Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,58% á milli mánaða í maí, samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofunnar. Ársverðbólgan hækkar því úr 6,0% í 6,2%. Við spáðum 0,38% hækkun vísitölunnar á milli mánaða og þar með óbreyttri verðbólgu. Líkt og vanalega hafði reiknuð húsaleiga mest áhrif á vísitöluna til hækkunar, en liðurinn hækkaði þó minna en við höfðum spáð. Á móti lækkaði verð á flugfargjöldum til útlanda minna en í okkar spá.
Heilt yfir voru verðhækkanir á nokkuð breiðum grunni í maí, þar sem margir undirliðir hækkuðu lítillega á milli mánaða.
Margir liðir hækka, en lítið
- Reiknuð húsaleiga hækkaði um 0,7% (0,14% áhrif). Þetta var minni hækkun en við bjuggumst við en við spáðum 1,1% hækkun (0,22% áhrif). Mestu munar um að markaðsverð húsnæðis hækkaði mun minna en við spáðum, eða um 0,1% í stað 0,6%. Reiknuð húsaleiga hækkaði líka minna en vísitala íbúðaverðs, sem HMS mælir, sem hækkaði um 0,8% á milli mánaða. Verð á fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 0,5%, sérbýli á höfuðborgarsvæðinu um 0,7% og húsnæði utan höfuðborgarsvæðisins lækkaði um 1%, samkvæmt mælingum Hagstofunnar.
- Verð á mat og drykkjarvörum hækkaði um 0,4% (0,06% áhrif), sem er meira en við höfðum spáð.
- Flugfargjöld til útlanda lækkuðu um 1,1% (-0,02% áhrif), sem er nokkuð minni lækkun en við höfðum spáð. Það er nú um 6% ódýrara að fljúga til útlanda en í maí í fyrra, en hefur verið um 10% ódýrara það sem af er ári.
- Nokkrir minni liðir hækkuðu einnig í þessum mánuði. Liðurinn húsgögn og heimilisbúnaður hækkaði um 1,1% (+0,06% áhrif á vísitöluna), húsnæði án reiknaðrar húsaleigu hækkaði um 0,5% (+0,05% áhrif á vísitöluna), póstur og sími hækkaði um 2,3% (+0,04% áhrif á vísitöluna), tómstundir og menning hækkaði um 0,4% (+0,04% áhrif á vísitöluna), hótel og veitingastaðir hækkaði um 0,7% (+0,04% áhrif á vísitöluna) og ferðir og flutningar án flugfargjalda hækkaði um 1% (+0,04% áhrif á vísitöluna).
Framlag húsnæðis til ársverðbólgu lækkar lítillega á milli mánaða, úr 3 í 2,9 prósentustig. Framlag innfluttra vara hækkar nokkuð, eða úr 0,5 í 0,7 prósentustig, framlag þjónustu hækkar úr 1,9 í 2,0 prósentustig og framlag bensíns hækkar úr 0,0 prósentustigum í 0,1 prósentustig.
Spáum áfram verðbólgu í kringum 6% næstu mánuði
Við gerum áfram ráð fyrir því að verðbólga verði um 6% næstu mánuði. Við spáum því nú að vísitala neysluverðs hækki um 0,54% í júní, 0,08% í júlí og 0,35% í ágúst. Gangi spáin eftir lækkar verðbólga í 5,9% í júní og júlí og hækkar aftur í 6,0% í ágúst. Helsta breytingin frá síðustu spá er að við gerum ekki ráð fyrir að flugfargjöld hækki eins mikið í júní og júlí núna þar sem þau lækkuðu minna en við höfðum spáð í maí.