Vikubyrjun 12. desember 2022
Vikan framundan
- Í dag birtir Ferðamálastofa tölur yfir brottfarir um Leifsstöð í nóvember.
- Á þriðjudag birtir Vinnumálastofnun skráð atvinnuleysi. Sama dag koma verðbólgutölur frá Bandaríkjunum.
- Á miðvikudag tilkynnir bandaríski seðlabankinn um vaxtaákvörðun.
- Á fimmtudag birtir Seðlabanki Íslands kortaveltutölur fyrir nóvember. Þann dag tilkynna bæði Seðlabanki Evrópu og Englandsbanki um vaxtaákvörðun.
Mynd vikunnar
Netverslun hér á landi er að jafnaði langmest í nóvember, enda eru þá stórir netútsöludagar eins og stakdagur (e. singles’ day) og stafrænn mánudagur (e. cyber-Monday). Núna í nóvember var velta í netverslun 6,2 ma. kr., sem samsvarar um 13% af allri veltu innlendra greiðslukorta í verslunum þann mánuðinn og var um það bil tvisvar sinnum meiri en að meðaltali hina 11 mánuði ársins. Þrátt fyrir mikla veltu og vöxt miðað við aðra mánuði ársins mældist netverslun 7% minni að raunvirði í nóvember í ár en í nóvember í fyrra. Hápunktur netverslunar var í nóvember 2020, þegar samkomutakmarkanir voru í gildi vegna faraldursins. Þá nam hún samtals 8,4 mö. kr. miðað við núverandi verðlag.
Helsta frá vikunni sem leið
- Seðlabankinn birti fundargerð peningastefnunefndar vegna vaxtaákvörðunar í lok nóvember. Nefndin ræddi bæði að halda vöxtum óbreyttum og að hækka þá um 0,25 eða 0,5 prósentustig. Allir nefndarmenn studdu tillögu seðlabankastjóra um að hækka vexti um 0,25 prósentustig, en einn nefndarmaður lét bóka að hann hefði þó fremur kosið að hækka vexti um 0,5 prósentustig. Seðlabankinn birti einnig yfirlýsingu fjármálastöðugleikanefndar.
- Samkvæmt bráðabirgðatölum var 42 ma. kr. halli á vöruviðskiptum við útlönd í nóvember. Þetta kemur í kjölfar 58 ma. kr. halla í október og er hallinn þessa tvo mánuði því um 100 ma. kr. Þar með er alveg útséð um að það verði afgangur af viðskiptum við útlönd í ár: Verulegur halli mældist í viðskiptum við útlönd á fyrstu níu mánuðum ársins og litlar sem engar líkur eru á að afgangurinn af þjónustuviðskiptum á fjórða ársfjórðungi nái að vinna upp þann halla á vöruviðskiptum sem kominn er á 4. ársfjórðungi.
- Rannsóknasetur verslunarinnar birti samantekt á kortaveltu í verslun fyrir nóvembermánuð.
- Á skuldabréfamarkaði seldu Kvika banki, Reykjavíkurborg og Alma íbúðafélag skuldabréf í síðustu viku. Lánamál ríkisins birti Markaðsupplýsingar.
- Af hlutabréfamarkaði var það helst að frétta í síðustu viku að hlutabréf í Alvotech voru tekin til viðskipta á Aðalmarkaði Nasdaq á Íslandi og Origo lækkaði hlutafé félagsins með greiðslu til hluthafa, einkum vegna sölu félagsins á eignarhluta þess í Tempo fyrr á árinu. Icelandair og Play birtu flutningstölur fyrir nóvember.
- Að lokum minnum við á hlaðvarpsþátt sem við tókum upp í vikunni þar sem við ræddum nýútkomna greiningu á stöðu verslunar og þjónustu á Íslandi..