Vikan framundan
- Í dag birtir Nova uppgjör.
- Á miðvikudag birta Festi og Marel uppgjör. Seðlabanki Bandaríkjanna tekur ákvörðun um vexti.
- Á fimmtudag birta Arion banki, Íslandsbanki, Landsbankinn og VÍS uppgjör. Evrópski Seðlabankinn tekur ákvörðun um vexti.
Mynd vikunnar
Framboð á flugi til landsins næstu mánuði er talsvert meira en á sama tíma í fyrra og árið þar áður. Það er um 92% af því sem það var á metárinu 2018 þegar 2,3 milljónir ferðamanna komu til landsins. Þetta gefur nokkuð góð fyrirheit um ferðamannasumarið. Verði sætanýting í vélunum með svipuðum hætti og þá var má gera ráð fyrir að við nálgumst álíka fjölda og kom til landsins það ár. Við erum að gera ráð fyrir 2,1 milljón ferðamanna í ár í nýjustu þjóðhagsspá okkar sem mun drífa áfram hagvöxt.
Helsta frá vikunni sem leið
- Vísitala neysluverðs hækkaði um 1,31% milli mánaða í apríl og við það hækkaði ársverðbólgan úr 9,8% í 9,9%. Þetta var mun meiri hækkun en við áttum von á, en við höfðum spáð því að verðbólgan myndi lækka í 9,5%. Flugfargjöld til útlanda og reiknuð húsaleiga höfðu mest áhrif til hækkunar, ásamt mat- og drykkjarvörum, sem hækkuðu um 1,5%, að miklu vegna verðhækkana á mjólkurafurðum. Þrátt fyrir að mælingin hafi verið hærri en við gerðum ráð fyrir, teljum við enn að verðbólgan hjaðni næstu mánuði og mælist 9,5% í maí, 8,8% í júní og 7,8% í júlí.
- Hagstofan birti talnaefni um skráðar gistinætur í mars. Alls voru þær 640 þúsund, sem er mesti fjöldi sem mælst hefur hér á landi í marsmánuði. Um fjórar af hverjum fimm gistinóttum voru vegna erlendra ferðamanna.
- Landsmönnum fjölgaði um 3 þúsund á fyrsta ársfjórðungi og töldum við 390 þúsund í lok fjórðungsins, samkvæmt tölum Hagstofunnar.
- Eik, Síminn, Hagar (fjárfestakynning), Icelandair (fjárfestakynning) og Play birtu uppgjör.
- Við birtum Hagsjá um íbúðaverð og Hagdeild HMS birti mánaðarskýrslu um íbúðamarkaðinn.
- Reykjavíkurborg birti ársreikning fyrir 2022.
- Af skuldabréfamarkaði var það helst að frétta að Alma íbúðafélag seldi víxla, Reitir gáfu út skuldabréf, Lánamál ríkisins héldu útboð ríkisvíxla og útboð ríkisbréfa.