Raun­veru­leg um­hverf­isáhrif fjár­mála­fyr­ir­tækja

Við mat á umhverfisáhrifum fjármálafyrirtækja nægir ekki að skoða losun gróðurhúsalofttegunda út frá beinum rekstri. Raunverulegt umhverfisspor þeirra markast í gegnum útlán og fjárfestingar og því er nauðsynlegt að mæla það sérstaklega.
2. nóvember 2020

Landsbankinn leggur áherslu á þrjú heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna í sinni starfsemi sem miða að því að hámarka jákvæð áhrif bankans á umhverfið. Eitt þeirra, heimsmarkmið 12, fjallar um ábyrga neyslu og framleiðslu. Með því að vinna að því markmiði skapast hegðunarmynstur sem leiðir til minni kolefnislosunar. „Áhrif fjármálafyrirtækja á umhverfið eru að mestu leyti óbein en eru að öllum líkindum töluverð,“ segir Dr. Reynir Smári Atlason, sérfræðingur í sjálfbærni hjá Landsbankanum. Það þýðir að þegar fjármálafyrirtæki gefur upp losun gróðurhúsalofttegunda frá sínum rekstri er yfirleitt aðeins lítill hluti sögunnar sagður. „Mestu loftslagsáhrif fjármálafyrirtækja, og þá sérstaklega banka, eru í gegnum lána- og eignasöfn þeirra. Þar liggja gríðarleg tækifæri fyrir banka til að hafa jákvæð áhrif í þágu sjálfbærni, í gegnum verkefnin sem þeir kjósa að lána til eða fjárfesta í. Og þetta þarf að mæla til að sjá raunverulega áhrifin,“ segir Reynir Smári.

Þróa alþjóðlegan loftlagsmæli fyrir banka

Það hefur hingað til reynst bönkum erfitt að birta upplýsingar um óbeina losun gróðurhúsalofttegunda, því aðferðafræðina hefur einfaldlega skort og upplýsingagjöf um útlána- og fjárfestingasafn banka hefur verið mjög mismunandi. „Landsbankinn tók mjög stórt skref fram á við á síðasta ári þegar hann gerðist aðili að alþjóðlega verkefninu PCAF (e. Partnership for Carbon Accounting Financials), einn banka á Íslandi. Innan PCAF er þróuð aðferðafræði til að reikna og skilja óbeina kolefnislosun fjármálafyrirtækja. Sérfræðingar Landsbankans taka virkan þátt í að þróa loftlagsmæli sem er sérsniðinn að fjármálafyrirtækjum og gerir þeim kleift að mæla og greina frá kolefnislosun í lána- og eignasafni þeirra. Erlendir bankar eru nú þegar byrjaðir að birta upplýsingar um óbein umhverfisáhrif, sem byggjast á þessari aðferðafræði. Landsbankinn hefur sett sér það markmið að birta upplýsingar um losunarumfang lána- og eignasafn síns. Þetta markmið verður unnið í gegnum aðild að PCAF-loftslagsmælinum. Það er flókið og vandasamt verkefni að kortleggja kolefnislosun lána- og eignasafna en þessi aðferðafræði miðar að því að gera bönkum kleift að mæla losunina á vísindalegan og samræmdan hátt,“ segir Reynir Smári.

Flokkunarkerfi ESB notað til að sigta út fjárfestingarkosti sem stuðla að sjálfbærni

Rekstur fyrirtækja og þau verkefni sem ráðist er í hafa eðlilega mismunandi og mismikil umhverfisáhrif. Það er því gjarnan erfitt fyrir fjárfesta að vita hvort fjárfestingarverkefni, eða rekstur fyrirtækja stuðli almennt að sjálfbærni. Á yfirborðinu getur verkefni eða rekstur lofað góðu með tilliti til sjálfbærni, en óbein áhrif geta þó verið mikil. Slík áhrif eru yfirleitt ekki augljós og gjarnan þarf sérfræðiálit til. Evrópusambandið hefur því birt flokkunarkerfi (e. EU Taxonomy) sem lýsir aðgerðum sem stuðla að loftslagsmarkmiðum Evrópusambandsins og Parísarsamkomulagsins. Flokkunarkerfið byggir á 6 aðgerðaflokkum sem fjárfestingarverkefni geta fallið í.

Fyrstu tveir flokkarnir hafa verið birtir og eru nokkuð ítarlegir, en næstu fjórir verða birtir fyrir lok árs 2021. Evrópusambandið telur að starfsemi stuðli að sjálfbærni hafi hún jákvæð áhrif á eitt þessar viðfangsefna, og ekki umtalsverð neikvæð áhrif á hin. „Hér er því komin nokkurskonar reglubók fyrir leikmenn í hagkerfinu. Nú geta evrópsk fyrirtæki á fjármálamarkaði illmögulega birt upplýsingar um sjálfbærniframmistöðu fjárfestingarverkefna án þess að nefna hvort starfsemin uppfylli viðmið flokkunarkerfis Evrópusambandsins. Í öllu falli er flokkunarkerfið nytsamlegt til að spyrja fyrirtæki dýpri spurninga um upplýsingagjöf og koma í veg fyrir grænþvott,“ segir Reynir Smári.

Flokkunarkerfi Evrópusambandsins mun hafa meiri áhrif á Íslandi

„Flokkunarkerfi Evrópusambandsins er nú þegar í einhverri notkun á Íslandi,“ segir Reynir Smári. „Fjármálaafurðir og grænar skuldabréfaútgáfur sem styðjast við flokkunarkerfið eru þegar til. Þó er vert að benda á að helstu atvinnuvegir Íslands munu geta stuðst mun betur við flokkunarkerfið þegar það hefur verið útfært frekar. Núverandi útgáfa tekur t.d. ekki tillit til sjávarútvegs með beinum hætti. Hinsvegar eru stórir flokkar innan kerfisins sem eru vel útskýrðir og eiga mögulega vel við Ísland.“

Það er því ekkert því til fyrirstöðu að íslenskir aðilar styðjist við flokkunarkerfið.

Hagkerfin sífellt að þróast í átt að sjálfbærni

„Kröfurnar um sjálfbærni og aukna samfélagsábyrgð fyrirtækja eru sífellt að aukast. Þess er ekki langt að bíða að það verður ekki lengur nóg að birta upplýsingar. HSBC reið á vaðið núna í október og tilkynnti að bankinn stefni á að verða kolefnishlutlaus árið 2050, að meðtöldu útlána og eignasafni sínu. HSBC er þarna að taka mjög afgerandi hlutverk sem virkur aðili í því umbreytingarferli sem hagkerfi eru að ganga í gegnum í átt að sjálfbærni. HSBC mun nýta meira en 750 milljarða Bandaríkjadala á næstu 10 árum í slíka fjármögnun. Það sem er merkilegt við markmið HSBC er að bankinn mun þannig vísvitandi hafa jákvæð áhrif á rekstur annarra fyrirtækja, með viðeigandi vöruframboði, lánveitingum og fjárfestingum,“ segir Reynir Smári að lokum. 

Landsbankinn þróar sjálfbæra fjármálaumgjörð

Landsbankinn stefnir á að verða leiðandi í grænum lausnum en bankinn hefur um árabil verið leiðandi í ábyrgum fjárfestingum. Stefna Landsbankans um ábyrgar fjárfestingar er sett með hliðsjón af reglum Sameinuðu þjóðanna um ábyrgar fjárfestingar ( UN PRI ) sem bankinn hefur haft aðild að frá árinu 2013.

„Um þessar mundir er bankinn að þróa sjálfbæra fjármálaumgjörð þar sem sjálfbærniviðmið grænna og samfélagslegra útlána bankans eru skilgreind. Sjálfbæra fjármálaumgjörðin mun opna á mikilvæg skref á lánahliðinni, s.s. vöruþróun og dýpri þekkingu á lánasafni. Sjálfbærnivegferð bankans er því á fullri ferð og hefur þegar hlotið staðfestingu Sustainalytics og Reitunar,“ segir Reynir Smári.

Samkvæmt nýju UFS áhættumati (e. ESG risk rating) frá Sustainalytics er Landsbankinn í 2. sæti af 382 bönkum sem fyrirtækið hefur mælt í Evrópu og er því leiðandi á þessu sviði. Bankinn fékk sömuleiðis framúrskarandi einkunn í nýju áhættumati Reitunar fyrr á árinu. UFS áhættumat snýr að því hvernig bankinn vinnur í umhverfismálum, félagslegum þáttum og góðum stjórnarháttum í starfseminni.

Þú gætir einnig haft áhuga á
Barn í jólaglugga
9. des. 2024
Nokkur ráð til jólasveina frá Stekkjastaur um kaup á gjöfum
Þar sem líða fer að þeim tíma er jólasveinarnir fara á stjá og setja ýmis konar glaðning í skóna hjá börnum, höfðum við samband við Stekkjastaur og spurðum hvernig hann færi að því að skipuleggja sín gríðarlega umfangsmiklu jólainnkaup (fyrir utan allt það sem hann býr til sjálfur).
Hamborgartréð tendrað í Reykjavík
28. nóv. 2024
Hamborgartréð - saga samfélagsbreytinga og þakklætis
Saga Hamborgartrésins er hógvær, en á vissan hátt bæði breytingasaga Reykjavíkur og falleg jólasaga gjafmildi og þakklætis.
16. sept. 2024
Aðgerðir og árangur fyrirtækja í sjálfbærni
Fyrir nokkrum árum þurftu fyrirtæki sem sögðust sinna sjálfbærnimálum iðulega að útskýra hvað fælist í sjálfbærni og hvers vegna þau væru yfirleitt að leggja í þessa vinnu. Nú hefur umræðan breyst og skilningur aukist á mikilvægi þess að atvinnulífið taki fullan þátt í að stuðla að aukinni sjálfbærni og þar með áframhaldandi velsæld mannkyns.
Sjálfbærnidagur 2024
5. sept. 2024
Sjálfbærnidagur 2024 – upptökur
Sjálfbærnidagur Landsbankans var haldinn í þriðja sinn miðvikudaginn 4. september 2024 og var afar vel sóttur.
hinsegin dagar
9. ágúst 2024
„Hver þú ert á ekki að stöðva þig í að finna hreyfingu við hæfi“
Níu atriði hlutu styrk úr Gleðigöngupotti Hinsegin daga og Landsbankans fyrir Gleðigönguna sem fram fer á laugardaginn. Eitt þeirra atriða er Öðruvísi íþróttir.
Hús í Reykjavík
18. júní 2024
Snjóhengjan sem verður vonandi að skafli
Í byrjun sumars 2021 var sögulega lágt vaxtastig á Íslandi. Þetta sumar og þeir mánuðir sem á eftir komu voru annasamir í Landsbankanum. Þúsundir viðskiptavina breyttu íbúðalánum sínum í óverðtryggð íbúðalán, nafnvaxtalán, og flestir festu vextina í þrjú ár. Um þessar mundir er fastvaxtatímabilinu að ljúka hjá mörgum. Til áramóta munu fastir vextir losna á ríflega 3.200 íbúðalánum. Og það er bara hjá okkur í Landsbankanum.
Reykjastræti
16. nóv. 2023
Af hverju heitir hraðbanki ekki tölvubanki?
Hæ! Áttu eitthvað í handraðanum? Eða þarftu kannski að skreppa á Raufarhöfn? Geturðu notað kortið þitt í tölvubankanum? Vissir þú að þetta tengist allt peningum með einhverjum hætti?
Netbanki fyrirtækja
10. nóv. 2023
Bankakerfið er að opnast
Landsbankinn kynnti á dögunum nýjung í appinu sínu sem gerir fólki kleift að millifæra af reikningum í öðrum bönkum. Þessi þjónusta er alltaf háð samþykki viðskiptavina. Landsbankinn er fyrsti bankinn á Íslandi sem býður fólki að framkvæma aðgerðir í öðrum bönkum úr sínu appi.
9. nóv. 2023
Það styttist í jólin og jólastressið – eða hvað?
Jólin eiga að vera hátíð gleði og friðar en við upplifum oft að þau snúist að miklu leyti um neyslu og jólastress. Í aðdraganda jóla hættir mörgum til að sleppa sér í neyslunni og kaupa hluti sem hvorki þau sjálf, fjölskyldu eða vini vantar í raun og veru. Viljum við breyta þessu?
Sjálfbærnidagur 2023
8. sept. 2023
Sjálfbærnidagur 2023 – upptökur
Sjálfbærnidagur Landsbankans var haldinn í Grósku 7. september 2023. Á fundinum beindum við sjónunum að því sem íslensk fyrirtæki hafa verið að gera til að auka sjálfbærni í sínum rekstri og hvernig gera megi enn betur.
Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur