Ferðamönnum um Keflavíkurflugvöll fjölgaði á milli ára á þriðja ársfjórðungi, sem er jafnan sá stærsti í ferðaþjónustunni. Um 781 þúsund erlendir ferðamenn fóru um Keflavíkurflugvöll, eða 0,9% fleiri en á sama tíma í fyrra. Það sem af er ári hefur ferðamönnum fjölgað um 1% frá fyrra ári. Gistinóttum ferðamanna á skráðum gististöðum fækkaði um 1% á fjórðungnum, en hefur fækkað um 2,5% það sem af er ári. Kortavelta á föstu verðlagi jókst um 2% á fjórðungnum, en hefur í heildina dregist saman það sem af er ári.
Þessar tölur eru í samræmi við nýlega hagspá okkar þar sem við gerðum ráð fyrir lítillegum samdrætti í ferðaþjónustu í ár. Þó tölurnar fyrir þriðja fjórðung líti ágætlega út benda þær ekki til þess að fjórðungurinn nái að vega upp töluverðan samdrátt í greininni á öðrum fjórðungi og útflutt ferðaþjónusta á árinu í heild mun því dragast lítillega saman, gangi spáin eftir.
Færri gistinætur en í fyrra
Það sem af er ári hefur gistinóttum ferðamanna fækkað frá fyrra ári um alls 2,5%, þó ferðamönnum hafi fjölgað lítillega. Ferðamenn hafa því að meðaltali gist skemur í ferðum sínum í ár en í fyrra. Gistinóttum á skráðum gististöðum, öðrum en hótelum, fjölgar þó um 1% á milli ára en gistinóttum ferðamanna á hótelum hefur fækkað um 5,4% það sem af er ári. Gistinætur á hótelum eru jafnan dýrari en gistinætur á öðrum tegundum gististaða og skila því meiri verðmætum.
Kortavelta jókst á þriðja ársfjórðungi
Kortavelta ferðamanna það sem af er ári hefur dregist saman um 1% á föstu verðlagi, en var þó um 2% meiri á þriðja ársfjórðungi í ár en í fyrra. Kortavelta á hvern ferðamann hefur að meðaltali verið um 2,6% minni það sem af er ári, en ef við skoðum bara þriðja fjórðung jókst kortavelta á hvern ferðamann um rétt rúmlega 1%.
Spáum vexti á næsta ári
Sé litið til þessara helstu mælikvarða á stöðu ferðaþjónustunnar var þriðji ársfjórðungur nokkuð góður: Ferðamönnum fjölgaði og kortavelta á föstu verðlagi jókst á milli ára. Fjöldi gistinótta ferðamanna dróst hins vegar áfram saman á fjórðungnum, um tæplega 1%, sem er þó töluvert minni samdráttur en á öðrum fjórðungi, þegar fjöldi gistinótta dróst saman um tæp 10% á milli ára.
Í ár spáum við lítils háttar samdrætti í ferðaþjónustu frá fyrra ári. Þar vega þyngst áhrif eldgosanna á Reykjanesskaga á ferðaþjónustu á öðrum fjórðungi, og þó þriðji fjórðungur hafi verið nokkuð góður gerum við ekki ráð fyrir að hann vegi upp samdráttinn á öðrum fjórðungi. Á næsta ári spáum við því að ferðaþjónusta vaxi töluvert, sem skýrist ekki síst af því að við gerum ekki ráð fyrir að eldsumbrotin á Reykjanesi hafi jafn neikvæð áhrif á ferðaþjónustuna þá og þau gerðu í ár.
Fyrirvari
Innihald og form þessarar greiningar er unnið af starfsfólki Greiningardeildar Landsbankans hf. (greiningardeild@landsbankinn.is) og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem greiningin var unnin. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsfólks Greiningardeildar Landsbankans á þeim degi þegar greiningin er dagsett, en þær geta breyst án fyrirvara.Landsbankinn hf. og starfsfólk hans taka ekki ábyrgð á viðskiptum sem byggð eru á þeim upplýsingum og skoðunum sem hér eru settar fram, enda eru þær ekki veittar sem persónuleg ráðgjöf fyrir einstök viðskipti.
Bent skal á að Landsbankinn hf. getur á hverjum tíma haft beinna eða óbeinna hagsmuna að gæta, ýmist sjálfur, dótturfélög hans eða fyrir hönd viðskiptavina, s.s. sem fjárfestir, lánardrottinn eða þjónustuaðili. Greiningar eru engu að síður unnar sjálfstætt af Greiningardeild Landsbankans og innan Landsbankans eru í gildi reglur um aðskilnað starfssviða sem eru aðgengilegar á vef bankans.