Hvaðan koma aðventuljósin?
Oscar Andersson hét ungur maður í Gautaborg á fjórða áratugnum. Hann var sölumaður hjá Philips og hafði mikinn áhuga á rafmagni. Á þessum árum var lægri spenna í bæjum en sveitum (annars vegar 127 V og hins vegar 220 V). Fólk átti það engu að síður til að stinga jólaseríum sem keyptar voru í bænum í samband úti í sveit og eyðileggja þannig ljósin. Hjá Philips hlóðst því upp nokkurt magn af biluðum ljósaperum sem átti að farga. Oscar spurði hvort hann mætti hirða perurnar, sem hann mátti, og hófst þá tilraunamennskan. Hann eyddi löngum stundum við eldhúsborðið heima hjá foreldrum sínum í að búa til það sem hann sá fyrir sér að yrði eins konar stjaki undir rafmagnskerti. Hann breytti gömlum kertastjaka og kom fyrir perustæðum innan í honum og eftir nokkrar tilraunir loguðu fyrstu aðventuljósin út í glugga hjá Andersson fjölskyldunni jólin 1934, við mikinn fögnuð vegfarenda og vandamanna og ekki síst föður Oscars, sem var mjög stoltur af framtakssemi sonarins.
Hvatningin rak Oscar til markaðsstjóra Philips í Gautaborg sem hreifst mjög af uppfinningunni og bað hann að útbúa frumgerð sem hægt væri að sýna stjórnendum fyrirtækisins í Stokkhólmi. Í höfuðstöðvunum var hlegið að þessum frumstæða ljósabúnaði og viðraðar efasemdir um að Svíar myndu vilja skipta kertum út fyrir rafmagnsljós, en það hafði tíðkast í áraraðir að kveikja á kertum úti í glugga á Lúsíuhátíðinni 13. desember og leyfa þeim að loga fram að jólum. Topparnir hjá Philips létu þó tilleiðast og framleiddu tvö þúsund stykki í samstarfi við Sjölander sem hafði áralanga reynslu af framleiðslu viðarkertastjaka. Ljósin seldust upp og upplagið var aukið ár frá ári þar til framleiðslan var tímabundið lögð af þegar stríðið braust út.
Samkvæmt skoðanakönnun Hagvangs frá árinu 1989 sögðust 78,3% svarenda hafa aðventuljós úti í glugga um jólin.
Margrætt tákn
Sá siður að kveikja ljós í glugga í aðdraganda jóla tíðkast víða. Á Írlandi táknaði kerti í glugga til dæmis að kaþólskir prestar væru velkomnir þangað, en þeir voru útlægir á tímum trúarkúgunar Englendinga allt fram eftir nítjándu öldinni. Skýringin sem Írar gáfu Englendingum voru að ljósin merktu að heimilið og hjörtu heimilisfólksins væru opin Maríu, Jósep og Jesúbarninu á jólanótt. Jólin eru hátíð ljóssins á myrkasta tíma ársins. Hér á norðurhjara þekkjum við vel hversu mikilvæg ljósin eru í skammdeginu. Þar er skýringuna á vinsældum ljósanna auðvitað að finna.
Oscar Andersson hafði enga tengingu við gyðingatrú og oddhvöss lögun flestra aðventuljósa er ólík hefðbundinni lögun menórunnar. Talan sjö er heilög og kemur víða fyrir í Biblíunni og í öðrum trúarbrögðum. Það er því ekkert sem bendir til þess að Oscar hafi haft menóruna sérstaklega í huga þegar hann föndraði fyrsta aðventuljósið í Gautaborg fyrir áttatíu árum síðan, enda byggði hann sína hönnun á eldri kertastjökum sem höfðu enga trúarlega tilvísun. Talsmaður biskupsembættisins, Bernharður Guðmundsson, lét hafa eftir sér í viðtali við DV að aðventuljósin „svokölluðu [ættu] ekkert skylt við aðventuna í okkar trú“ en væru „fallegt jólaskraut.“ Eflaust taka flestir Íslendingar undir það.
Úr Morgunblaðinu 2. desember 1977