Loks­ins skýr­ar leik­regl­ur: Ný sjálf­bærni­við­mið Evr­ópu­sam­bands­ins

Undanfarin ár hefur verið þrýst á fjármagnsmarkaði að beina fjármagni í verkefni sem stuðla að sjálfbærri framtíð. Samræmdar reglur og viðmið hefur hins vegar skort. Nýtt flokkunarkerfi Evrópusambandsins á sviði sjálfbærra fjármála samræmir verklag og setur sjálfbærniviðmið sem fjármagnsmarkaðir geta stuðst við til að ná markmiðum í loftslagsmálum.
5. nóvember 2020

Árið 2050 mun mannkynið ganga á auðlindir jarðar líkt og þrjár jarðir væru til afnota, en áætlað er að ágangur á t.d. lífmassa, jarðefnaeldsneyti og málma tvöfaldist næstu fjörutíu árin. Framleiðsla úrgangs mun líklega vaxa um 70% fyrir árið 2050. Þetta er í mikilli mótsögn við þær upplýsingar og fyrirheit sem fyrirtæki gefa hvað varðar sjálfbærni. Þrátt fyrir fjölda skýrslna og fyrirlestra um framtak fyrirtækja í þessum efnum, þar sem stundum einungis fegursta hliðin er sýnd, er staðan sú að enn er gengið margfalt hraðar á auðlindir en svo að þær geti endurnýjað sig. Upplýsingar eru oft á tíðum ófullnægjandi, óstaðfestar og ekki sambærilegar, hvorki milli ára né fyrirtækja. Það sem hefur vantað er samræmd nálgun sem gefur heildstæða sýn á þróun í átt að sjálfbærni.

Leikkerfi Evrópusambandsins - samræmt verklag fyrir fjárfesta, útgefendur og hið opinbera

Til þess að Evrópusambandið nái markmiði sínu um að minnka losun gróðurhúsalofttegunda um 55% fyrir árið 2030 og verða kolefnishlutlaust árið 2050, þurfa allir að spila eftir sömu reglum og eftir skipulegu kerfi, rétt eins og fótboltalið. Í því samhengi eru leikmennirnir fjárfestar, útgefendur og hið opinbera. Þjálfarinn er Evrópusambandið sem leggur línurnar, eða útbýr leikkerfið. Markmiðið er að halda meðalhækkun hitastigs jarðar undir 2°C miðað við hitastig við upphaf iðnvæðingar.

Evrópusambandið kynnti slíkt leikkerfi í júní 2020 með tilkomu flokkunarreglugerðar um sjálfbærni. Helsta markmið reglugerðarinnar er að koma á samræmdu flokkunarkerfi (e. EU Taxonomy) sem gerir það mögulegt að flokka atvinnustarfsemi eftir því hvort hún stuðli að sjálfbærni eða ekki.

Flokkunarkerfinu er skipt í sex umhverfismarkmið. Þegar hafa verið birtar ítarlegar skilgreiningar á verkefnum sem falla undir fyrstu tvö markmiðin, en stefnt er að því að birta skilgreiningar á hinum fjórum flokkunum árið 2021. Flokkunarkerfið setur fram fjögur skilyrði sem atvinnustarfsemi þarf að uppfylla til að flokkast sem sjálfbær.

Í fyrsta lagi þarf starfsemin að styðjast við eitt af sex fyrrgreindum umhverfismarkmiðum flokkunarkerfisins. Í öðru lagi má starfsemi ekki hafa skaðleg áhrif á hin fimm umhverfismarkmiðin. Í þriðja lagi þarf starfsemi að uppfylla viðurkenndar reglur um mannréttindi og góða stjórnarhætti og í fjórða lagi þarf starfsemi að uppfylla tæknilegar viðmiðunarreglur sem settar hafa verið fram af framkvæmdastjórn ESB.

Flokkunarkerfið leiðbeinir leikmönnum hagkerfisins

Flokkunarkerfið leiðbeinir þannig leikmönnum í hagkerfinu í átt að sjálfbæru hagkerfi og er einskonar verkfæri fyrir þátttakendur á fjármálamörkuðum. Kerfið gerir t.d. fjárfestum auðveldara að þekkja starfsemi sem stuðlar að sjálfbærni án þess að hafa djúpa þekkingu á umhverfisvísindum. Einnig auðveldar flokkunarkerfið fyrirtækjum að setja sér sjálfbærnimarkmið sem bæði stuðla að markmiðum Evrópusambandsins og gera fyrirtæki að álitlegri fjárfestingarkosti með tilliti til sjálfbærni.

Með samræmdu flokkunarkerfi munu fjárfestar, útgefendur og fjármálastofnanir eiga auðveldara með að átta sig á hvað teljast vera umhverfisvæn (græn) verkefni.

Flokkunarkerfið gerir það mögulegt að flokka atvinnustarfsemi eftir því hvort hún stuðli að sjálfbærni eða ekki og auðveldar fjárfestum að bera saman græna fjárfestingarkosti.

Græn skuldabréf og flokkunarkerfið

Flokkunarkerfið gerir það að verkum að útgefendur grænna skuldabréfa munu eiga auðveldara með að miðla upplýsingum um hvernig þeir uppfylla umhverfismarkmiðin. Slíkar útgáfur hafa vaxið gríðarlega undanfarin ár, bæði erlendis og hér á landi en leiðbeiningar varðandi hvað flokkast sem „grænt“, eða stuðlar að sjálfbærni, hefur skort. Með flokkunarkerfinu mun fylgja nýr staðall fyrir græn skuldabréf (e. EU green bond standard). Sú krafa verður gerð að verkefni sem má fjármagna með grænum skuldabréfum ESB uppfylli staðla flokkunarkerfisins. Flokkunarkerfið aðstoðar þannig útgefendur grænna skuldabréfa við að skilgreina hvaða verkefni ætti að fjármagna, hvaða sjálfbærniviðmið eru viðeigandi og hvernig verkefnin stuðla að sjálfbærni. Þar að auki mun flokkunarkerfið auðvelda fjárfestum grænna skuldabréfa að bera saman fjárfestingarkosti út frá sjálfbærni og hvetja þá til að velja „grænni“ fjárfestingarkostinn.

Útgefendur hafa nú þegar stuðst með opinberum hætti við flokkunarkerfið. Standard Chartered gaf til að mynda út sjálfbærniskuldabréf fyrir 500 milljónir evra í júlí 2019, blöndu af grænu skuldabréfi og félagslegu skuldabréfi. Deutsche Bank gaf einnig út grænt skuldabréf í apríl 2020 sem styðst að miklu leyti við flokkunarkerfið.

Viðbúið að flokkunarkerfið muni hafa töluverð áhrif á Íslandi

Óhætt er að segja að flokkunarkerfið sem innleitt er í gegnum flokkunarreglugerð Evrópusambandsins sé eitt af mikilvægustu skrefum Evrópusambandsins á sviði sjálfbærra fjármála. Flokkunarkerfið er nú þegar í einhverri notkun á Íslandi. Fjármálaafurðir og grænar skuldabréfaútgáfur sem styðjast við flokkunarkerfið eru þegar teknar að birtast. Fyrirtæki í öllum helstu atvinnuvegum Íslands munu þó geta stuðst mun betur við flokkunarkerfið þegar það hefur verið útfært nánar, en núverandi útgáfa tekur t.d. ekki tillit til sjávarútvegs með beinum hætti. Hins vegar eru stórir flokkar innan kerfisins sem eru vel útskýrðir og eiga vel við Ísland. T.d. er raforkuframleiðslu og álframleiðslu, gerð góð skil í flokkunarkerfinu.

Búast má við því að fyrir lok ársins 2021, þegar umhverfisviðmið allra sex flokkanna hafa verið birt á ítarlegan hátt, geti sjávarútvegurinn og enn fleiri atvinnugreinar, stuðst við flokkunarkerfið.

Það er því ekkert því til fyrirstöðu að íslenskir aðilar styðjist við kerfið. Það má einnig búast við því að sambærileg kerfi verði til á öðrum svæðum utan Evrópu, til dæmis í Asíu, sem nái betur til staðhátta og viðmiða annarra efnahagssvæða.

Skilvirkari endurgjöf og grænþvottur erfiðari

Markmið flokkunarkerfisins er að draga fram og samræma markmið Parísarsáttmálans og heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna í fjárhagslegar aðgerðir undir sameiginlegri skilgreiningu á sjálfbærni. Kerfið er einskonar verkfæri sem raunverulega ýtir fjármagni þangað sem þess er þörf og leiðir til þess að erfiðara verður fyrir aðila á fjármálamarkaði að fela sig á bakvið skort á skilgreiningum og viðmiðum. Upplýsingagjöf verður skilvirkari og trúverðugri og grænþvottur þar með erfiðari. Þessar áherslur gera hagkerfið umhverfisvænna og verða vonandi til að þess að markmiðið um kolefnishlutleysi árið 2050 náist.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 5. nóvember 2020.

Þú gætir einnig haft áhuga á
16. sept. 2024
Aðgerðir og árangur fyrirtækja í sjálfbærni
Fyrir nokkrum árum þurftu fyrirtæki sem sögðust sinna sjálfbærnimálum iðulega að útskýra hvað fælist í sjálfbærni og hvers vegna þau væru yfirleitt að leggja í þessa vinnu. Nú hefur umræðan breyst og skilningur aukist á mikilvægi þess að atvinnulífið taki fullan þátt í að stuðla að aukinni sjálfbærni og þar með áframhaldandi velsæld mannkyns.
Sjálfbærnidagur 2024
5. sept. 2024
Sjálfbærnidagur 2024 – upptökur
Sjálfbærnidagur Landsbankans var haldinn í þriðja sinn miðvikudaginn 4. september 2024 og var afar vel sóttur.
hinsegin dagar
9. ágúst 2024
„Hver þú ert á ekki að stöðva þig í að finna hreyfingu við hæfi“
Níu atriði hlutu styrk úr Gleðigöngupotti Hinsegin daga og Landsbankans fyrir Gleðigönguna sem fram fer á laugardaginn. Eitt þeirra atriða er Öðruvísi íþróttir.
Hús í Reykjavík
18. júní 2024
Snjóhengjan sem verður vonandi að skafli
Í byrjun sumars 2021 var sögulega lágt vaxtastig á Íslandi. Þetta sumar og þeir mánuðir sem á eftir komu voru annasamir í Landsbankanum. Þúsundir viðskiptavina breyttu íbúðalánum sínum í óverðtryggð íbúðalán, nafnvaxtalán, og flestir festu vextina í þrjú ár. Um þessar mundir er fastvaxtatímabilinu að ljúka hjá mörgum. Til áramóta munu fastir vextir losna á ríflega 3.200 íbúðalánum. Og það er bara hjá okkur í Landsbankanum.
Hamborgartréð tendrað í Reykjavík
29. nóv. 2023
Hamborgartréð - saga samfélagsbreytinga og þakklætis
Saga Hamborgartrésins er hógvær, en á vissan hátt bæði breytingasaga Reykjavíkur og falleg jólasaga gjafmildi og þakklætis.
Reykjastræti
16. nóv. 2023
Af hverju heitir hraðbanki ekki tölvubanki?
Hæ! Áttu eitthvað í handraðanum? Eða þarftu kannski að skreppa á Raufarhöfn? Geturðu notað kortið þitt í tölvubankanum? Vissir þú að þetta tengist allt peningum með einhverjum hætti?
Netbanki fyrirtækja
10. nóv. 2023
Bankakerfið er að opnast
Landsbankinn kynnti á dögunum nýjung í appinu sínu sem gerir fólki kleift að millifæra af reikningum í öðrum bönkum. Þessi þjónusta er alltaf háð samþykki viðskiptavina. Landsbankinn er fyrsti bankinn á Íslandi sem býður fólki að framkvæma aðgerðir í öðrum bönkum úr sínu appi.
9. nóv. 2023
Það styttist í jólin og jólastressið – eða hvað?
Jólin eiga að vera hátíð gleði og friðar en við upplifum oft að þau snúist að miklu leyti um neyslu og jólastress. Í aðdraganda jóla hættir mörgum til að sleppa sér í neyslunni og kaupa hluti sem hvorki þau sjálf, fjölskyldu eða vini vantar í raun og veru. Viljum við breyta þessu?
Sjálfbærnidagur 2023
8. sept. 2023
Sjálfbærnidagur 2023 – upptökur
Sjálfbærnidagur Landsbankans var haldinn í Grósku 7. september 2023. Á fundinum beindum við sjónunum að því sem íslensk fyrirtæki hafa verið að gera til að auka sjálfbærni í sínum rekstri og hvernig gera megi enn betur.
Myndlistarsýning
17. ágúst 2023
Hringrás – innsýn í listasafn Landsbankans
Sýningin Hringrás er úrval verka úr listasafni Landsbankans. Á sýningunni er kannað hvernig áhrif og innblástur þróast með mismunandi miðlum og í meðförum ólíkra kynslóða listafólks. Verkin endurspegla áherslu á ákveðnar listrænar hreyfingar, abstraktlist og geómetríska abstraksjón, hlutbundna og hlutlæga list, grafíska list (bæði ætimyndir og teikningar) og súrrealisma. Hringrás veitir innsýn í fjölbreytileika og breidd listasafns Landsbankans, þvert á framsetningarmáta og samhengi. 
Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur