Vikubyrjun 2. september 2024
Vikan framundan
- Á morgun birtir Seðlabankinn greiðslujöfnuð við útlönd og gögn um erlenda stöðu þjóðarbúsins.
- Á miðvikudag birtir Seðlabankinn fundargerð peningastefnunefndar vegna stýrivaxtaákvörðunarinnar 21. ágúst.
- Á föstudag verða birtar tölur um atvinnuleysi í Bandaríkjunum.
Mynd vikunnar
Samkvæmt fyrsta mati Hagstofunnar mældist 0,3% samdráttur landsframleiðslu á öðrum ársfjórðungi. Minni einkaneysla, meiri innflutningur og minni útflutningur en á öðrum ársfjórðungi í fyrra höfðu áhrif til lækkunar. Aftur á móti mældist meiri samneysla og fjármunamyndun en á sama tíma í fyrra ásamt því sem framlag birgðabreytinga var jákvætt. Þetta er annar ársfjórðungur í röð sem hagkerfið dregst saman, en þar áður hefur mælst samfelldur hagvöxtur síðan á fyrsta ársfjórðungi 2021.
Það helsta frá vikunni sem leið
- Með nýjustu útgáfu þjóðhagsreikninga uppfærði Hagstofan fyrra mat um 4,1% samdrátt á fyrsta ársfjórðungi í 3,5% samdrátt. Alls dróst hagkerfið því saman um 1,9% að raunvirði á fyrstu sex mánuðum ársins. Hagstofan uppfærði einnig hagvaxtartölur fyrir árið 2023 og er nú talið að hagvöxtur hafi verið 5,0%, en ekki 4,1% eins og áður var talið. Umsvif í hagkerfinu eru því meiri en áður var talið þótt landsframleiðsla dragist nú saman.
- Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,09% á milli mánaða í ágúst og lækkaði ársverðbólga úr 6,3% í 6,0%. Vísitalan hækkaði nokkuð minna en við gerðum ráð fyrir, en við spáðum óbreyttri verðbólgu. Það var óvenju margt í þessari mælingu sem kom á óvart. Menntunarliðurinn lækkaði töluvert vegna niðurfellingar skólagjalda í nokkrum háskólum. Þar að auki lækkaði matarkarfan í fyrsta sinn í þrjú ár. Flugfargjöld til útlanda lækkuðu venju samkvæmt í ágúst, þó minna en við höfðum spáð. Sumarútsölur virðast ganga hægar til baka en oft áður og var hækkun á fötum og skóm í ágúst nokkuð minni en við spáðum. Við gerum ráð fyrir að ársverðbólga lækki frekar næstu mánuði og verði 5,9% í september, 5,4% í október og 5,0% í nóvember.
- Hagstofan birti tölur um fjölda gistinótta í júlí. Gistinóttum erlendra ferðamanna á öllum skráðum gististöðum fækkaði um 6,6% á milli ára í júlí, þar af fækkaði gistinóttum erlendra ferðamanna á hótelum um 8,4%. Fækkun gistinótta kemur örlítið á óvart, en bæði fjölgaði ferðamönnum í júlí lítillega frá fyrra ári og sömuleiðis jókst erlend kortavelta innanlands um 3,8% á föstu gengi.
- Verðbólga á evrusvæðinu lækkaði úr 2,6% í niður í 2,2% í ágúst og hefur ekki verið minni í þrjú ár. Evrópski seðlabankinn hóf lækkunarferil í sumar með 0,25 prósentustiga lækkun og er líklegt að vextir verði lækkaðir frekar á næsta vaxtaákvörðunardegi seinna í mánuðinum.
- Brim, Hampiðjan, Heimar, Ísfélagið, Íslandshótel, Kaldalón(kynning), Síldarvinnsla, Síminn, Skagi (fjárfestakynning) og Sýn (fjárfestakynning) birtu uppgjör. JBT tilkynnti um framlengingu á gildistíma á valfrjálsu yfirtökutilboði til hluthafa Marel. Arion banki stækkaði endurkaupaáætlun sína.
- Þrjú víxlaútboð voru í síðustu viku, en Útgerðarfélag Reykjavíkur, Iceland Seafood og Kaldalón héldu útboð á víxlum. Reitir héldu skuldabréfaútboð. Lánamál ríkisins tilkynnti um niðurstöður viðbótarútgáfu.
- Fitch staðfesti lánshæfismat ríkissjóðs.
Hagtölur og markaðsupplýsingar
Fyrirvari
Þessi samantekt og/eða umfjöllun er markaðsefni ætlað til upplýsingar en ekki sem grundvöllur viðskipta. Markaðsefni þetta felur hvorki í sér fjárfestingarráðgjöf né óháða fjárfestingargreiningu. Lagakröfur sem gilda um fjárfestingarráðgjöf og fjárfestingargreiningu eiga því ekki við, þ.m.t. bann við viðskiptum fyrir dreifingu.Upplýsingar um þróun gengis innlendra hlutabréfa, skuldabréfa og/eða vísitalna koma frá Nasdaq Iceland – Kauphöllinni. Á vef Landsbankans er hægt að nálgast nánari upplýsingar með því að smella á viðkomandi hlutabréf, skuldabréfaflokk eða vísitölu. Upplýsingar um þróun gengis erlendra fjármálagerninga, vísitalna og/eða sjóða koma frá aðilum sem Landsbankinn hefur metið áreiðanlega. Þróun gengis í fortíð gefur ekki vísbendingu um framtíðarþróun.
Upplýsingar um fyrri árangur sjóða Landsbréfa byggja á upplýsingum frá Landsbréfum. Á vef Landsbankans er hægt að nálgast nánari upplýsingar með því að smella á heiti viðkomandi sjóðs, þ.m.t. um árangur síðastliðinna fimm ára. Upplýsingar um fyrri árangur sjóða sýna nafnávöxtun, nema annað sé tekið fram. Ef fyrri árangur sjóða byggir á erlendum gjaldmiðli getur ávöxtun aukist eða minnkað vegna gengissveiflna. Árangur í fortíð gefur ekki áreiðanlega vísbendingu um framtíðarárangur.
Verðbréfaviðskipti fela í sér áhættu og eru lesendur hvattir til að kynna sér Áhættulýsingu vegna viðskipta með fjármálagerninga og Stefnu Landsbankans um hagsmunaárekstra sem finna má á vef Landsbankans.
Landsbankinn hefur starfsleyfi sem viðskiptabanki samkvæmt lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og sætir eftirliti Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands (www.sedlabanki.is/fjarmalaeftirlit).