Vísitala heildarlauna – breytt samsetning vinnuafls hefur áhrif á þróun
Samkvæmt tölum Hagstofu Íslands hækkaði vísitala heildarlauna um 6,8% frá 3. ársfjórðungi 2019 til sama tíma 2020. Launavísitalan hækkaði um 6,5% á sama tímabili. Vísitala heildarlauna á almenna vinnumarkaðnum hækkaði um 8,4% á tímabilinu og um 6,1% á þeim opinbera. Launavísitala almenna markaðarins hækkaði um 6% á tímabilinu og um 8,1% á þeim opinbera.
Sé litið á allan vinnumarkaðinn er ekki mikill munur á hækkun launavísitölunnar og vísitölu heildarlauna á milli 3. ársfjórðunga 2019 og 2020. Launavísitalan mælir breytingu reglulegra fastra mánaðarlauna en vísitala heildarlauna breytingu heildar mánaðarlauna. Því mætti kannski reikna með að heildarlaunin myndu hækka meira en reglulegu launin í erfiðu árferði þegar vinnutími styttist. Þetta er samt ekki raunin þar sem vísitala heildarlauna hækkar meira en launavísitalan.
Þróun heildarlauna og launavísitölu er mjög mismunandi milli opinbera og almenna vinnumarkaðarins. Á almenna markaðnum hafa heildarlaunin hækkað mun meira en launavísitalan sem mælir föst laun. Á opinbera markaðnum hafa reglulegu launin hins vegar hækkað mun meira en heildarlaunin. Á þessu tímabili hafa áhrif kreppunnar á almenna vinnumarkaðinn væntanlega verið mun meiri en á þann opinbera. Þannig hefur vinnutími styst og starfsemi fyrirtækja verið stöðvuð til styttri eða til lengri tíma.
Á almenna markaðnum hafa atvinnuleysi, samdráttur og lokanir fyrirtækja verið mest í ferðaþjónustu og tengdum greinum. Launastig í þessum greinum er að öllu jöfnu lægra en meðaltal á markaðnum. Það mætti því búast við að meðallaun á almenna markaðnum hækki meira en ella þar sem það fækkar í neðri enda tekjustigans. Niðurstöðurnar fyrir almenna vinnumarkaðinn benda til þess að breyting samsetningar vinnuaflsins hafi haft áhrif á launaþróunina á þessu tímabili þar sem heildarlaunin hækka meira en reglulegu launin. Áhrif samsetningar vinnuafls gætu jafnvel verið meiri en sýnist þar sem þau virðast vega upp minni launabreytingar vegna styttri vinnutíma.
Á bak við 8,4% hækkun heildarlauna á almenna markaðnum milli 3. ársfjórðunga 2019 og 2020 eru mismunandi breytingar, allt frá u.þ.b. 5% hækkunum upp í rúmlega 11%. Hækkun heildarlauna er langmest í flutninga- og geymslustarfsemi, 11,3%, en áhrif faraldursins hafa verið mikil á þær atvinnugreinar og kann breytt samsetning vinnuafls að hafa haft áhrif þar. Heildarlaun í gisti- og veitingarekstri hafa hækkað um 9,1% á þessu tímabili. Þarna er líklegasta skýringin aftur að breyting á samsetningu vinnuaflsins hækki meðaltal á milli tímabila. Almennu starfsfólki á lægri enda tekjustigans fækkar, sem hefur áhrif á samanburð meðaltala.
Sé hins vegar litið á greinar sem hafa orðið fyrir tiltölulega litlum áhrifum af kreppunni, eins og fjármála- og vátryggingastarfsemi og upplýsingar og fjarskipti eru breytingar heildarlauna minni en hækkun launavísitölu, sem gæti bent til styttingar vinnutíma í þeim greinum.
Það hefur einkennt þessa kreppu að atvinnuleysi hefur aukist verulega, en á sama tíma eru launahækkanir töluverðar og kaupmáttur á mælikvarða launavísitölu með allra hæsta móti. Þar sem launavísitalan mælir breytingu á föstum reglulegum launum er hún ekki besta mælitækið til þess að mæla tekjubreytingar, þar er t.d. betra að nota vísitölu heildarlauna. Eins og fram hefur komið hér að framan er ekki mikill munur á þróun reglulegra launa og heildarlauna fyrir vinnumarkaðinn í heild.
En sé litið á hreyfingar á almenna vinnumarkaðnum og í einstökum atvinnugreinum má sjá merki um að breytt samsetning vinnuafls hafi áhrif á mat á launaþróun. Þar sem ætla má að stórir hópar úr lægri hluta tekjustigans hverfi á braut mælist meðalbreyting hópa meiri en ella.
Lesa Hagsjána í heild
Hagsjá: Vísitala heildarlauna – breytt samsetning vinnuafls hefur áhrif á þróun