Allur ágóði af sölu verkanna rennur til Samtakanna ’78. Hægt er að kaupa verkin á postprent.is og í Kaupfélagi Hinsegin daga 2021 við Aðalstræti 2 í Reykjavík.
Hinsegin dagar 2021 fara fram 3 - 8. ágúst og dagskráin í ár er að venju þétt og vegleg. Eitt af markmiðum hátíðarinnar er að miðla þekkingu á sögu, menningu og réttindabaráttu hinsegin fólks.
Anna Maggý Grímsdóttir – „Spectrum 2021“
„Það kom eiginlega fátt annað til greina en að vinna með litina í Regnbogafánanum. Það er svo táknrænt og þýðingarmikið.“
Ásgeir Skúlason - ,,Án titils 2021“
„Á jaðrinum á verkunum sérðu fánann eins og þú þekkir hann en síðan blandast allir litirnir saman í miðjunni og það verður hálfgerð svona litasprenging eða orgía eða eitthvað sem á sér stað þar.“
Helga Páley – „Velkomin/nn/ð 2021“
„Kveikjan að verkinu mínu var þessi skór sem Páll Óskar var með á vagninum sínum einu sinni. Mér fannst það bara eitthvað svo fallegt form. Það endaði í svolítið svona abstrakt formi. Ég vildi svo bæta karakterum þar ofan á og líka reyna að hafa það fjölbreytt. Af því að það er ekki eins og þú sjáir eitthvað hver er hinsegin af því að þetta er bara fólk.“
Samstarf Hinsegin daga og Landsbankans
Landsbankinn styður réttindabaráttu hinsegin fólks á Íslandi og hefur verið stoltur bakhjarl Hinsegin daga frá upphafi. Árlega eru veittir styrkir úr Gleðigöngupotti Landsbankans og Hinsegin daga sem styðja einstaklinga og smærri hópa við undirbúning og framkvæmd atriða í Gleðigöngunni.