Vikan framundan
- Á þriðjudaginn birtir HMS vísitölu íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu.
- Á miðvikudag birtir Seðlabankinn fundargerð peningastefnunefndar, Hagstofan birtir launavísitöluna og niðurstöður úr vinnumarkaðsrannsókn sinni og Iceland Seafood birtir ársuppgjör.
- Á fimmtudag birta Brim og VÍS ársuppgjör.
- Á föstudag birtir Hagstofan vöru- og þjónustujöfnuð.
Mynd vikunnar
Einkaneysla hér á landi hefur verið mjög kröftug síðan takmarkanir vegna faraldursins voru afnumdar. Einkaneysla jókst um tæp 11% milli ára að raunvirði á fyrstu níu mánuðum ársins 2022. Velta greiðslukorta heimila bendir þó til þess að hægt hafi á aukningunni á síðustu þremur mánuðum ársins 2022, en að hún hafi farið aftur á flug í janúar í ár. Athygli vekur að í janúar var aukningin bæði komin til vegna aukinnar veltu innanland og erlendis, en á síðustu mánuðum hefur aukninguna nær einungis mátt rekja til aukinnar neyslu erlendis. Nýlega umsamdar launahækkanir gætu verið ein skýring aukinnar neyslu og ferðagleði landsmanna í janúar en stór hluti launafólks á almennum vinnumarkaði fékk launahækkun afturvirkt frá 1. nóvember. Sem fyrr er þó varasamt að lesa mikið í einstaka mælingar - næstu mánuðir munu leiða í ljós hver þróunin verður.
Helsta frá vikunni sem leið
- Við eigum von á að verðbólgan lækki úr 9,9% í 9,6% í febrúar, en Hagstofan birtir febrúarmælingu vísitölu neysluverðs mánudaginn 27. febrúar. Spá okkar til næstu mánaða gerir ráð fyrir örlítið meiri verðbólgu en í síðustu spá sem við birtum í lok janúar. Við teljum engu að síður að verðbólgan hjaðni á næstu mánuðum og verði komin niður í 8,2% í júní.
- Þó ferðamenn hafi verið nokkuð færri í janúar í ár en í janúarmánuðum fyrir faraldur, eyðir hver ferðamaður að jafnaði meiru núna en þá.
- Uppgjörstímabil stendur nú yfir, en Eimskip, Reitir, Síminn, Kvika banki, Fly Play, SKEL fjárfestingarfélag og Sýn birtu ársuppgjör.
- Á skuldabréfamarkaði hélt Lánasjóður sveitarfélaga skuldabréfaútboð, Landsbankinn hélt útboð á sértryggðum skuldabréfum og Lánamál ríkisins héldu útboð ríkisbréfa.