Vikubyrjun 7. október 2024
Vikan framundan
- Á fimmtudag birtir Ferðamálastofa gögn um brottfarir frá Keflavíkurflugvelli í september. Þann dag verða birtar verðbólgutölur í Bandaríkjunum og Ölgerðin birtir uppgjör.
- Á föstudag birtir Vinnumálastofnun tölur yfir skráð atvinnuleysi í september.
- Í vikunni fara fram verðmælingar vegna októbermælingar á vísitölu neysluverðs, en Hagstofan birtir hana miðvikudaginn 30. október.
Mynd vikunnar
Seðlabankinn tilkynnti um vaxtalækkun á miðvikudaginn í síðustu viku, eftir að haldið vöxtum óbreyttum á sex fundum í röð. Í yfirlýsingu sem peningastefnunefnd gaf út samhliða ákvörðuninni kemur fram að dregið hafi úr umfangi og tíðni verðhækkana og að undirliggjandi verðbólga hafi minnkað. Þá bendir nefndin á aukinn slaka á vinnumarkaði og aukna svartsýni heimila og fyrirtækja. Greiningardeildir allra viðskiptabankanna höfðu spáð því að vöxtum yrði haldið óbreyttum enn um sinn, enda skýrist hröð hjöðnun verðbólgunnar síðustu tvo mánuði einna helst af niðurfellingu opinberra gjalda sem hugsanlega veldur aukinni þenslu í hagkerfinu síðar meir. Auk þess hefur kortavelta aukist statt og stöðugt síðustu mánuði og íbúðaverð verið á hraðri uppleið. Líklega má áfram búast við að nefndin taki varfærin skref, en ef fram heldur sem horfir og verðbólgan hjaðnar teljum við að vextir verði smám saman lækkaðir áfram á næstu fundum.
Það helsta frá vikunni sem leið
- Sem fyrr segir urðu mikil tíðindi á miðvikudag, þegar Seðlabankinn lækkaði stýrivexti um 0,25 prósentustig.
- Verðbólga hélt áfram að hjaðna á evrusvæðinu í september og mældist 1,8%. Hún komst niður fyrir 2% verðbólgumarkmiðið á svæðinu í fyrsta skipti í þrjú ár og væntingar eru um aðra vaxtalækkunina í röð þann 17. október nk.
- 254 þúsund nýju störf urðu til í Bandaríkjunum í september og lækkaði atvinnuleysi úr 4,3% í 4,1%. Tölurnar voru sterkari en almennt var búist við og juku líkurnar á að bandaríski seðlabankinn taki minni skref til lækkunar stýrivaxta í nóvember.
- Íslandsbanki hélt útboð á sértryggðum skuldabréfum. Landsbankinn gaf út græn skuldabréf í evrum. Arion banki gaf út græn skuldabréf í norskum og sænskum krónum og hélt útboð sértryggðra skuldabréfa ásamt skiptiútboði. Lánamál ríkisins héldu útboð á ríkisskuldabréfum og birtu ársfjórðungsáætlun.
Hagtölur og markaðsupplýsingar
Fyrirvari
Þessi samantekt og/eða umfjöllun er markaðsefni ætlað til upplýsingar en ekki sem grundvöllur viðskipta. Markaðsefni þetta felur hvorki í sér fjárfestingarráðgjöf né óháða fjárfestingargreiningu. Lagakröfur sem gilda um fjárfestingarráðgjöf og fjárfestingargreiningu eiga því ekki við, þ.m.t. bann við viðskiptum fyrir dreifingu.Upplýsingar um þróun gengis innlendra hlutabréfa, skuldabréfa og/eða vísitalna koma frá Nasdaq Iceland – Kauphöllinni. Á vef Landsbankans er hægt að nálgast nánari upplýsingar með því að smella á viðkomandi hlutabréf, skuldabréfaflokk eða vísitölu. Upplýsingar um þróun gengis erlendra fjármálagerninga, vísitalna og/eða sjóða koma frá aðilum sem Landsbankinn hefur metið áreiðanlega. Þróun gengis í fortíð gefur ekki vísbendingu um framtíðarþróun.
Upplýsingar um fyrri árangur sjóða Landsbréfa byggja á upplýsingum frá Landsbréfum. Á vef Landsbankans er hægt að nálgast nánari upplýsingar með því að smella á heiti viðkomandi sjóðs, þ.m.t. um árangur síðastliðinna fimm ára. Upplýsingar um fyrri árangur sjóða sýna nafnávöxtun, nema annað sé tekið fram. Ef fyrri árangur sjóða byggir á erlendum gjaldmiðli getur ávöxtun aukist eða minnkað vegna gengissveiflna. Árangur í fortíð gefur ekki áreiðanlega vísbendingu um framtíðarárangur.
Verðbréfaviðskipti fela í sér áhættu og eru lesendur hvattir til að kynna sér Áhættulýsingu vegna viðskipta með fjármálagerninga og Stefnu Landsbankans um hagsmunaárekstra sem finna má á vef Landsbankans.
Landsbankinn hefur starfsleyfi sem viðskiptabanki samkvæmt lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og sætir eftirliti Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands (www.sedlabanki.is/fjarmalaeftirlit).