Upp­gjör Lands­bank­ans fyr­ir árið 2018

Hagnaður Landsbankans á árinu 2018 nam 19,3 milljörðum króna, eftir skatta. Arðsemi eiginfjár var 8,2% á árinu 2018 sem er sama arðsemi og árið 2017. Kostnaðarhlutfall lækkaði á milli ára og var 45,5% á árinu 2018.
Höfuðstöðvar Landsbankans Austurstræti 11
7. febrúar 2019 - Landsbankinn
  • Útlán Landsbankans jukust um 138,9 milljarða króna. Vanskilahlutfall útlána í árslok var 0,8% samanborið við 0,9% í lok árs 2017.
  • Eigið fé Landsbankans nam 239,6 milljörðum króna í árslok 2018 og eiginfjárhlutfallið var 24,9% af áhættugrunni.
  • Lagt verður til við aðalfund að greiddur verði 9,9 milljarða króna arður til hluthafa vegna ársins 2018.
  • Ársskýrsla Landsbankans og áhættuskýrsla fyrir árið 2018 koma út samhliða birtingu ársuppgjörs. Skýrslurnar eru aðgengilegar á vef bankans.

Kynning á afkomu

Hreiðar Bjarnason, framkvæmdastjóri Fjármála Landsbankans, kynnir afkomu bankans árið 2018 og ræðir helstu atriði rekstrarins á þeim tíma (02.05).

Hagnaður Landsbankans hf. á árinu 2018 nam 19,3 milljörðum króna eftir skatta, samanborið við 19,8 milljarða króna á árinu 2017. Arðsemi eigin fjár eftir skatta var 8,2% á árinu 2018 sem er sama arðsemi og árið 2017. Hreinar vaxtatekjur jukust um rúma 4,5 milljarða króna milli ára og námu 40,8 milljörðum króna árið 2018. Hreinar þjónustutekjur Landsbankans námu 8,2 milljörðum króna og stóðu nokkurn vegin í stað frá fyrra ári. Aðrar rekstrartekjur námu 3,6 milljörðum króna og lækkuðu um 49% á milli ára. Óhagstæðar aðstæður á verðbréfamörkuðum eru helsta skýring lækkunarinnar. Jákvæð virðisbreyting ársins nam 1,4 milljarði króna samanborið við jákvæða virðisbreytingu upp á 1,8 milljarð króna árið 2017. Vaxtamunur eigna og skulda nam 2,7% en var 2,5% árið áður.

Rekstrarkostnaður var 23,9 milljarðar króna og hækkar um 0,4% á milli ára. Þar af voru laun og launatengd gjöld 14,6 milljarðar króna, samanborið við 14,1 milljarð króna árið áður sem er hækkun um 3,8% á milli ára. Annar rekstrarkostnaður lækkar um 4,5%.

Hagnaður fyrir skatta á árinu 2018 var 30 milljarðar króna samanborið við 29,7 milljarða króna árið 2017. Reiknaðir skattar, þar með talið sérstakur fjársýsluskattur á laun, voru 11,4 milljarðar króna árið 2018 samanborið við 10,6 milljarða króna árið 2017.

Heildareignir Landsbankans jukust um 133,2 milljarða króna á milli ára og námu í árslok 2018 alls 1.326 milljörðum króna. Útlán jukust um 15,0% milli ára, eða um 138,9 milljarða króna. Útlán jukust bæði til einstaklinga og fyrirtækja. Vanskilahlutfall útlána heldur áfram að lækka og var 0,8% í lok árs 2018, samanborið við 0,9% í lok árs 2017.

Í árslok 2018 voru innlán frá viðskiptavinum 693 milljarðar króna, samanborið við 605 milljarða króna í árslok 2017.

Eigið fé Landsbankans í árslok 2018 var 239,6 milljarðar króna samanborið við 246,1 milljarð króna í árslok 2017. Á árinu 2018 greiddi Landsbankinn 24,8 milljarða króna í arð til hluthafa. Eiginfjárhlutfall Landsbankans í árslok 2018 var 24,9%, samanborið við 26,7% í árslok 2017. Eiginfjárgrunnur Landsbankans skal vera að lágmarki 20,5%, samkvæmt heildarkröfum Fjármálaeftirlitsins.

Bankaráð Landsbankans mun leggja til við aðalfund þann 20. mars 2019 að greiddur verði arður til hluthafa vegna ársins 2018 sem nemur 0,42 krónu á hlut, eða samtals 9,9 milljörðum króna. Arðgreiðslan nemur um 52% af hagnaði ársins 2018.

Ársreikningur samstæðu 2018

Afkomukynning

Fréttatilkynning

Fjárhagsbók

Ársskýrsla 2018

Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, segir:

„Landsbankinn hefur eflst á árinu 2018 - aukin markaðshlutdeild, bætt rekstrarafkoma, aukin ánægja og traust viðskiptavina er hvatning til að gera enn betur.

Góður árangur við innleiðingu nýrra stafrænna lausna til viðskiptavina hefur skilað sér í hagkvæmari rekstri. Útlán jukust umtalsvert, og heldur umfram áætlanir, en þó í takt við stefnu bankans og innan skilgreindrar útlánastefnu. Árangur af áherslu á hagræðingu og skilvirkni í rekstri kom berlega í ljós en heildarrekstrarkostnaður bankans stóð nánast í stað milli ára, þrátt fyrir kjarasamningsbundnar launahækkanir, því annar rekstrarkostnaður en laun lækkaði um 4,5%. Kostnaðarhlutfall bankans lækkaði í 45,5%. Arðsemi eiginfjár fyrir árið var 8,2%.

Landsbankinn leggur megináherslu á að þjónusta bankans mæti þörfum viðskiptavina og að reksturinn sé traustur, bæði til lengri og skemmri tíma. Mikil tækifæri felast í þeim tækniframförum og breytingum á fjármálaþjónustu sem eiga sér stað um þessar mundir og jafnframt er töluverð áskorun fyrir bankann að mæta auknum kröfum á þessu sviði.

Við erum þakklát því mikla trausti sem viðskiptavinir bankans sýna okkur. Markaðshlutdeild Landsbankans hefur aukist jafnt og þétt og er sú mesta á landinu, fimmta árið í röð. Hlutdeild bankans á einstaklingsmarkaði mælist nú um 38% og 34% á fyrirtækjamarkaði. Ánægja með þjónustuna mælist hærri en fyrr, traust til bankans hefur vaxið og það er einkar ánægjulegt að kannanir sýna að viðskiptavinir Landsbankans eru líklegri til að mæla með sínum banka en viðskiptavinir annarra banka.

Vöruþróun, breytingar og nýsköpun er fastur og nauðsynlegur þáttur í vexti og rekstri bankans og bættri þjónustu við viðskiptavini. Árið 2018 einkenndist af fjölmörgum spennandi nýjungum í stafrænni þjónustu og líklega er óhætt að segja að aldrei hafi orðið jafn miklar breytingar á þjónustu bankans á jafn stuttum tíma. Framboð bankans á nýjum lausnum byggir á traustum grunni þar sem öflug tæknigeta, framúrskarandi starfsfólk, sterk markaðshlutdeild, fjölbreyttar þjónustuleiðir og áhersla á að efla og viðhalda persónulegum viðskiptasamböndum eru lykilþættir.“

Helstu atriði úr rekstri á fjórða ársfjórðungi (4F) 2018

  • Hagnaður Landsbankans á 4F nam 3,9 milljörðum króna, samanborið við 2,9 milljarða króna á sama fjórðungi 2017.
  • Arðsemi eiginfjár hækkar talsvert á milli tímabila og var 6,5% á 4F, samanborið við 4,8% arðsemi á sama ársfjórðungi árið á undan.
  • Virðisbreyting útlána var neikvæð um 286 milljónir króna á 4F 2018 en var neikvæð um 282 milljónir króna á 4F 2017.
  • Hreinar vaxtatekjur á ársfjórðungnum voru 11 milljarðar króna en þær námu 9,2 milljörðum króna á 4F 2017.
  • Hreinar þjónustutekjur voru 2,4 milljarðar króna en þær voru 1,8 milljarðar króna á 4F 2017.

Helstu atriði úr rekstri og efnahag árið 2018

Rekstur:

  • Hagnaður Landsbankans á árinu 2018 nam 19,3 milljörðum króna, samanborið við 19,8 milljarða króna á árinu 2017.
  • Arðsemi eigin fjár eftir skatta var 8,2% sem er sama arðsemi og árið 2017.
  • Hreinar vaxtatekjur hækka um 4,5 milljarða króna frá fyrra ári. Þær námu 40,8 milljörðum króna á árinu 2018 samanborið við 36,3 milljarða króna á árinu 2017.
  • Vaxtamunur eigna og skulda hækkar á milli ára, var 2,7% árið 2018 en 2,5% árið 2017.
  • Hreinar þjónustutekjur Landsbankans stóðu nokkurn veginn í stað og námu 8,2 milljörðum króna.
  • Virðisbreytingar voru jákvæðar um 1,4 milljarð króna á árinu 2018 samanborið við jákvæðar virðisbreytingar að fjárhæð 1,8 milljarð króna árið 2017.
  • Aðrar rekstrartekjur námu 3,6 milljörðum króna samanborið við 7 milljarða króna árið 2017. Óhagstæðar aðstæður á verðbréfamörkuðum eru helsta skýring lækkunarinnar.
  • Laun og launatengd gjöld hækka um 3,8% á milli ára.
  • Rekstrarkostnaður að frátöldum launum og tengdum gjöldum lækkar á milli ára um 4,5%.
  • Kostnaðarhlutfall lækkar á milli ára. Það var 45,5% árið 2018 samanborið við 46,1% árið 2017.
  • Stöðugildum í Landsbankanum fækkaði um 78 á árinu 2018 og voru þau 919 í árslok.
  • Skattar Landsbankans á árinu 2018 voru 10,7 milljarðar króna samanborið við 9,9 milljarða króna á árinu 2017.

Efnahagur:

  • Eiginfjárhlutfall bankans (e. total capital ratio) í lok árs 2018 var 24,9% en var 26,7% í lok árs 2017. Það er verulega umfram 20,5% eiginfjárviðmið Fjármálaeftirlitsins.
  • Heildareignir bankans námu 1.326 milljörðum króna í lok árs 2018 og hækkuðu um rúmlega 11% á milli ára.
  • Útlán jukust um 15,0% milli ára, eða um 138,9 milljarða króna. Útlán til fyrirtækja jukust um 81,9 milljarða króna og útlán til einstaklinga jukust um 57 milljarða króna.
  • Innlán viðskiptavina, að fjármálafyrirtækjum undanskildum, jukust um 14,5% á árinu 2018, eða um 87,9 milljarða króna. Innlán frá fjármálafyrirtækjum hækkuðu um 2,5 milljarða króna á árinu.
  • Lausafjárstaða bankans er sterk og vel umfram kröfur eftirlitsaðila. Lausafjárhlutfall bankans (e. liquidity coverage ratio) var 158% í lok árs 2018.
  • Á árinu 2018 lækkaði liðurinn eignir til sölu um 2,3 milljarða króna.
  • Heildarvanskil fyrirtækja og heimila lækkuðu í 0,8% í lok árs 2018, úr 0,9% í lok árs 2017.

Helstu niðurstöður (fjárhæðir í milljónum króna)

  2018 2017 4F 2018 4F 2017
Hagnaður eftir skatta 19.260 19.766 3.867 2.925
Arðsemi eigin fjár eftir skatta 8,2% 8,2% 6,5% 4,8%
Vaxtamunur eigna og skulda * 2,7% 2,5% 2,8% 2,5%
Kostnaðarhlutfall ** 45,5% 46,1% 47,3% 50,7%

Helstu niðurstöður (fjárhæðir í milljónum króna)

  31.12.2018 31.12.2017
Heildareignir 1.326.041 1.192.870
Útlán til viðskiptavina 1.064.532 925.636
Innlán frá viðskiptavinum 693.043 605.158
Eigið fé 239.610 246.057
Eiginfjárhlutfall alls 30,2% 26,7%
Fjármögnunarþekja erlendra mynta 24,9% 179%
Heildar lausafjárþekja 166% 157%
Lausafjárþekja erlendra mynta 534% 931%
Vanskilahlutfall (>90 daga) 0,8% 0,9%
Stöðugildi 919 997

* Vaxtamunur eigna og skulda = (Vaxtatekjur/meðalstaða heildareigna) – (vaxtagjöld/meðalstaða heildarskulda).
** Kostnaðarhlutfall = Rekstrargjöld alls/(Hreinar rekstrartekjur – virðisbreytingar útlána).

Aðrir þættir í rekstri Landsbankans á árinu 2018

  • Markaðshlutdeild Landsbankans á bankamarkaði hefur aukist jafnt og þétt á undanförnum árum. Samkvæmt mælingum Gallup var bankinn að meðaltali með 37,8% markaðhlutdeild á einstaklingsmarkaði á árinu 2018 og hefur bankinn verið með mestu markaðshlutdeild íslensku bankanna fimm ár í röð. Markaðshlutdeild Landsbankans á fyrirtækjamarkaði var 34%.
  • Umfang eignastýringar Landsbankans jókst á árinu 2018 og í árslok voru heildareignir í stýringu hjá samstæðu Landsbankans 438 milljarðar króna, að lífeyrissparnaði meðtöldum. Landsbankinn var með 20% heildarhlutdeild á verðbréfamarkaði þar sem átta aðilar keppa.
  • Landsbankaappið kom út í febrúar og hlaut strax mjög góðar viðtökur. Árið 2018 kynnti Landsbankinn alls um 20 nýjungar í stafrænni þjónustu.
  • Landsbankinn skrifaði í febrúar undir samning um að gerast aðili að verkefninu Jafnréttisvísir Capacent. Jafnréttisvísirinn er stefnumótun og vitundarvakning á sviði jafnréttis þar sem staða jafnréttismála innan fyrirtækis eða stofnunar er metin með ítarlegri greiningavinnu. Í kjölfarið er unnið að breytingaverkefnum og markmiðasetningu til að bæta stöðu jafnréttismála.
  • Í febrúar ákvað Landsbankinn að ganga til samninga við Arkþing ehf. og C.F. Møller um hönnun og þróun á nýbyggingu bankans við Austurhöfn í Reykjavík. Sex arkitektateymi höfðu skilað inn frumtillögum að hönnun hússins.
  • Aðalfundur Landsbankans 21. mars 2018 samþykkti að bankinn greiddi samtals út arð að fjárhæð 24,8 milljarðar króna á árinu 2018. Annars vegar var um að ræða 15.366 milljóna króna arð vegna rekstrarársins 2017 og hins vegar sérstakan arð til hluthafa að fjárhæð 9.456 milljónir króna. Landsbankinn hefur samtals greitt um 132 milljarða króna í arð á árunum 2013-2018.
  • Rannsóknarmiðstöð um stjórnarhætti endurnýjaði í apríl viðurkenningu Landsbankans sem fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum fyrir tímabilið 2017-2018.
  • Í maí tóku gildi breytingar á afgreiðslutíma 11 útibúa og afgreiðslna bankans, auk þess sem skipulagsbreytingar voru gerðar á útibúi Landsbankans við Hagatorg í Reykjavík.
  • Landsbankinn hlaut í júní viðurkenningu fyrir bestu samfélagsskýrslu ársins 2018. Viðurkenningin var veitt af Festu, Stjórnvísi og Viðskiptaráði. Þetta var í fyrsta sinn sem viðurkenningin er veitt. Í umsögn dómnefndar kom m.a. fram að af lestri skýrslunnar að ráða væri ljóst að samfélagsstefna bankans væri mótuð með víðtækri aðkomu starfsmanna og að samfélagsábyrgð væri hluti af kjarnastarfsemi bankans.
  • Í júlí var ný persónuverndarstefna Landsbankans kynnt og réttindagátt opnuð á vef bankans þar sem viðskiptavinir geta t.d. óskað eftir aðgangi að þeim persónuupplýsingum sem bankinn vinnur um viðkomandi.
  • Alþjóðlega lánshæfismatsfyrirtækið S&P Global Ratings staðfesti í júlí óbreytta lánshæfiseinkunn Landsbankans fyrir skuldbindingar til lengri og skemmri tíma (BBB+/A-2) með áframhaldandi stöðugum horfum.
  • Eignastýring Landsbankans gerði í ágúst samstarfssamning við alþjóðlega eignastýringarfyrirtækið LGT Capital Partners. Samningurinn felur í sér að viðskiptavinir Landsbankans geta nú fjárfest í fjölbreyttum fjárfestingasjóðum LGT.
  • Í ágúst lauk Landsbankinn sölu á fyrstu víkjandi skuldabréfaútgáfu bankans að fjárhæð 100 milljónir evra og voru bréfin tekin til viðskipta í írsku kauphöllinni 6. september.
  • Landsbankinn og Norræni fjárfestingabankinn (NIB) undirrituðu í ágúst lánasamning þar sem Landsbankinn fær lánveitingu að fjárhæð 75 milljónir Bandaríkjadala til sjö ára sem ætluð er til fjármögnunar á litlum og meðalstórum fyrirtækjum á Íslandi og verkefnum tengdum umhverfismálum. Um var að ræða þriðja lánasamninginn sem NIB gerir við Landsbankann.
  • Kortaapp Landsbankans var kynnt í október 2018 og var það fyrsta appið á Íslandi sem gerir viðskiptavinum kleift að nota símann til að greiða fyrir vörur og þjónustu í snertilausum posum um allan heim, óháð upphæðartakmörkunum. Appið er þróað af Visa og hefur verið í notkun í Bandaríkjunum og víðar um nokkurt skeið.
  • Landsbankinn seldi í nóvember 9,2% eignarhlut í Eyri Invest hf. í opnu söluferli. Söluandvirði hlutanna nam um 3,9 milljörðum króna.
  • Landsbankinn ákvað í desember að undirrita yfirlýsingu um að fylgja nýjum viðmiðum UNEP FI um ábyrga bankastarfsemi (Principles for Responsible Banking) sem ætlað er að tengja bankastarfsemi við Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og Parísarsamkomulagið.

Ársreikningur samstæðu 2018

Afkomukynning

Fréttatilkynning

Fjárhagsbók

Ársskýrsla 2018

Þú gætir einnig haft áhuga á
Austurbakki
13. des. 2024
Góð kjör í útgáfu víkjandi skuldabréfa
Landsbankinn lauk í dag útboði víkjandi skuldabréfa sem teljast til eiginfjárþáttar 2 (e. Tier 2).
Austurbakki
23. okt. 2024
Uppgjör Landsbankans fyrir fyrstu níu mánuði ársins 2024
Hagnaður Landsbankans á fyrstu níu mánuðum ársins 2024 nam 26,9 milljörðum króna eftir skatta, þar af 10,8 milljörðum króna á þriðja ársfjórðungi. Arðsemi eiginfjár var 11,7% samanborið við 10,5% á sama tímabili árið áður.
Austurbakki
10. sept. 2024
Landsbankinn gefur út víkjandi forgangsbréf í sænskum og norskum krónum
Landsbankinn hefur lokið sölu á skuldabréfum með breytilegum vöxtum að fjárhæð 1.000 milljónir sænskra króna og 250 milljónir norskra króna. Skuldabréfin eru til fjögurra ára og með heimild til innköllunar að þremur árum liðnum.
Austurbakki
18. júlí 2024
Uppgjör Landsbankans fyrir fyrri helming ársins 2024
Hagnaður Landsbankans á fyrri helmingi ársins 2024 nam 16,1 milljarði króna eftir skatta, þar af 9,0 milljörðum króna á öðrum ársfjórðungi. Arðsemi eiginfjár var 10,5% samanborið við 10,3% á sama tímabili árið áður.
Austurbakki
7. júní 2024
S&P segir kaup Landsbankans á TM fjölga tekjustoðum og hafa hófleg áhrif á eiginfjárstöðu
Alþjóðlega lánshæfismatsfyrirtækið S&P Global Ratings (S&P) telur að kaup Landsbankans á TM tryggingum hf. (TM) skapi tækifæri fyrir bankann til að festa sig í sessi á íslenskum tryggingamarkaði, breikka þjónustuframboð til viðskiptavina og auka fjölbreytni í tekjustoðum bankans til framtíðar. Þetta kemur fram í tilkynningu sem S&P birti 5. júní 2024.
Austurbakki
30. maí 2024
Samningur um kaup Landsbankans á TM undirritaður
Samningur um kaup Landsbankans á TM tryggingum hf. af Kviku banka var undirritaður í dag.
Austurbakki
2. maí 2024
Uppgjör Landsbankans fyrir fyrstu þrjá mánuði ársins 2024
Hagnaður Landsbankans á fyrstu þremur mánuðum ársins 2024 nam 7,2 milljörðum króna eftir skatta. Arðsemi eiginfjár á tímabilinu var 9,3% samanborið við 11,1% á sama tímabili árið áður.
Austurbakki
19. apríl 2024
Niðurstöður aðalfundar Landsbankans 2024
Aðalfundur Landsbankans, sem haldinn var 19. apríl 2024, samþykkti að greiða 16.535 milljónir króna í arð til hluthafa.
Austurbakki
4. apríl 2024
S&P hækkar lánshæfismat Landsbankans í BBB+
Alþjóðlega lánshæfismatsfyrirtækið S&P Global Ratings tilkynnti í dag að fyrirtækið hefði hækkað lánshæfismat Landsbankans. Hækkunin nemur einu þrepi og er lánshæfismatið því BBB+ með stöðugum horfum.
Austurbakki
27. mars 2024
Aðalfundur Landsbankans 2024 - fundarboð
Aðalfundur Landsbankans verður haldinn föstudaginn 19. apríl 2024 kl. 16.00 í Reykjastræti 6, Reykjavík.
Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur