Vikan framundan
- Seinna í dag birtir Vinnumálastofnun tölur um skráð atvinnuleysi.
- Á fimmtudag birtir Seðlabankinn tölur um veltu greiðslukorta.
- Í vikunni fara fram verðmælingar vegna októbermælingar vísitölu neysluverðs, en Hagstofan birtir hana fimmtudaginn 27. október.
Mynd vikunnar
Væntingar um mikla verðbólgu í framtíðinni eiga það til að verða að veruleika. Það er því mikilvægt að ná verðbólguvæntingum niður ef hemja á verðbólguna. Í síðustu könnunum á verðbólguvæntingum fyrirtækja og heimila, sem fóru fram í ágúst og september, lækkuðu verðbólguvæntingar fyrirtækja til eins árs en væntingar annarra stóðu í stað. Þetta eru vísbendingar um að væntingar séu á niðurleið. Næstu kannanir fara fram í nóvember og desember og verður áhugavert að sjá hvort náist að hnika væntingum niður. Að öðrum kosti mun Seðlabankinn þurfa að halda vöxtum hærri en ella.
Helsta frá vikunni sem leið
- Peningastefnunefnd ákvað að hækka vexti um 0,25 prósentustig. Þetta var minni hækkun en við áttum von á, en við höfðum spáð 0,50 prósentustiga hækkun. Tónninn í yfirlýsingu nefndarinnar breyttist verulega milli vaxtaákvarðana, en í stað þess að taka fram að herða þurfi taumhald peningastefnunnar enn frekar eins og í fyrri yfirlýsingum telur nefndin nú að framvindan ráðist af þróun efnahagsumsvifa, verðbólgu og verðbólguvæntinga og að ákvarðanir í atvinnulífi, á vinnumarkaði og í ríkisfjármálum skipti þar miklu máli. Hagfræðideild Landsbankans tók upp hlaðvarp um ákvörðunina.
- Ferðamálastofa birti á föstudag talningu á fjölda brottfara um Leifsstöð , en samkvæmt birtingaráætlun áttu tölurnar að koma í dag. Alls fóru 177 þúsund erlendir farþegar um Leifsstöð í september. Þetta er aðeins minna en í september 2019, árið áður en heimsfaraldurinn skall á, en þá mældust brottfarir 184 þúsund. 60 þúsund Íslendingar fóru til útlanda í gegnum Leifsstöð, sem er mesti fjöldi í september frá upphafi mælinga.
- HMS birti greiningu á fjölda íbúða í byggingu. Samkvæmt HMS eru nú um 8.100 íbúðir í byggingu á landinu öllu. Stofnunin á von á að 3.100 íbúðir verði tilbúnar í ár og 3.200 á næsta ári. Þetta er mjög svipað og í fyrra, en nokkru minna en 2020 þegar 3.800 íbúðir urðu tilbúnar.
Icelandair og Play birtu flutningstölur fyrir september. - Tvö skuldabréfaútboð voru haldin í síðustu viku: Íslandsbanki seldi víkjandi skuldabréf sem teljast til eiginfjárþáttar 2 og Lánamál ríkisins luku útboði ríkisbréfa. Origo seldi hlut sinn í Tempo.