Vikubyrjun 20. nóvember 2023
Vikan framundan
- Á þriðjudag birtir HMS vísitölu íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu.
- Á miðvikudag er vaxtaákvörðun hjá peningastefnunefnd. Við spáum óbreyttum vöxtum. Samhliða vaxtaákvörðuninni birtir Seðlabankinn Peningamál með nýrri þjóðhagsspá. Iceland Seafood birtir uppgjör.
- Á fimmtudag birta Hampiðjan og Síldarvinnsla uppgjör.
Mynd vikunnar
Í nýjustu könnun á væntingum markaðsaðila, sem fór fram 6.-8. nóvember, töldu 27% svarenda taumhald peningstefnu vera of þétt og aðeins 13% töldu það of laust. Þetta er í fyrsta sinn frá því í janúar árið 2020 sem þeir sem telja aðhaldið of þétt eru fleiri en þeir sem telja það of laust. Í síðustu tíu könnunum hafa markaðsaðilar talið aðhaldið of laust og í kjölfar birtingar niðurstaðnanna hefur peningastefnunefnd í hvert sinn hækkað vexti á næsta fundi.
Það helsta frá vikunni sem leið
- Seðlabankinn birti niðurstöður úr könnun á væntingum markaðsaðila. Verðbólguvæntingar til fimm ára voru óbreyttar í 4,0%, en til tíu ára lækkuðu þær úr 3,6% í 3,5%. Markaðsaðilar telja að meginvextir bankans hafi náð hámarki og að peningastefnunefnd muni hefji vaxtalækkunarferli strax á öðrum ársfjórðungi næsta árs. Nokkur breyting varð á áliti svarenda á taumhaldi peningastefnu, en að þessu sinni voru þeir sem töldu taumhaldið of þétt fleiri en þeir sem töldu það of laust.
- Í vikunni fóru fram verðmælingar fyrir nóvembermælingu vísitölu neysluverðs. Við spáum að verðbólgan verði 8,0% í nóvember. Við teljum að hún haldist nokkuð stöðug í desember en hjaðni svo þó nokkuð eftir áramót, niður í 7,3% í janúar og 6,7% í febrúar. Vísitalan hækkaði mjög milli mánaða í janúar og febrúar í ár og því má gera ráð fyrir að verðbólgan hjaðni við það að þær mælingar detti út úr ársverðbólgunni.
- Hagstofa Íslands gaf út þjóðhagsspá.
- Á hlutabréfamarkaði birtu Amaroq, Brim, Eik, Reitir og Reginn uppgjör. Hlutabréf Kaldalóns voru tekin til viðskipta á Aðalmarkaði Nasdaq Iceland.
- Á skuldabréfamarkaði hélt Lánamál ríkisins útboð ríkisbréfa, Kvika banki gaf út skuldabréf í sænskum og norskum krónum og ÍL-sjóður tilkynnti að það væri í undirbúningi að halda skiptiútboð þar sem eigendum íbúðabréfa gæfist kostur á að skipta á þeim fyrir markaðsverðbréf í eigu ÍL-sjóðs.