Vikan framundan
- Í dag birtir Hagstofan vísitölu launa.
- Á þriðjudag birtir Síminn uppgjör fyrir 1F.
- Á miðvikudag birtir Nova uppgjör fyrir 1F.
- Á fimmtudag birtir Hagstofan verðbólgutölur fyrir apríl. Við gerum ráð fyrir að verðbólgan lækki úr 9,8% í 9,5%. Hagar birta uppgjör fyrir rekstrarárið 2022/23 Icelandair og Play birta uppgjör fyrir 1F.
Mynd vikunnar
Fyrr í dag birtum við þjóðhags- og verðbólguspá. Við eigum von á að hagvöxtur verði 3,2% á þessu ári. Horfur í ferðaþjónustu eru bjartar og innlend eftirspurn mælist sterk. Við teljum að verðbólga hafi náð hámarki en hjaðni hægt og mælist enn yfir efri vikmörkum verðbólgumarkmiðs Seðlabankans, eða 4,5%, í lok spátímabilsins. Seðlabankinn mun þurfa að halda áfram að hækka vexti, og gerum við ráð fyrir að stýrivextir nái hámarki í 8,5% og fari ekki að lækka fyrr en á öðrum fjórðungi næsta árs.
Það helsta frá vikunni sem leið
- Vísitala íbúðaverðs hækkaði óvænt um 1,5% milli mánaða í mars, en svo mikið hefur hún ekki hækkað síðan í júní í fyrra sem var áður en Seðlabankinn herti lánþegaskilyrði og hækkaði vexti verulega. Fjölbýli hækkaði um 1% milli mánaða og sérbýli um 3,4%. Vegin árshækkun vísitölu íbúðaverðs mælist nú 10,7% og lækkar milli mánaða þrátt fyrir þessa hækkun, en það skýrist af því að vísitalan hækkaði enn meira milli mánaða í mars í fyrra. Árshækkun fjölbýlis mælist nú 11% og sérbýlis 10,6%. Vísitala leiguverðs hækkaði um 0,8% milli mánaða.
- Ferðamálastofa birti samantekt úr könnun Evrópska ferðamálaráðsins meðal Evrópubúa um ferðaáform og Hagstofan birti skammtímahagvísa ferðaþjónustu.
- Af skuldabréfamarkaði var helst að frétta að Síminn hélt útboð á víxlum og Landsbankinn hélt útboð á sértryggðum skuldabréfum.
- Ölgerðin birti ársuppgjör fyrir rekstrarárið 2022/2023.