Vikan framundan
- Í dag birta Reginn og Reitir uppgjör fyrir annan ársfjórðung.
- Á þriðjudag gefur Hagstofan út launavísitölu í júlí og aðrar tengdar vísitölur auk þess sem Síminn birtir ársfjórðungsuppgjör.
- Á miðvikudag er vaxtaákvörðunardagur hjá Seðlabanka Íslands. Við eigum von á að stýrivextir verði hækkaðir um 0,75 prósentustig. Seðlabankinn gefur einnig út ársfjórðungsrit sitt, Peningamál, með uppfærðri verðbólgu- og þjóðhagsspá.
- Á fimmtudag gefur Hagstofan út tölur júlímánaðar um vinnumarkaðinn auk gagna um vöru- og þjónustuviðskipti á öðrum ársfjórðungi. Brim og Eik gefa einnig út ársfjórðungsuppgjör.
- Á föstudag birtir Play ársfjórðungsuppgjör.
Mynd vikunnar
Seðlabanki Íslands kannar ársfjórðungslega væntingar markaðsaðila, þ.e. banka, lífeyrissjóða, verðbréfa- og fjárfestingarsjóða, verðbréfamiðlana og fyrirtækja með starfsleyfi til eignastýringar. Samkvæmt nýrri könnun sem var framkvæmd í byrjun ágúst, vænta markaðsaðilar þess að verðbólgan nái hámarki nú á þriðja ársfjórðungi og verði að meðaltali 10% en taki svo að hjaðna. Þessi niðurstaða passar ágætlega við nýútgefna verðbólguspá Hagfræðideildar Landsbankans þar sem við spáum því að verðbólgan hafi þegar náð hámarki og fari hjaðnandi strax í september. Þó má sjá í síðustu tveimur könnunum Seðlabankans, frá því í janúar og apríl, að markaðsaðilar , rétt eins og spáaðilar hafa haft tilhneigingu til þess að vanspá verðbólgunni.
Efnahagsmál
- Íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 1,1% milli júní og júlí sem er mun minni hækkun en hefur sést á síðustu mánuðum. Vísitala leiguverðs á höfuðborgarsvæðinu stóð í stað milli júní og júlí eftir 0,8% lækkun milli maí og júní.
- Velta innlendra greiðslukorta jókst alls um 6,8% að raunvirði á milli ára í júlí en Íslendingar virðast gera töluvert betur við sig erlendis nú en fyrir faraldurinn.
- Seðlabankinn birti ársfjórðungslega könnun á væntingum markaðsaðila.
- Í síðustu viku var síðasti verðkönnunardagur Hagstofunnar fyrir vísitölu neysluverðs í ágúst en við spáum því að vísitalan hækki um 0,4% milli júlí og ágúst. Gangi spáin eftir verður ársverðbólgan óbreytt milli mánaða í 9,9%. Við eigum von á að nú sé hámarki verðbólgu náð og að verðbólgan muni hjaðna hægt á næstu mánuðum.
Fjármálamarkaðir
- Eimskip, Kvika banki, Síldarvinnslan og VÍS birtu ársfjórðungsuppgjör fyrir annan ársfjórðung.