Byggingamarkaður - Mikil umsvif komin til að vera
Mikill kraftur hefur verið í uppbyggingu íbúðarhúsnæðis á liðnum árum og fjöldi verkefna sem bankinn fjármagnar því sjaldan verið meiri. Um síðustu áramót fjármagnaði bankinn þannig alls 142 smærri sem stærri byggingarverkefni. Verkefnin voru á ýmsum byggingarstigum, alveg frá því að vera óbyggð lóð og upp í fullbúnar íbúðir. Um 4.300 íbúðir töldust til þessara verkefna, þar af rúmlega 400 íbúðir fyrir félagasamtök og leigufélög. Reikna má með að meðalframleiðslutími húsnæðis frá lóð til fullbúinnar íbúðar sé allt að 3 ár og miðað við það jafngildir þetta því a.m.k. 1.400 íbúða framboði á ári sem Landsbankinn fjármagnar.
Uppbygging íbúðarhúsnæðis hefur verið mikil á undanförnum árum og umsvif í byggingariðnaði mjög mikil, þar sem stór útboðsverkefni eru í gangi samhliða. Þar má m.a. nefna nýbyggingar Landspítalans, Alþingis, Isavia og Landsbankans. Loks má nefna uppbyggingu nýrra hótela, sem verið hefur mikil undanfarin ár og verður það fyrirsjáanlega áfram. Auknum umsvifum hefur verið mætt með síauknum fjölda erlends starfsfólks í greininni, enda hefur hún vaxið miklu hraðar á undanförnum árum en innlendur vinnumarkaður ræður við.
Mikil fjölgun nýrra íbúða á markað
Myndin hér að ofan sýnir nýjar íbúðir sem fullbúnar hafa verið á landinu öllu á árabilinu 2006–2022. Mjög hröð uppbygging var á árunum 2006-2008, en við hrunið fækkaði mjög íbúðum sem komu á markaðinn og það var ekki fyrr en á árunum 2017-2018 sem markaðurinn jafnaði sig að fullu. Frá árinu 2019 hefur síðan verið mikill kraftur á byggingamarkaði og að meðaltali 3.250 nýjar íbúðir komið á markaðinn árlega frá þeim tíma. Miðað við fjölda íbúða í byggingu nú stefnir í að svo verði áfram. Stjórnvöld hafa engu að síður áhuga á að auka enn við framboðið og stefna að því að 20.000 nýjar íbúðir komi á markað á næstu 5 árum og alls 35.000 íbúðir á næstu 10 árum.
Helstu áskoranir í byggingariðnaði
Aukin afköst
Ljóst er að sameiginlegt átak ríkis og sveitarfélaga um enn aukið framboð íbúðarhúsnæðis á næstu árum mun reyna á byggingariðnaðinn og m.a. auka enn á þörf fyrir erlent starfsfólk.
Sveiflur í eftirspurn
Sveiflur í eftirspurn á íbúðamarkaði hafa verið verulegar og oft skyndilegar, á meðan framboðsbreytingar taka 2-3 ár, frá því að verkefni er sett á blað og þar til því er lokið. Þessar sveiflur eru óheppilegar, bæði fyrir verktaka og ekki síður kaupendur. Frá 2016 hafa a.m.k. 3 slíkar sveiflur gengið yfir markaðinn. Fyrst á árinu 2016, þegar mikil eftirspurnaraukning varð skyndilega í kjölfar þess að spáð var miklum hækkunum fasteignaverðs á komandi misserum. Nýlegra dæmi er gríðarleg eftirspurnaraukning í kjölfar mikillar vaxtalækkunar á árinu 2020 og að lokum núverandi ástand á íbúðamarkaði, þar sem eftirspurn hefur minnkað mjög í kjölfar mikilla vaxtahækkana á liðnu ári og breytingum á greiðslumati íbúðalána.
Sjálfbærni
Við finnum að viðskiptavinir Landsbankans úr hópi verktaka eru í auknum mæli farnir að líta á sjálfbærni sem mikilvægan þátt fyrir farsælan rekstur og hvernig aðlaga megi starfsemina að auknum kröfum. Þar má nefna kröfur um að mæla kolefnisfótspor og í framhaldinu setja sér markmið til að draga úr því. Þá gera kaupendur einnig auknar kröfur um gæði og endingartíma, orkusparnað og vistvæna framleiðslu, en þetta tvennt helst í hendur.
Að framansögðu má ljóst vera að þau auknu umsvif, sem einkennt hafa byggingamarkað á undanförnum árum, eru komin til að vera. Landsbankinn stefnir að því að vera áfram leiðandi í framkvæmdafjármögnun fyrir byggingaraðila og leggja þar lóð sín á vogarskálarnar í framtíðaruppbygginu heimila, stöðugleika á húsnæðismarkaði og baráttunni við verðbólgu. Við hjá Landsbankanum hlökkum til að takast á við komandi verkefni með byggingaraðilum. Við erum betri saman.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 17. mars 2023.
Höfundur er forstöðumaður mannvirkjafjármögnunar á fyrirtækjasviði Landsbankans.