Velta í hagkerfinu eykst og tæknigreinar draga vagninn
Eftir nær viðvarandi samdrátt í veltu samkvæmt virðisaukaskattskýrslum síðustu mánuði jókst hún nú um 2,1% á milli ára að raunvirði á tímabilinu júlí-ágúst. Veltan tók verulega dýfu á covid-tímanum og rauk svo upp þegar hagkerfið náði sér á strik. Síðan um mitt ár 2023 hefur hún jafnan dregist lítillega saman á milli ára, þar til nú.
VSK-velta gefur almennt ágætis fyrirheit um þróun landsframleiðslu, þótt veltan sveiflist gjarnan meira en landsframleiðsla. Hagstofan birtir þjóðhagsreikninga fyrir þriðja ársfjórðung þessa árs í lok nóvember og ef marka má veltugögnin fyrir júlí og ágúst má jafnvel búast við lítils háttar hagvexti. Almennt ætti velta í hagkerfinu og fjöldi starfandi á íslenskum vinnumarkaði að fylgjast að, en starfandi fjölgaði um 1,8% á milli ára á tímabilinu júlí-ágúst.
Það sem af er ári hefur landsframleiðsla dregist saman um 1,9% og í nýlegri hagspá spáðum við 0,1% samdrætti á árinu og þar með lítils háttar hagvexti það sem eftir lifir árs.
Veltan eykst langmest í tækni- og hugverkaiðnaði
Á VSK-tímabilinu júlí-ágúst jókst velta í tækni- og hugverkaiðnaði mun meira en í flestum öðrum greinum, um 12,4% á milli ára. Aukningin er í takt við stöðugan vöxt í útflutningsverðmætum hugverkaiðnaðarins og spár um áframhaldandi kröftugan vöxt greinarinnar. Velta jókst næstmest í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð, um 8,5% og þar á eftir kom framleiðsla málma þar sem velta jókst um 6,3%. Velta í álframleiðslu jókst um 8,1%, en álverð er nokkuð hærra en á sama tíma í fyrra. Velta í álframleiðslu hefur þó dregist saman um 8,6% á árinu. Athygli vekur að velta í ferðaþjónustu dróst saman um 2,4% á milli ára á tímabilinu júlí og ágúst, jafnvel þótt ferðamönnum hafi fjölgað á tímabilinu og kortavelta þeirra aukist. Þá virðist velta í fiskeldi hafa dregist verulega saman á milli ára á tímabilinu, um 23,1%. Sem fyrr er þó varhugavert að lesa of mikið inn í einstaka tímabil og óvíst að þessi þróun gefi fyrirheit um árið í heild.
Stóraukin velta í tækni- og hugverkaiðnaði það sem af er ári skýrist ekki síst af aukinni veltu í meðal- og hátækniframleiðslu. Undir þann flokk fellur meðal annars framleiðsla á lyfjum og efnum til lyfjagerðar þar sem veltan nær sexfaldaðist á milli ára á tímabilinu júlí og ágúst. Þeirri margföldun þarf þó að taka með þeim fyrirvara að veltan á tímabilinu í fyrra var óvenju lítil. Ef litið er til lyfjaframleiðslu það sem af er ári hefur veltan verið 136,3% meiri en á sama tímabili í fyrra.
Fyrirvari
Innihald og form þessarar greiningar er unnið af starfsfólki Greiningardeildar Landsbankans hf. (greiningardeild@landsbankinn.is) og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem greiningin var unnin. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsfólks Greiningardeildar Landsbankans á þeim degi þegar greiningin er dagsett, en þær geta breyst án fyrirvara.Landsbankinn hf. og starfsfólk hans taka ekki ábyrgð á viðskiptum sem byggð eru á þeim upplýsingum og skoðunum sem hér eru settar fram, enda eru þær ekki veittar sem persónuleg ráðgjöf fyrir einstök viðskipti.
Bent skal á að Landsbankinn hf. getur á hverjum tíma haft beinna eða óbeinna hagsmuna að gæta, ýmist sjálfur, dótturfélög hans eða fyrir hönd viðskiptavina, s.s. sem fjárfestir, lánardrottinn eða þjónustuaðili. Greiningar eru engu að síður unnar sjálfstætt af Greiningardeild Landsbankans og innan Landsbankans eru í gildi reglur um aðskilnað starfssviða sem eru aðgengilegar á vef bankans.