Vikan framundan
- Á miðvikudag birtir Seðlabankinn fundargerð peningastefnunefndar.
- Á fimmtudag birta Lánamál ríkisins markaðsupplýsingar.
- Á föstudag birtir Ferðamálastofa brottfarir um Leifsstöð og Vinnumálastofnun birtir tölur um skráð atvinnuleysi.
Mynd vikunnar
Erlend staða þjóðarbúsins hefur batnað mikið síðustu ár. Í lok árs 2016 var verðmæti erlendra skulda og erlendra eigna svipað. Í lok annars ársfjórðungs í ár voru erlendar eignir metnar á 1.120 ma. kr. umfram erlendar skuldir. Afgangur af viðskiptum við útlönd á þessu tímabili var rúmlega 360 ma. kr. sem skýrir því ekki bætta stöðu nema að hluta til. Erlendar skuldir eru að miklu leyti skuldabréf á meðan hlutabréf vega þyngra í erlendum eignum. Lágir alþjóðlegir vextir og almennar hækkanir á hlutabréfamörkuðum úti í heimi hafa því væntanlega einnig hjálpað til.
Efnahagsmál
- Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,46% milli mánaða og mælist verðbólga 4,3% þriðja mánuðinn í röð. Mest áhrif til hækkunar hafði kostnaður við að búa í eigin húsnæði, húsgögn og heimilisbúnaður og hótel og veitingastaðir. Mestu áhrif til lækkunar höfðu flugfargjöld til útlanda.
- Samkvæmt fyrsta mati Hagstofu Íslands mældist 7,3% hagvöxtur á 2. ársfjórðungi. Hagvöxturinn var borinn af aukningu í einkaneyslu, fjármunamyndun og útflutningi, en aukinn innflutningur kom til frádráttar. Hagvöxtur á fyrstu sex mánuðum ársins mældist 3,5%, en samhliða birtingu talna fyrir 2. ársfjórðung endurskoðaði Hagstofan samdráttinn á 1. ársfjórðungi úr 1,7% í 0,2%.
- Á öðrum ársfjórðungi var 31,1 ma. kr. halli á viðskiptajöfnuði. Halli var á vöruskiptajöfnuði og rekstrarframlögum, en afgangur mældist á þjónustujöfnuði og frumþáttatekjum.
- Tveir af hverjum fimm erlendum ferðamönnum sem fóru um Leifsstöð í ágúst voru Bandaríkjamenn.
- Hagstofan birti aflaverðmæti á fyrri hluta ársins, vöruskiptajöfnuð í júlí, gistinætur í júlí og staðgreiðsluskyldar greiðslur í júní.
- Seðlabankinn birti talnaefni um lánasjóð ríkisins og stöðu markaðsverðbréfa.
Fjármálamarkaðir
- Síminn og Sýn birtu hálfsársuppgjör.
- Eftirfarandi útgefendur skráðra skuldabréfa birtu hálfsársuppgjör: Félagsbústaðir, RARIK, ÍL-sjóður og Alma íbúðafélag.
- Við birtum mánaðaryfirlit yfir sértryggð skuldabréf.
- Krónan veiktist í ágúst.
- Stjórn Skeljungs ákvað að ganga til viðræðna um sölu á P/F Magn.
- Lánamál ríkisins luku útboði ríkisvíxla og útboði ríkisbréfa.