Vikubyrjun 3. apríl 2023
Vikan framundan
- Á þriðjudag birtir Seðlabankinn Hagvísa.
- Á miðvikudag birtir Seðlabankinn fundargerð frá síðasta fundi peningastefnunefndar þar sem ákveðið var að hækka stýrivexti um eitt prósentustig.
Mynd vikunnar
Ríkissjóður verður rekinn með halla til ársins 2028, samkvæmt ríkisfjármálaáætlun sem ríkisstjórnin kynnti á miðvikudaginn í síðustu viku. Stefnt er að því að rétta ríkisreksturinn af örlítið fyrr en var áætlað í síðustu fjármálaáætlun. Nú er gert ráð fyrir 0,1 ma. kr. halla árið 2027 en síðast var gert ráð fyrir um 25 ma. kr. halla það ár. Hagfræðideild telur ólíklegt að aðhaldið í fjármálaáætluninni sé nægt til að slá á verðbólgu, a.m.k. ekki á allra næstu mánuðum.
Skuldahlutfall ríkissjóðs helst stöðugt í 31% til ársins 2028 þegar það lækkar í 30%. Vaxtagjöld eru þung byrði á ríkissjóði og það eru ekki síst þau sem skýra hversu hægt er gert ráð fyrir að skuldahlutfallið lækki.
Helsta frá vikunni sem leið
- Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,59% milli mánaða í mars, samkvæmt mælingu Hagstofunnar, og ársverðbólgan fór úr 10,2% í 9,8%. Þetta er í fyrsta sinn síðan í nóvember sem ársverðbólgan hjaðnar. Verðbólgan var minni en við gerðum ráð fyrir, en við höfðum spáð því að hún myndi lækka í 10% í mars. Munurinn á okkar spá og mælingunni skýrist aðallega af því að liðurinn húsgögn og heimilisbúnaður lækkaði um 1,7%, mest sængurfatnaður og handklæði, enda voru tilboðsdagar hjá einhverjum söluaðilum í verðkönnunarvikunni. Lækkunin kann því að vera vegna skammtímaáhrifa sem gætu hæglega gengið til baka.
- Í febrúar var slegið met í fjölda skráðra gistinótta í febrúarmánuði, samkvæmt tölum Hagstofunnar. Gistinætur voru 575.300 sem er 45% aukning frá fyrra ári og 9,4% aukning frá fyrra metári, 2018. Gistinætur erlendra ferðamanna voru örlítið færri en í febrúar árið 2018 en gistinætur Íslendinga ríflega tvöfalt fleiri en þá. Ferðagleði Íslendinga innanlands jókst mjög í faraldrinum og landsmenn virðast hafa viðhaldið nýjum ferðavenjum. Febrúarmánuður í ár er fyrsti febrúarmánuðurinn eftir að ferðatakmarkanir voru með öllu afnumdar og erlendum ferðamönnum hefur fjölgað hratt á ný.
- Orkuveita Reykjavíkur lauk útboði á grænum skuldabréfum og Lánamál ríkisins birtu niðurstöður í útboði ríkisvíxla og niðurstöður viðbótarútgáfu ríkisbréfa. Lánamál ríkisins birtu ársfjórðungsáætlun fyrir annan ársfjórðung. Útgerðarfélag Reykjavíkur birti ársreikning.
- Verðbólga á evrusvæðinu hjaðnaði niður í 6,9%.