Arinbjörn lauk M.Sc. prófi í iðnarverkfræði frá Háskóla Íslands árið 2000 og Ph.D gráðu í sömu grein frá Háskólanum í Wisconsin í Bandaríkjunum árið 2006. Hann hóf störf á verðbréfasviði Landsbankans árið 2006. Árin 2009-2015 vann hann að fjárhagslegri endurskipulagningu fyrirtækja og stýrði endurútreikningi gengistryggðra lána. Arinbjörn hefur starfað sem forstöðumaður upplýsingatæknideildar hjá Landsbankanum frá árinu 2015.
Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans segir: „Arinbjörn hefur yfirgripsmikla þekkingu á bankarekstri og rekstri tölvu- og upplýsingakerfa og langa reynslu af því að stýra stórum og flóknum verkefnum. Landsbankinn leggur mikla áherslu á stafræna tækni og reynsla Arinbjarnar mun nýtast bankanum einkar vel við frekari framþróun á því sviði.“
Á upplýsingatæknisviði Landsbankans starfa um 170 manns. Undir sviðið fellur m.a. rekstur, viðhald og þróun á tölvu- og upplýsingakerfum bankans og styður sviðið við framþróun á sviði stafrænnar tækni innan bankans.