Sölu Landsbankans á evrópskum sértryggðum skuldabréfum (úrvals) í evrum lauk í dag. Skuldabréfin eru að fjárhæð 300 milljónir evra, til fimm ára og bera 4,25% fasta vexti. Skuldabréfin voru seld á kjörum sem jafngilda 90 punkta álagi á miðgildi vaxtatilboða í vaxtaskiptasamningum á markaði.
Hreiðar Bjarnason, framkvæmdastjóri Fjármála og rekstrar, segir: „Sala á sértryggðum skuldabréfum í evrum er ánægjulegur áfangi í erlendri lánsfjármögnun Landsbankans og er til marks um fjölbreytni í fjármögnunarleiðum bankans. Um er að ræða fyrsta útboð Landsbankans á sértryggðri skuldabréfaútgáfu í erlendri mynt og hina fyrstu frá íslenskum banka sem telst til evrópskra sértryggðra skuldabréfa (úrvals) (e. European Covered Bond (Premium)).“
Útgáfan er undir útgáfuramma bankans fyrir sértryggð skuldabréf og verður lánshæfiseinkunn skuldabréfanna A, metin af S&P Global Ratings. Stefnt er að töku skuldabréfanna til viðskipta í írsku kauphöllinni þann 23. mars 2023.
Umsjónaraðilar voru Barclays, Natixis og UBS Investment Bank.