020.
  • Arðsemi eiginfjár, eftir skatta, var 10,5% á 4F 2021, samanborið við 15,5% arðsemi á sama ársfjórðungi árið á undan.
  • Hreinar vaxtatekjur á ársfjórðungnum voru 10,4 milljarðar króna en þær námu 9,7 milljörðum króna á 4F 2020.
  • Virðisbreyting útlána var jákvæð um 3,2 milljarða króna á 4F 2021 en var jákvæð um 1,5 milljarð króna á 4F 2020.
  • Hreinar þjónustutekjur námu 2,6 milljörðum króna en voru 2,0 milljarðar króna á 4F 2020.
  • Vaxtamunur í hlutfalli af meðalstöðu eigna og skulda var 2,4% á 4F 2021 og er óbreyttur frá 4F 2020.
  • Laun og launatengd gjöld námu 4,0 milljörðum og eru óbreytt frá 4F 2020.
  • Rekstrarkostnaður að frátöldum launum og launatengdum gjöldum nam 2,4 milljörðum króna á 4F 2021 og er óbreyttur frá 4F 2020.
  • Kostnaðaðarhlutfall (K/T) á fjórða ársfjórðungi 2021 var 47,6% samanborið við 38,8% á sama ársfjórðungi árið á undan.

Helstu atriði úr rekstri og efnahag árið 2021

Rekstur:

  • Hagnaður á árinu 2021 nam 28,9 milljörðum króna eftir skatta, samanborið við 10,5 milljarða króna á árinu 2020.
  • Arðsemi eigin fjár eftir skatta var 10,8% samanborið við 4,3% arðsemi árið áður.
  • Hreinar vaxtatekjur námu 39 milljörðum króna á árinu 2021 samanborið við 38,1 milljarð króna á árinu 2020.
  • Vaxtamunur í hlutfalli af meðalstöðu eigna og skulda var 2,3% árið 2021 en 2,5% árið 2020.
  • Hreinar þjónustutekjur námu 9,5 milljörðum króna á árinu 2021 samanborið við 7,6 milljarða króna á árinu 2020.
  • Aðrar rekstrartekjur námu 13,9 milljörðum króna samanborið við gjaldfærslu upp á 7,5 milljarða króna árið 2020. Virðisbreyting útlána var jákvæð um 7,0 milljarða króna árið 2021 samanborið við 12,0 milljarða króna hreina virðisrýrnun árið 2020. Viðsnúninginn má rekja til betri horfa í efnahagsmálum og minni áhrifa kórónuveirufaraldursins á útlán bankans en áður var gert ráð fyrir.
  • Laun og launatengd gjöld námu 14,8 milljörðum króna á árinu 2021 og eru óbreytt á milli ára.
  • Rekstrarkostnaður að frátöldum launum og tengdum gjöldum nam 11,1 milljarði króna samanborið við 10,9 milljarða króna árið 2020.
  • Kostnaðarhlutfallið (K/T) lækkar á milli ára. Þetta hlutfall var 43,2% árið 2021 samanborið við 47,4% árið 2020.
  • Tekjuskattur á árinu 2021 nam 7,5 milljörðum króna samanborið við 2,1 milljarð króna á árinu 2020.
  • Stöðugildi í árslok 2021 voru 816 en voru 878 í lok árs 2020.

Efnahagur:

  • Eigið fé í árslok 2021 var 282,6 milljarðar króna, sem er 24,4 milljörðum krónum hærra en í árslok 2020. Á árinu 2021 greiddi Landsbankinn 4,5 milljarða króna í arð til hluthafa.
  • Eiginfjárhlutfall bankans (e. total capital ratio) í lok árs 2021 var 26,6% en var 25,1% í lok árs 2020. Það er verulega umfram 18,9% eiginfjárkröfu Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands.
  • Heildareignir bankans námu 1.730 milljörðum króna í lok árs 2021 og hækkuðu um 11% á milli ára.
  • Útlán jukust um 9% á milli ára, eða um 114 milljarða króna. Útlán til einstaklinga jukust um 133 milljarða króna og útlán til fyrirtækja drógust saman um 19 milljarða króna, þar af skýra breytingar á gengi gjaldmiðla 8,8 milljarða króna.
  • Innlán viðskiptavina jukust um 13,4% á árinu 2021, eða um 106,7 milljarða króna. Innlán frá fjármálafyrirtækjum námu 10,4 milljörðum í árslok 2021.
  • Bankinn fylgist náið með og stýrir lausafjáráhættu bankans í heild, í erlendum myntum og í íslenskum krónum. Lausafjárhlutfall (e. liquidity coverage ratio) var 179% í lok árs 2021 samanborið við 154% í lok árs 2020.
  • Á árinu 2021 lækkaði liðurinn eignir til sölu um 733 milljónir króna.
  • Heildarvanskil fyrirtækja og heimila voru 0,3% af útlánum í árslok 2021 samanborið við 0,8% í árslok 2020. Vegna tímabundinna sértækra Covid-19-úrræða mælast vanskil minni en ella.

Helstu niðurstöður (fjárhæðir í milljónum króna)

  2021 2020 4F 2021 4F 2020
Hagnaður eftir skatta 28.919 10.521 7.322 9.822
Arðsemi eigin fjár eftir skatta 10,8%

4,3% 10,5% 15,5%
Vaxtamunur í hlutfalli af meðalstöðu eigna 2,3% 2,5% 2,4% 2,4%
Kostnaður sem hlutfall af tekjum (K/T) * 43,2% 47,4% 47,6% 38,8%

Helstu niðurstöður (fjárhæðir í milljónum króna)

  31.12.2021 31.12.2020
Heildareignir 1.729.798 1.564.177
Útlán til viðskiptavina 1.387.463 1.273.426
Innlán frá viðskiptavinum 900.098 793.427
Eigið fé 282.645 258.255
Eiginfjárhlutfall alls 26,6% 25,1%
Fjármögnunarþekja erlendra mynta 142% 132%
Heildarlausafjárþekja 179% 154%
Lausafjárþekja erlendra mynta 556% 424%
Vanskilahlutfall (>90 daga) 0,3% 0,8%
Stöðugildi 816 878

* K/T = Rekstrargjöld alls/(Hreinar rekstrartekjur – virðisbreytingar útlána).

Aðrir þættir í rekstri bankans á árinu 2021

  • Landsbankinn mældist efstur í Íslensku ánægjuvoginni hjá viðskiptavinum í bankaþjónustu árið 2021, þriðja árið í röð.
  • Einstaklingum í virkum viðskiptum við bankann fjölgaði um 5.100 á árinu. Í lok árs 2021 var markaðshlutdeild bankans á einstaklingsmarkaði 39,5%, samkvæmt gögnum bankans, og hefur aldrei verið hærri. Bankinn hefur verið með mestu markaðshlutdeild á einstaklingsmarkaði frá árinu 2014.
  • Markaðshlutdeild bankans á fyrirtækjamarkaði er 33,6% ef miðað er við fyrirtæki sem skila ársreikningum. Bankinn er með um 40% hlutdeild í útlánum til fyrirtækja.
  • Fyrirtæki í viðskiptum við Landsbankann eru þau sem eru ánægðust með þjónustu síns aðalviðskiptabanka. Þá fá sjálfsafgreiðslulausnirnar okkar hæstu einkunn.
  • Eignir í stýringu hjá samstæðu Landsbankans námu um 726 milljörðum króna í lok árs 2021 og jukust um 31% á milli ára.
  • Hlutdeild bankans á íbúðalánamarkaði hélt áfram að vaxa og var 29,1% á árinu 2021.
  • Notendur Landsbankaappsins voru um 91.800 í lok árs 2021 og fjölgaði um 23,8% á milli ára.
  • Innlán hjá bankanum námu um 900 milljörðum króna og jukust um 13,4% á milli ára.
  • Á árinu 2021 tóku 1.544 fjölskyldur og einstaklingar íbúðalán til að kaupa sína fyrstu fasteign hjá Landsbankanum.
  • Viðskipti með sjóði Landsbréfa, dótturfélags bankans, jukust um 40% milli ára og viðskipti með hlutabréf tvöfölduðust. Hlutfall sjálfsafgreiðslu í hlutabréfa- og sjóðaviðskiptum var um 80%.
  • Landsbréf kynntu þrjá nýja sjóði á árinu: Horn IV, Brunn vaxtarsjóð II og Eignadreifingu sjálfbæra.
  • Um helmingur allra bílalána á árinu 2021 voru vegna kaupa á vistvænum bílum.
  • Í nóvember gáfum við í annað sinn á árinu út græn skuldabréf í evrum.
  • Í nóvember opnuðum við svokallaðan sandkassa sem hægt er að nýta til að þróa fjártæknilausnir til að tengja við kerfi bankans og er þetta liður í undirbúningi fyrir gildistöku Evróputilskipunarinnar PSD2.
  • Afgreiðslutíma útibúa var í október breytt þannig að opið er milli kl. 10 og 16. Um leið var sveigjanleiki í þjónustu aukinn með því að bjóða viðskiptavinum að panta tíma í ráðgjöf frá kl. 10 til 18.
  • Hagfræðideild Landsbankans kynnti nýja þjóðhags- og verðbólguspá í október. Í spánni er m.a. gert ráð fyrir 5,5% hagvexti á árinu 2021 og að meginvextir Seðlabankans muni hækka í 5,5%.
  • Í september héldum við vel heppnaðan fræðslufund um mikilvægi eignadreifingar.
  • Í júlí útnefndi alþjóðlega fjármálatímaritið Euromoney Landsbankann besta bankann á Íslandi 2021, þriðja árið í röð.
  • Í júlí var sjálfbærnimerki Landsbankans veitt í fyrsta sinn. Útgerðarfélag Reykjavíkur hf. fékk sjálfbærnimerkið vegna MSC-vottaðra fiskveiða. Seinna á árinu fengu Ljósleiðarinn og Orkuveita Reykjavíkur sjálfbærnimerkið.
  • Sveitarfélagið Árborg gaf í júní út fyrsta íslenska sjálfbærniskuldabréfið og heppnaðist útgáfan vel. Landsbankinn annaðist ferlið frá upphafi til enda.
  • Í júní lauk bankinn við að meta kolefnislosun frá lánasafni sínu og varð Landsbankinn einn af fyrstu bönkunum á heimsvísu til þess.
  • Eignadreifing sjálfbær er nýr fjárfestingarsjóður Landsbréfa, dótturfélags Landsbankans, sem tók til starfa í júní.
  • Í maí var greint frá því að Eignastýring Landsbankans hefði gert samstarfssamning við bandaríska fjárfestingarbankann Goldman Sachs.
  • Landsbankinn fékk bestu einkunn sína hingað til, eða 9,7 stig af 100, í uppfærðu UFS-áhættumati frá Sustainalytics og er metinn með hverfandi áhættu á að verða fyrir áföllum vegna UFS-þátta, sem er leiðandi niðurstaða á heimsvísu.
  • Fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans hafði umsjón með vel heppnuðu hlutafjárútboði Síldarvinnslunnar hf. sem stóð 10.-12. maí.
  • Aðalfundur bankans, sem haldinn var 24. mars 2021, samþykkti að greiða um 4,5 milljarða króna í arð til hluthafa.
  • Landsbankinn gaf í febrúar út sín fyrstu grænu skuldabréf í evrum. Skuldabréfin voru að fjárhæð 300 milljónir evra og báru lægstu vexti sem bankinn hefur fjármagnað sig á.
  • Í febrúar kolefnisjafnaði bankinn starfsemi sína fyrir árið 2020 í samstarfi við Natural Capital Partners og hlaut hina alþjóðlega viðurkenndu CarbonNeutral® vottun.
  • Fyrsta sjálfbæra fjármálaumgjörð bankans var gefin út í janúar, vottuð af alþjóðlega matsfyrirtækinu Sustainalytics.
  • Alþjóðlega matsfyrirtækið S&P Global Ratings birti í janúar lánshæfismat fyrir sértryggð skuldabréf útgefin af Landsbankanum. Þetta var í fyrsta skipti sem alþjóðlegt matsfyrirtæki gefur út lánshæfiseinkunn fyrir sértryggð skuldabréf íslensks banka.

Ársreikningur samstæðu 2021

Afkomukynning

Fréttatilkynning

Fjárhagsbók

Ársskýrsla 2021

Þú gætir einnig haft áhuga á
Austurbakki
13. des. 2024
Góð kjör í útgáfu víkjandi skuldabréfa
Landsbankinn lauk í dag útboði víkjandi skuldabréfa sem teljast til eiginfjárþáttar 2 (e. Tier 2).
Austurbakki
23. okt. 2024
Uppgjör Landsbankans fyrir fyrstu níu mánuði ársins 2024
Hagnaður Landsbankans á fyrstu níu mánuðum ársins 2024 nam 26,9 milljörðum króna eftir skatta, þar af 10,8 milljörðum króna á þriðja ársfjórðungi. Arðsemi eiginfjár var 11,7% samanborið við 10,5% á sama tímabili árið áður.
Austurbakki
10. sept. 2024
Landsbankinn gefur út víkjandi forgangsbréf í sænskum og norskum krónum
Landsbankinn hefur lokið sölu á skuldabréfum með breytilegum vöxtum að fjárhæð 1.000 milljónir sænskra króna og 250 milljónir norskra króna. Skuldabréfin eru til fjögurra ára og með heimild til innköllunar að þremur árum liðnum.
Austurbakki
18. júlí 2024
Uppgjör Landsbankans fyrir fyrri helming ársins 2024
Hagnaður Landsbankans á fyrri helmingi ársins 2024 nam 16,1 milljarði króna eftir skatta, þar af 9,0 milljörðum króna á öðrum ársfjórðungi. Arðsemi eiginfjár var 10,5% samanborið við 10,3% á sama tímabili árið áður.
Austurbakki
7. júní 2024
S&P segir kaup Landsbankans á TM fjölga tekjustoðum og hafa hófleg áhrif á eiginfjárstöðu
Alþjóðlega lánshæfismatsfyrirtækið S&P Global Ratings (S&P) telur að kaup Landsbankans á TM tryggingum hf. (TM) skapi tækifæri fyrir bankann til að festa sig í sessi á íslenskum tryggingamarkaði, breikka þjónustuframboð til viðskiptavina og auka fjölbreytni í tekjustoðum bankans til framtíðar. Þetta kemur fram í tilkynningu sem S&P birti 5. júní 2024.
Austurbakki
30. maí 2024
Samningur um kaup Landsbankans á TM undirritaður
Samningur um kaup Landsbankans á TM tryggingum hf. af Kviku banka var undirritaður í dag.
Austurbakki
2. maí 2024
Uppgjör Landsbankans fyrir fyrstu þrjá mánuði ársins 2024
Hagnaður Landsbankans á fyrstu þremur mánuðum ársins 2024 nam 7,2 milljörðum króna eftir skatta. Arðsemi eiginfjár á tímabilinu var 9,3% samanborið við 11,1% á sama tímabili árið áður.
Austurbakki
19. apríl 2024
Niðurstöður aðalfundar Landsbankans 2024
Aðalfundur Landsbankans, sem haldinn var 19. apríl 2024, samþykkti að greiða 16.535 milljónir króna í arð til hluthafa.
Austurbakki
4. apríl 2024
S&P hækkar lánshæfismat Landsbankans í BBB+
Alþjóðlega lánshæfismatsfyrirtækið S&P Global Ratings tilkynnti í dag að fyrirtækið hefði hækkað lánshæfismat Landsbankans. Hækkunin nemur einu þrepi og er lánshæfismatið því BBB+ með stöðugum horfum.
Austurbakki
27. mars 2024
Aðalfundur Landsbankans 2024 - fundarboð
Aðalfundur Landsbankans verður haldinn föstudaginn 19. apríl 2024 kl. 16.00 í Reykjastræti 6, Reykjavík.
Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur