Jóhannes Sveinsson Kjarval (1885—1972) var tvímælalaust sérstæðasti og ástsælasti myndlistarmaður Íslendinga á tuttugustu öld. Arfleifð hans er ákaflega umfangsmikil og fjölbreytt, og tekur til landslagsmynda, draumkenndra hugsýna og mannamynda sem oft og tíðum renna saman í eitt. Í hugsýnum sínum vann Kjarval framar öðru úr þjóðsagna- og skáldskapararfleifð þjóðarinnar og kenndi löndum sínum um leið að meta hrjóstruga náttúru íslenskra öræfa.
Þótt kalla megi Kjarval „íslenskastan“ allra listmálara, tók hann til handagagns og gerði að sínu ýmislegt úr ríkjandi myndlistarstefnum í útlöndum, t.d. frönskum impressjónisma og táknhyggju, kúbískri afbyggingu forma og fútúrískum tilraunum. Undirtónn allra þessara verka er yfirleitt dulúðugur, leitandi og persónulegur. Eitt helsta sýningarhús Reykvíkinga ber nafn Kjarvals og þar er jafnan að finna úrval verka hans. Tengsl listamannsins við Landsbankann voru ævinlega náin og í bankanum er að finna eitt besta safn verka hans í einkaeigu.
Hluti þessara verka, 24 talsins, var valinn til sýningar í útibúi Landsbankans í Austurstræti 11 sem var opnuð 13. janúar 2019, sú fyrsta í sýningarröð úr listasafni bankans sem hlotið hefur heitið Listasafn Landsbankans: Sýningarröð um menningararf.
Jóhannes Kjarval (Ljósmynd: Jón Kaldal).
Portrett af bankastjórum og veggmyndir
Það eru gildar ástæður fyrir því að hefja þessa sýningaröð úr listasafni Landsbankans á verkum Jóhannesar S. Kjarvals. Segja má að Landsbankinn og Kjarval séu nánast jafnaldrar. Listamaðurinn fæddist árið 1885, en á því ári litu dagsins ljós lög um Landsbanka Íslands. Eitt af fyrstu verkefnum Kjarvals eftir að hann sneri heim frá Danmörku um 1920 var síðan að mála portrettmyndir af fjórum fyrstu bankastjórum Landsbankans. Í kjölfarið var honum falið að gera veggmyndirnar miklu um útgerðarsögu landsmanna á annarri hæð nýbyggingarinnar sem reis í kjölfar miðbæjarbrunans 1915. Listamaðurinn lét sér annt um þær myndir alla tíð, og tók þær raunar til endurskoðunar á sjötta áratug síðustu aldar.
Fram á sín síðustu ár átti Kjarval regluleg samskipti við bankann, jafnt viðskiptaleg sem persónuleg, enda bjó hann um tíma í Austurstræti, gegnt bankanum. Hann naut lánafyrirgreiðslu þegar hann þurfti á að halda og seldi bankanum fjölda mynda þegar hann hagur hans stóð í blóma. Með tíð og tíma eignaðist Landsbankinn eitt stærsta einkasafn af verkum Kjarvals sem til er, alls rúmlega sjötíu verk.
Þjóðargersemar og glæsilegir „hausar“
Mörg verk í þessu Kjarvalssafni bankans teljast ótvírætt til lykilverka í sögu íslenskrar myndlistar og hafa raunar verið flokkuð sem þjóðargersemi af til þess bærum sérfræðingum. Veggmyndirnar um útgerðarsögu Íslendinga, einkum og sér í lagi sá hluti þeirra sem nefnist Fiskstöflun, eru einstakar í sögu opinberra listaverka á Íslandi, bæði hvað varðar efnistök og tækni. Portrett Kjarvals af Birni Kristjánssyni bankastjóra, gert í anda Edvards Munch, er meðal fyrstu markverðu portrettmynda eftir Íslending. Fjárbóndinn, mynd sem lengi verið hefur utanlands, og þar með utan seilingar, verður sömuleiðis að teljast meðal glæsilegustu portrettmynda af íslenskum sveitahöfðingja. Einnig á Landsbankinn andlitsteikningar sem jafnast á við bestu „hausana hans Kjarvals“ frá þriðja áratugnum og nokkrar landslagsmyndir listamannsins hafa verið eftirsóttar þegar haldnar hafa verið yfirlitssýningar á verkum hans, innanlands sem utan.
Loks má nefna úrvalsverkið Hvítasunnudagr, sem keypt var til bankans snemma á þessari öld við sögulegar kringumstæður, en það telja margir að varpi nýju ljósi á myndlistarlega þróun og hugmyndaheim Kjarvals á öðrum áratug tuttugustu aldar. Þau verk sem hér hafa verið nefnd, og nokkur önnur til viðbótar, eru hryggjarstykkið í þessari sýningu Landsbankans á listaverkakeign sinni. Í kjölfarið verður síðan kappkostað að sýna með reglulegu millibili helstu verk íslenskra myndlistarmanna í eigu bankans frá upphafi og til nútíðar.
Aðalsteinn Ingólfsson er listfræðingur og sýningarstjóri sýningaraðarinnar.
Hér má sjá 4 af myndum Kjarvals sem eru í eigu bankans. Efst t.v. er Sjálfsmynd, við hliðina á henni er Fjárbóndinn, Hvítasunnudagr er neðst til vinstri og loks er Bænin mun aldrei bresta þig.