Vikubyrjun 8. ágúst 2023
Vikan framundan
- Í dag birta Icelandair og Play flutningstölur fyrir júlí.
- Á fimmtudag birtir Ferðamálastofa fjölda brottfara um Leifsstöð, Vinnumálastofnun birtir skráð atvinnuleysi og VÍS birtir uppgjör.
Mynd vikunnar
Heildarfjöldi símaáskrifta hér á landi eru um 615 þúsund, samkvæmt gögnum Fjarskiptastofnunar. Þetta samsvarar 1,6 áskriftum á mann, þar af eru farsímaáskriftir 1,3 á mann og fastlínuáskriftir 0,3 á mann. Frá árinu 2010 hefur föstum farsímaáskriftum fjölgað um 73% á meðan fyrirframgreiddum farsímaáskriftum hefur fækkað um 4% og fastlínuáskriftum fækkað um 38%. Á sama tíma hefur landsmönnum fjölgað um 22%. Auk þess sem fastlínuáskriftum hefur fækkað hefur fjöldi mínútna á áskrift úr fastalínu einnig fækkað verulega. Meðalfjöldi mínútna í áskrift fyrir farsíma hélst nokkuð stöðugur þar til 2020, árið sem heimsfaraldurinn skall á, þegar mínútunum fjölgaði nokkuð.
Það helsta frá vikunni sem leið
- Skráðar gistinætur voru 1.170 þúsund í júní og hafa aldrei verið fleiri í júnímánuði. Þær eru um 160 þúsund fleiri en í júní 2022, þegar júnímetið var síðast slegið. Frá því í júní í fyrra hefur í hverjum mánuði verið slegið met í fjölda gistinótta þegar mánuðurinn er borinn saman við sama mánuð árin áður, að desember undanskildum.
- Matsfyrirtækið Fitch lækkaði lánshæfismat ríkissjóðs Bandaríkjanna úr AAA í AA+. Englandsbanki hækkaði vexti um 0,25 prósentustig. Hækkunin færir stýrivexti þar í landi upp í 5,25% en svo háir hafa þeir ekki verið síðan árið 2008.
- Ekkert skuldabréfaútboð var haldið í síðustu viku.