Samkvæmt lögum um neytendalán er bönkum og öðrum fyrirtækjum sem bjóða upp á lánaviðskipti skylt að meta lánshæfi tilvonandi lántaka eða að láta aðra aðila framkvæma matið fyrir sig. Landsbankinn metur reglulega lánshæfi lánþega bankans með sjálfvirkum hætti og er mikill meirihluti þeirra með gott lánshæfi. Reglubundið mat bankans á lánshæfi viðskiptavina dregur úr útlánaáhættu bankans og fyrirbyggir um leið að óhófleg skuldsetning verði myllusteinn um háls viðskiptavina. Rétt er að taka fram að lánshæfismat er ekki greiðslumat og segir ekki til um hversu mikið einstaklingur getur greitt af láni.
Gott lánshæfismat er m.a. forsenda þess að fólk geti sjálft stillt yfirdráttinn, skipt kreditkortareikningum í appi eða netbanka eða tekið lán á netinu. Gott lánshæfismat leiðir þannig til betri og aðgengilegri þjónustu.
Framkvæmd lánshæfismats
Lánshæfismat Landsbankans byggist á gögnum um viðskiptavini, m.a. um viðskiptasögu og yfirlit yfir fjárhagslegar skuldbindingar. Matið samanstendur af lánshæfiseinkunn, frá 0 upp í 10, og fjórum litaflokkum; grænum, gulum, appelsínugulum og rauðum. Grænn gefur til kynna að engar vísbendingar séu um versnandi fjárhagsstöðu, gulur að vísbendingar séu til staðar um versnandi fjárhagstöðu, appelsínugulur að lánþegi sé eða hafi verið í alvarlegum vanskilum og rauður að lánþegi sé í alvarlegum vanskilum. Best er að vera með háa einkunn og í grænum litaflokki en lakast að vera með lága einkunn og í rauðum litaflokki.
Ekki lenda í vanskilum að óþörfu
Vanskil geta haft neikvæð áhrif á lánshæfismatið. Í mörgum tilfellum lendir fólk í vanskilum algjörlega að óþörfu, s.s. vegna andvaraleysis eða vegna þess að það hreinlega gleymir að borga reikninga á réttum tíma.
Ýmislegt er hægt að gera til að koma í veg fyrir óþarfa vanskil. Til dæmis er hægt að setja reikninga sem berast reglulega (afborganir af lánum, rafmagnsreikninga o.s.frv.) í beingreiðslu en slíkt er einfalt að gera í netbanka eða appi. Reikninga má einnig greiða með kreditkorti og yfirleitt er hægt að ganga frá slíkri „áskrift“ á vefsíðum þeirra fyrirtækja sem gefa reikningana út. Launafólk sem fær útborgað um miðjan mánuð, t.d. 15. dag hvers mánaðar, getur óskað eftir að gjalddagar lána taki mið af útborgunardegi. Þá nýta margir sér greiðsluþjónustu til að jafna mánaðarlegar sveiflur í útgjöldum heimilisins. Þessi einföldu ráð stuðla að því að reikningar séu greiddir á réttum tíma sem bætir lánshæfismat viðskiptavina.
Hafðu samband ef þú lendir í erfiðleikum
Hversu vel sem fólk skipuleggur sín fjármál geta tímabundnir erfiðleikar, svo sem atvinnumissir eða veikindi, haft afdrifarík áhrif á fjárhaginn. Í slíkum tilfellum er mikilvægt að gera ráðstafanir, t.d. að óska eftir breytingum á afborgunum lána eða jafnvel að draga úr skuldsetningu með sölu eigna ef líklegt er að erfiðleikar verði langvarandi.
Tímabundin vanskil og greiðsluerfiðleikar hafa ekki langvarandi áhrif á lánshæfismatið. Um leið og fjárhagsstaðan batnar hækkar lánshæfismatið. Og þótt fólk gleymi einstaka sinnum að greiða reikning á réttum tíma leiðir slíkt ekki umsvifalaust til þess að lánshæfið lækki.
Almennt má segja að hófleg skuldsetning, ráðdeild í fjármálum og sparnaður hafi mjög jákvæð áhrif á lánshæfismat. Vanskil hafa á hinn bóginn mjög neikvæð áhrif á lánshæfismat. Gullna reglan um að eyða ekki meiru en aflað er á vel við hér.