Verðbólgan töluvert meiri en spár gerðu ráð fyrir
Vísitala neysluverðs hækkaði um 1,17% milli júní og júlí samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofunnar. Ársverðbólgan hækkaði úr 8,8% í 9,9%. Verðbólgan hefur ekki mælst hærri síðan í september 2009. Í verðbólguspánni sem við birtum í verðkönnunarvikunni spáðum við því að vísitalan myndi hækka um 0,5% milli mánaða. Stuttu seinna birti Þjóðskrá vísitölu íbúðaverðs sem hækkaði nokkuð meira milli mánaða en við áttum von á. Við hækkuðum því verðbólguspána í 0,6% milli mánaða vegna hærra húsnæðisverðs. Það sem við sáum hins vegar ekki fyrir var verulegar hækkanir á verði flugfargjalda til útlanda sem skýrir muninn á spánni okkar og rauntölum.
Flugfargjöld til útlanda hækkuðu um 38% milli mánaða en við höfðum spáð 8,3%. Fram kemur í frétt Hagstofunnar að villa var í júnímælingunni, mæling hefði með réttu átt að sýna að flugfargjöld hækkuðu um 20,4% milli mánaða í júní en ekki 4,4% líkt og Hagstofan birti fyrir mánuði síðan. Raunveruleg hækkun á flugfargjöldum til útlanda í júlí var því 19,9%, en mæld hækkun er 38% vegna villunnar í júní. Samkvæmt útreikningum okkar hefði verðbólgan í júní átt að vera 9,1% í stað 8,8% hefði ekki komið til þessarar villu.