Íslensk þjóðtrú segir að þau okkar sem ekki fá nýja flík fyrir jólin fari í jólaköttinn. Það eru á hinn bóginn engin nýleg eða staðfest dæmi um að fólk hafi beinlínis verið étið af slíkum ketti. Það væri miklu nær fyrir jólaköttinn að hugsa um að hvetja (en ekki éta) fólk til að nýta frekar hlutina okkar betur, breyta þeim, láta laga þá eða fá lánað í stað þess að kaupa alltaf nýtt. Flestum okkar finnst hvort sem er betra að njóta samvista við ástvini og fjölskyldur en að fá veigamiklar jólagjafir. Það er líka mun umhverfisvænna að gæta hófs í jólagjöfum og leggja frekar áherslu á samveru og notalegheit.
Skyldu það vera hringrásarjól?
Að mörgu er að hyggja við val á jólagjöfum og um að gera að nota ímyndunaraflið við valið. Það er líka alltaf góð hugmynd að hugsa um umhverfisáhrifin. Umhverfisvæn og endingargóð jólagjöf sem hittir í mark er augljóslega mjög góður kostur. Ef þú ert að hugsa um að halda umhverfisvænni jól er ekki úr vegi að hugsa út í umhverfisáhrifin og velta fyrir sér hvort gjöfin, ef það er hlutur, passar inni í hringrásarhagkerfið.
Um hvað snúast jólin?
Þegar hugað er að grænni jólum getur verið ágætt að muna að velja gæði fremur en magn. Það getur verið sniðugt að fá fleiri með í að gefa mögulega dýrari og eigulegri hlut, frekar en að kaupa gjöf sem nýtist ekki jafn vel. Gjafir sem mögulega fara beinustu leið ofan í skúffu hafa ekki bara óþarflega neikvæð áhrif á umhverfið heldur eru einnig óþarfa eyðsla á peningunum sem þú hefur unnið þér fyrir. Jólin verða nákvæmlega jafn góð þótt maður kaupi engar óþarfa gjafir og það sem meira er, þau verða líklega bara enn betri þar sem svokallaðir „jólatimburmenn“ munu ekki ásækja okkur mánuðina eftir í formi greiðsludreifingar á jólareikningnum.
Hvað sem jólagjöfum, jólasveinum, Grýlu og jólakettinum, grænum jólum og hringrásarhagkerfinu líður er þó það mikilvægasta við jólin að njóta góðra samverustunda til hins ítrasta og muna að jólin snúast um væntumþykju og kærleika.
Gleðilega hátíð!