Ertu að hugsa um að kaupa rafbíl?
Umhverfis- og samfélagsábyrgð
Ef við hugsum út frá umhverfis- og samfélagsáhrifum eingöngu er valið algerlega augljóst. Þó að bifreiðakaup almennt hafi frekar neikvæð umhverfisáhrif er rafbíll þó miklu betri kostur en bensín- og dísilbíll. Rafbíll er margfalt orkunýtnari, notar innlenda endurnýjanlega orku, losar engar gróðurhúsalofttegundir og enga heilsuspillandi mengun. Sem sagt algerlega skýrt val umfram bensín- og dísilbíla þegar kemur að ofangreindum þáttum.
Neikvæð áhrif rafhlöðuframleiðslu og meint urðun rafhlaðna voru lengi vel notuð sem mótrök gegn umhverfisvænleika rafbíla. Framleiðsla, endurnýting og endurvinnsla á rafhlöðum hefur tekið stakkaskiptum á undaförnum árum, þar sem t.d. sjaldgæfum málmum sem unnir voru við vafasamar aðstæður hefur verið skipt út fyrir hentugri og umhverfisvænni tegundir. Endurnotkun og endurvinnsla á rafhlöðum er einnig hafin af miklum krafti og mun á endanum verða meira eða minna öll í lokuðu hringrásarkerfi með lágmarksþörf á námurekstri.
En þetta breytir því ekki að kaup og rekstur rafbíla verður að ganga upp til að verða raunhæfur kostur við hlið bensín- og dísilbíla.
Kaupverð
Framleiðslukostnaður rafbíla hefur minnkað hratt á undanförnum árum og nánast allar greiningar sýna fram á að á næstu árum verði framleiðslukostnaður rafbíla á pari eða ódýrari en framleiðslukostnaður sambærilegra bensín- og dísilbíla. Þar sem umhverfis-, samfélags- og orkuöryggisáhrif rafbíla eru svo afgerandi leggur ríkið til ívilnanir til að brúa bilið á milli kaupverðs rafbíla og bensín- og dísilbíla í þeim tilgangi að auka hlutdeild rafbíla í flotanum. Það má líta á þetta framlag ríkisins sem fjárfestingu í samfélagslegum ávinningi orkuskipta, sem er auðvitað mun víðtækari en áhrifin á bifreiðakaupandann einan og sér.
Breytingar urðu á kaupívilnunum ríkisins í byrjun árs 2024 þegar virðisaukaskattsafslátturinn var aflagður. Í staðinn voru innleiddir beinir fjárfestingarstyrkir þar sem nýir fólksbílar, að kaupverðmæti undir 10 m.kr. eru styrkhæfir að upphæð 900.000 kr. Með þessari framkvæmd er komið til móts við hugmyndafræði um réttlát umskipti með því að veita styrki óháð kaupverði. Þannig fá ódýrustu bílarnir hlutfallslega hæstu styrkina og einnig er sett þak á kaupverð.
Kaupverð með styrk frá Orkusjóði setur verð rafbíla oft á tíðum á par við sambærilega bensín- og dísilbíla og gerir rafbíl því að augljósum kosti fyrir margar gerðir bifreiða. Það er tvennt sem skekkir heildarmyndina á bílamarkaði örlítið. Fyrir það fyrsta eru fáar útgáfur af rafbílum á markaði í allra minnstu og ódýrustu flokkum bifreiða sem gefur þá mynd að bensín- og dísilbílar séu enn mun ódýrari kostur. Þetta mun breytast hratt á næstu árum þar sem fjöldi framleiðenda hefur kynnt útgáfur af minni rafbílum á afar hagstæðu verði sem koma á markað á næstu mánuðum og árum. Í öðru lagi eru til margar gerðir bensín- og dísilbíla sem eru auglýstir „verð frá“ þar sem ódýrustu bílarnir eru beinskiptir með lágmarks búnaði. Allir rafbílar eru auðvitað sjálfskiptir og yfirleitt vel útbúnir. Þetta er mikilvægt að hafa í huga þegar kaupverð eru borin saman.
Rekstrarkostnaður
Margir halda að lágur rekstrarkostnaður rafbíla sé vegna þess að raforka sé miklu ódýrari en bensín og dísilolía. Þetta er ekki rétt og samanburður á verði raforku og bensíns án skatta sýnir að þessar orkueiningar eru á svipuðu verði. Lykillinn að lágum rekstrarkostnaði rafbíla liggur í rafbílatækninni sjálfri, þ.e. að rafbílar eru miklu orkunýtnari en bensínbílar. Ef tekið er dæmi um rafbíl og bensínbíl sömu gerðar frá sama framleiðanda eru eyðslutölur þeirra gefnar upp með mismunandi hætti. Rafbíllinn hefur dæmigerða eyðslutölu upp á 18 kWst/100 km og sambærilegur bensínbíll 7 l/100km. Í fljótu bragði sýnist því rafbíllinn vera orkufrekari en svo er nú aldeilis ekki. Ef við samræmum orkueiningarnar, þ.e. umbreytum kWst í lítra, kemur í ljós að rafbíllinn eyðir einungis 1,7 l/100 km samanborið við 7 l/100 km í tilfelli bensínbílsins. Ef lítrum er breytt í kWst sést að bensínbíllinn eyðir 76 kWst/100 km samborið við 18 kWst/100 km hjá rafbílnum. Það er því góð orkunýtni rafbílsins, eða réttara sagt hörmuleg orkunýtni bensínbílsins, sem gerir rekstrarkostnað rafbíla svona aðlaðandi.
Orkunotkun við 100 km akstur | ||
---|---|---|
Orkunotkun olíulítraígildi | Orkunotkun kWst | |
Rafbíll | 1,7 l/100 km | 18 kWst/100 km |
Bensínbíll | 7,0 l/100 km | 76 kWst/100 km |
Ódýrari í rekstri þrátt fyrir kílómetragjald
Um áramótin 23/24 var tekið upp kílómetragjald til að tryggja ríkissjóði tekjur til vaxtar og viðhalds vegakerfisins. Ríkið hefur notað svokölluð olíugjöld til að fá tekjur fyrir rekstur vegakerfisins. Þetta er óskilvirk leið til að afla tekna þar sem sparneytnir bílar borga minna og rafbílar ekkert þrátt fyrir að nýta vegakerfið til jafns við aðra bíla. Kílómetragjald tekur nú við í tveimur skrefum og gildir fyrst fyrir rafbíla eingöngu og svo fyrir alla aðra bíla frá og með áramótum 24/25. Á móti munu olíugjöld lækka.
Hvað kostar þá grunnþjónusta rafbíla í samanburði við bensínbíla? Ef borinn er saman orkukostnaður miðað við 100 km sést að miðað við núverandi eldsneytis- og raforkuverð (300 kr./l og 18 kr./kWst) kosta 100 km í bensínbíl (7 l/100km) 2.100 kr. en aðeins 324 kr. fyrir rafbílinn (18 kWst/100 km). Ef við bætum við kílómetragjaldi sem er 6 kr./km á rafbílinn fer kostnaðurinn á 100 km upp í 924 kr.
Kostnaður við 100 km akstur | ||
---|---|---|
Kostnaður án kílómetragjalds | Kostnaður með kílómetragjaldi | |
Rafbíll | 324 kr. | 924 kr. |
Bensínbíll | 2.100 kr. | 2.100 kr. |
Mismunur | 1.776 kr. | 1.176 kr. |
Eins og sjá má er helmingi ódýrara að keyra rafbíl en sambærilegan bensínbíl þrátt fyrir að rafbíllinn borgi nú sinn hluta af kostnaði við vegakerfið með kílómetragjaldi. Hundrað þúsund kílómetra akstur á rafbíl sparar því vel rúmlega milljón krónur miðað við bensínbíl. Sparnaður í orkukostnaði einn og sér gerir því rafbíl að augljósum kosti og minni viðhaldskostnaður er því í raun bara bónus. En hversu stór bónus?
Lægri viðhaldskostnaður á rafbílum
Ýmislegt fleira leggst ofan á heildar rekstrarkostnað bifreiða en orkukostnaður. Bifreiðagjöld og tryggingar eru þungir bitar fyrir veskið en þessir kostnaðarliðir leggjast nokkuð jafnt á raf- og bensínbíla. Þegar kemur að viðhaldi blasir önnur mynd við. Viðhald er snúinn liður, sérstaklega í samanburði bíla. Þú þarft þó ekki að vera bifvélavirki til að átta þig á því að rafbílar þurfa mun minna viðhald en bensínbílar. Skýrasti munurinn er auðvitað olíuskipti sem eru hreinlega óþörf fyrir rafbíla en eru drjúgur hluti rekstrarkostnaðar vegna bensínbíla sem oft gleymist. Annar augljós munur á tækni tengist bremsum. Rafbílar notast að miklu leyti við endurhleðslubremsun sem hleður rafhlöðuna þegar hægt er á bílnum og dregur úr þörf á notkun bremsuklossa og þar með endurnýjun á þeim. En mestu skiptir líklega að rafmótorinn er hreinlega einfaldari en bensínvélin. Það er stundum sagt að bilanamöguleikar véla haldist í hendur við fjölda hreyfanlegra hluta. Rafbíll hefur um 18 hreyfanlega parta á meðan bensínbíllinn hefur yfir 2.000. Bilanatíðni og viðhaldsþörf er þar með minni fyrir rafbíla og dregur verulega úr viðhaldsþörf og -kostnaði.
Sparar 1-2 milljónir með því að sleppa bílnum
Ef þú vilt virkilega draga úr samgöngukostnaði er þó ekkert sem slær út breyttar ferðavenjur. Það hefur aldrei verið auðveldara að draga úr notkun einkabílsins en nú, hvort sem það er með því að aka minna eða hreinlega losa sig við bílinn. Í fyrsta lagi hefur tilkoma rafhjóla breytt miklu þar sem þau auka notkunarmöguleika reiðhjóla talsvert með tilliti til vegalengda, veðurs og landslags (brekkur). Í öðru lagi hafa hjólainnviðir batnað mikið. Í þriðja lagi hafa möguleikar á heimavinnu og heimsendingu á vörum og öðru tekið stakkaskiptum. Í raun er það orðinn alvöru valkostur að ferðast um á rafhjóli, vinna heima þegar veður er hvað verst og fá allar vörur sendar heim í stað þess að keyra eftir þeim á eigin bíl.
Enginn bíll er í raun langauðveldasta leiðin til að spara mikla peninga í formi bílakaupa, eldsneytiskostnaðar, viðhalds, trygginga o.s.frv. Samkvæmt Félagi íslenskra bifreiðaeigenda (FÍB) er rekstrarkostnaður meðalbíls með öllu um 100 kr. á hvern km. Með því að hjóla 20 km á dag í stað þessa að nota bíl er því hægt að spara um 2.000 kr. Að losa sig við bíl getur minnkað útgjöld um eina til tvær milljónir á ári, skv. útreikningum FÍB. Það er launahækkun sem fæstir myndu fúlsa við og hún er svo sannarlega í boði. Það eina sem þarf að gera er að losa einn bíl út úr fjölskyldubókhaldinu.
Höfundur er sviðsstjóri orkuskipta hjá Orkustofnun.