Þessa dagana einbeitir Hildur sér að framleiðslu á tónlist, bæði hennar eigin og annarra. Hún starfar sem pródúser, upptökustjóri, lagahöfundur og kennari og hefur komið víða við á tónlistarferli sínum. Hún sló fyrst í gegn með indírokkhljómsveitinni Rökkurró, þar sem hún söng og spilaði á selló.
Eftir að hafa tekið þátt í Söngvakeppni sjónvarpsins árið 2015 hófst sólóferill Hildar af fullum krafti og vann hún meðal annars Íslensku tónlistarverðlaunin fyrir popplag ársins 2017. Hún hefur síðan tekið tvisvar aftur þátt í Söngvakeppninni, annars vegar sem sólótónlistarkona og hins vegar sem lagahöfundur.
Gaman er að segja frá því að sömu vikuna og nýja Landsbankalagið kom út átti hún lag í Söngvakeppninni, „Þora“, flutt af Benedikt Gylfasyni.
Hún hefur á ferli sínum verið ötul við að upphefja og styrkja konur í tónlist, meðal annars með því að miðla reynslu sinni til ungra tónlistarkvenna. Hildur fékk nýlega hvatningarverðlaun ON og Kítón fyrir framúrskarandi feril og fyrir að hafa rutt brautina fyrir aðrar konur.
Eins og stutt yfirferð á umfangsmiklum ferli hennar hér fyrir ofan gefur til kynna eru störf Hildar fjölbreytt. Við fórum í heimsókn í stúdíóið hennar og fengum innsýn í hvernig hún nálgast lagasmíð.