Verðbólgan í nóvember í samræmi við væntingar – óbreyttar horfur næstu mánuði
Mest áhrif til hækkunar milli mánaða höfðu reiknuð húsaleiga (+1,0% milli mánaða, 0,20% áhrif) og matur og drykkjarvörur (+0,8% milli mánaða, +0,11% áhrif). Mest áhrif til lækkunar höfðu flugfargjöld til útlanda (-8,9% milli mánaða, -0,17% áhrif).
Flestir undirliðir hreyfðust svipað og við áttum von á milli mánaða. Reiknuð húsaleiga hækkaði um 1,0%, þar af hækkaði markaðsverð húsnæðis um 0,8% og framlag vaxtabreytinga var 0,3%. Þetta var mjög nálægt okkar spá, en við spáðum 0,9% hækkun. Flugfargjöld til útlanda lækkuðu um 8,9% milli mánaða, en við spáðum 9,2% lækkun. Bensín hækkaði um 0,9%, eins og við spáðum. Það var þó tvennt sem kom á óvart: Matur og drykkjarvörur hækkuðu meira en við áttum von á, eða 0,8% í stað 0,4% og húsgögn og heimilisbúnaður lækkuðu óvænt um 0,6% milli mánaða en við áttum von á 0,8% hækkun. Innan matarkörfunnar hækkuðu olía og feitmeti og brauð og kornvörur mest milli mánaða, en grænmeti lækkaði.
Óveruleg breyting á samsetningu verðbólgunnar
Það varð smávægileg breyting á samsetningu verðbólgunnar milli mánaða. Mest áberandi er hækkun á innlendum vörum, en framlag þeirra til ársbreytinga jókst um 0,1 prósentustig, úr 1,5 prósentustigum í 1,6 prósentustig. Framlag þjónustu lækkaði um 0,1 prósentustig, úr 2,0 prósentustigum í 1,9 prósentustig. Árshækkun allra fjögurra kjarnavísitalnanna minnkaði jafnmikið og árshækkun vísitölunnar í heild, eða um 0,1 prósentustig milli mánaða.
Það sem veldur meiri áhyggjum er að undirliðum sem hafa hækkað minna en verðbólgumarkmið (2,5%) á síðustu 12 mánuðum heldur áfram að hækka. Núna hafa einungis 20% undirliða hækkað minna en 2,5% og hefur þetta hlutfall farið nokkuð jafnt lækkandi síðan í desember í fyrra, þegar 57% undirliða höfðu hækkað minna en 2,5% á ársgrundvelli. Nú hafa um 40% undirliða hækkað um meira en 5%, þar af 22% um meira en 10%. Í desember 2021 höfðu aðeins 22% undirliða hækkað um meira en 5%, þar af höfðu 5% hækkað um meira en 10%
Óbreyttar horfur til næstu þriggja mánaða
Krónan hefur styrkst aðeins síðan við birtum síðast verðbólguspá í verðkönnunarvikunni (17. nóvember) og hafa verðbólguhorfur því aðeins batnað. Munurinn er þó það lítill að skammtímaspá okkar til næstu þriggja mánaða helst óbreytt frá því um miðjan nóvember. Við eigum enn von á að verðbólgan hækki tímabundið upp í 9,5% í desember en lækki svo niður í 8,8% í janúar og fari niður í 8,4% í febrúar.