Vikan framundan
- Á miðvikudag birtir Icelandair flutningstölur fyrir mars.
- Á fimmtudag birtir Seðlabankinn útreikning á raungenginu í mars.
- Á föstudag birtir Vinnumálastofnun skráð atvinnuleysi í mars.
Mynd vikunnar
Ársverðbólgan hér á landi mælist núna 6,7%. Verð á stökum undirliðum í vísitölu neysluverðs hefur þróast misjafnlega síðustu tólf mánuði. Húsnæðiskostnaður hefur hækkað mikið meira en almennt verðlag, aðallega vegna mikilla hækkana á markaðsverði húsnæðis. Bensín og díselolíur hafa einnig hækkað meira en almennt verðlag. Matarkarfan og verð á nýjum bílum hafa aftur á móti hækkað minna en almennt verðlag. Verð á fötum og skóm er nokkurn veginn óbreytt milli ára.
Efnahagsmál
- Vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði um 0,94% milli mánaða í mars og mælist verðbólgan nú 6,7% samanborið við 6,2% í febrúar. Verðbólgan hefur ekki mælst meiri síðan í maí 2010. Hækkunin milli mánaða var örlítið lægri en við áttum von á, en þó svipuð.
- Heildarfjöldi greiddra gistinótta á skráðum gististöðum var 396 þúsund í febrúar. Þetta eru um 17% færri gistinætur en í febrúar 2020, áður en heimsfaraldurinn skall á. Um fjórðungur gistinótta voru Íslendingar.
- Ríkisstjórnin kynnti fjármálaáætlun fyrir árin 2023-2027 í síðustu viku.
- Hagstofan birti þjóðhagsspá.
- Ferðamálastofa kynnti könnun um ferðalög Íslendinga 2021 og ferðaáform 2022.
- Seðlabankinn birti Hagvísa og talnaefni um lánasjóði ríkisins, önnur fjármálafyrirtæki, verðbréfa-, fjárfestingar- og fagfjárfestasjóði, verðbréfafjárfestingu og stöðu markaðsverðbréfa.
Fjármálamarkaðir
- Lánamál ríkisins birtu ársfjórðungsáætlun í lánamálum fyrir 2. ársfjórðung í síðustu viku.
- Lánamál ríkisins luku útboði ríkisvíxla, Íslandsbanki lauk útboði á sértryggðum skuldabréfum og gaf síðan út sértryggð bréf til eigin nota, Reginn lauk skuldabréfaútboði og Síminn lauk víxlaútboði.