Þegar þessi grein er skrifuð er verðbólga um 9% en stýrivextir Seðlabankans eru mun lægri, eða 5,75%. Þegar vextir eru lægri en verðbólga rýrnar verðgildi sparifjár þar sem raunvextir, þ.e. nafnvextir að frádreginni verðbólgu, eru neikvæðir. Í þessari stöðu er eðlilegt að sparifjáreigendur velti fyrir sér hvaða möguleikar séu í stöðunni.
Hvaða leiðir eru í boði?
Til eru margar mismunandi ávöxtunarleiðir fyrir sparnað. Hægt er að leggja peninga inn á innlánsreikninga, kaupa skuldabréf, hlutabréf eða í sjóðum. Við mælum með því að þú kynnir þér sem flesta valkosti áður en þú tekur ákvörðun.
Verðtryggðir innlánsreikningar
Lágmarksbinding á slíkum reikningi er þrjú ár og því er ekki hægt að taka peninginn út hvenær sem þér hentar. Þú þarft líka að velta fyrir þér hvernig verðbólga/vextir gætu þróast næstu þrjú árin en ekki bara skoða stöðuna í dag eða undanfarin ár. Vextir eru greiddir samkvæmt vaxtatöflu hverju sinni og verðbætur eru greiddar mánaðarlega eftir því hvernig vísitala neysluverðs þróast.
Óverðtryggðir innlánsreikningar
Hægt er að velja á milli bundinna og óbundinna reikninga. Á bundnum reikningum getur binditími verið í allt að 24 mánuði. Bestu vextirnir sem bankinn býður nú á óbundnum óverðtryggðum reikningi er þegar þú sparar í appinu.
Lausafjársjóðir
Þeir geta hentað fyrir skammtíma ávöxtun, t.d. ef sparnaðartíminn er innan við ár. Í lausafjársjóðum eru sveiflur í ávöxtun minni og ávöxtun fer hækkandi vegna hækkunar á stýrivöxtum. Þessir sjóðir fjárfesta yfirleitt einnig í skuldabréfum og víxlum og flokkast því sem skuldabréfasjóðir, líkt og t.d. Veltubréf og Veltubréf + sem eru lausafjársjóðir hjá Landsbréfum, dótturfélagi Landsbankans.
Skuldabréf / skuldabréfasjóðir
Kaup í þeim eru yfirleitt hugsuð sem fjárfesting til lengri tíma og þá er jafnan átt við tvö ár eða lengur. Þessi fjárfestingarkostur myndar kjölfestuna í fjárfestingum lífeyrissjóða og er í eðli sínu áhættuminni en t.d. hlutabréf. Skuldaraáhætta (áhætta tengd útgefanda bréfa, t.d. fyrirtæki eða ríkissjóður) er mismunandi eftir því hver gefur út bréfin. Þannig bera ríkisskuldabréf almennt minni skuldaraáhættu vegna þess að ríkið sem útgefandi er ekki talið líklegt til að vanefna skuldbindingar sínar. Það má freista þess að fá hærri ávöxtun til lengri tíma með því að fjárfesta í öðrum skuldabréfum en þeim sem eru útgefin af ríkinu en þá er skuldaraáhættan líka meiri.
Hlutabréf/hlutabréfasjóðir
Hér getur virði fjárfestingarinnar sveiflast töluvert og því er almennt talað um að fjárfesta þurfi til langs tíma. Ráðlagður fjárfestingartími í hlutabréfasjóðum Landsbréfa er t.d. fjögur ár eða meira. Ekki hugsað sem skammtímafjárfesting.
Blandaðir sjóðir
Svo eru til sjóðir sem byggja á blöndu af þessu öllu. Blandaðir sjóðir eru í virkri eignastýringu, sem þýðir að sjóðstjóri fylgist með og bregst við þróuninni í hagkerfinu og á mörkuðum á hverjum tíma með því að aðlaga fjárfestingar sjóðsins. Fjárfest er í skuldabréfum og hlutabréfum bæði hér á Íslandi og erlendis. Þú getur valið sjóð eftir því hversu framsækna eða varfærna fjárfestingarstefnu þú vilt.
Mismunandi leiðir að sama markmiði
Það er því miður ekki er hægt að sjá fram í tímann og segja til um hvernig mismunandi eignaflokkar munu þróast. Þetta snýst á endanum um þolinmæði og sígandi lukku nema fólk sé tilbúið til að taka þeim mun meiri áhættu með sparifé sitt. Það er mjög einstaklingsbundið hvað hentar hverjum og einum hvað varðar fjárfestingartíma, áhættuvilja, sveifluþol og markmið með sparnaðinum, en þessi atriði skipta miklu máli þegar kemur að vali á ávöxtunarleið.
Við mælum með að þú fáir persónulega ráðgjöf til að fara yfir valmöguleikana og finna farsælustu leiðina miðað við þínar forsendur. Þú getur bókað tíma hjá sérfræðingum bankans hér á vefnum og hitt á okkur þegar þér hentar.
Jóhanna og Gústav starfa í Verðbréfa- og lífeyrisþjónustu Landsbankans.