Spenna á íbúðamarkaði
Vísitala íbúðaverðs hækkaði um 1,4% á milli mánaða í júní. Hækkunin er sú fimmta í röð, en vísitalan hækkaði um 1,9% í febrúar, 0,8% í mars og apríl og 1,4% í maí. Fasteignaverð á landsbyggðinni (+1,6% á milli mánaða) hækkaði aðeins meira en á höfuðborgarsvæðinu (+1,4% á milli mánaða) aðallega vegna mikillar hækkunar á fjölbýli, en fjölbýli á landsbyggðinni hækkaði um 2,3%. Þess má þó geta að verð á landsbyggðinni sveiflast mun meira á milli mánaða en á höfuðborgarsvæðinu vegna þess að það eru færri samningar undir.
Íbúðaverð hækkað um 9,1% á tólf mánuðum
Árshækkun vísitölu íbúðaverðs jókst úr 8,4% í 9,1% en svo mikil hefur hækkunin ekki verið síðan í febrúar 2023. Árshækkun vísitölunnar var minnst 0,7% í júlí í fyrra og hefur aukist statt og stöðugt síðan. Seinustu tólf mánuði hefur sérbýli á höfuðborgarsvæðinu hækkað mest (+12,1% á milli ára), en þar á eftir fjölbýli á landsbyggðinni (+11,3%), fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu (+8,2%) og sérbýli á landsbyggðinni (+5,7%).
Raunverð 4% hærra en á sama tíma í fyrra
Árshækkun raunverðs, þ.e. vísitala íbúðaverðs á móti vísitölu neysluverðs án húsnæðis, mælist 5,0% í júní og hækkaði úr 4,0% í maí. Árshækkun raunverðs hefur ekki verið meiri síðan í janúar 2023.
Kaupsamningum fjölgar á milli ára
Alls voru 1.182 undirritaðir kaupsamningar um íbúðarhúsnæði á landinu öllu í júní. Þetta er 45% aukning frá sama tíma árið áður og skýrist að einhverju leyti af uppkaupum á húsnæði í Grindavík. Sé Grindavík undanskilin mælist aukningin 36% á milli ára sem verður einnig að teljast nokkuð mikið. Landsmenn virðast því hafa mikinn áhuga á íbúðakaupum þessa stundina, þrátt fyrir hátt vaxtastig. Eftirspurnaraukningu má líklegast rekja til áhrifa vegna Grindavíkur, ásamt væntingum um vaxtalækkanir og þar með ódýrara lánsfé í framtíðinni.
Leiguverð hækkaði mun meira en íbúðaverð
Vísitala leiguverðs hækkaði um 2,5% á milli mánaða í júní og fór árshækkun hennar upp í 13%. Árshækkun leiguverðs er því nokkuð meiri en árshækkun íbúðaverðs. Síðustu 14 mánuði hefur hækkunartaktur leiguverðs verið nokkuð meiri en íbúðaverðs. Á meðan heimsfaraldurinn stóð yfir voru hækkanir á leigumarkaði aftur á móti mjög hófstilltar og mældist meiri að segja lækkun á milli ára í þrjá mánuði í byrjun árs 2021.
Til lengri tíma ættu leiguverð og íbúðaverð að fylgjast nokkurn veginn að. Frá upphafi árs 2020 hefur íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkað tæplega tvisvar sinnum meira en leiguverð og því hefur nokkuð stórt bil myndast. Það er því kannski ekkert óeðlilegt að leiguverð hækki núna meira en íbúðaverð.
Sjáum ekki ástæðu til að breyta verðbólguspá okkar
Nýlega skipti Hagstofan um aðferðafræði við að reikna kostnað við að búa í eigin húsnæði, svokallaða reiknaða húsaleigu. Nýja aðferðin byggir á upplýsingum um leiguverð í stað kaupverðs íbúða, líkt og gamla aðferðin. Það er þó munur á þeirri vísitölu leiguverðs sem HMS birtir og útreikningi Hagstofunnar á reiknaðri húsaleigu. Stærsti munurinn er að vísitala leiguverðs nær eingöngu til nýrra leigusamninga á höfuðborgarsvæðinu á síðustu tveimur mánuðum á meðan reiknuð húsaleiga byggir á öllum gildandi leigusamningum á landsvísu sem uppfylla ákveðin skilyrði. Samningarnir sem liggja að baki júnímælingu vísitölu leiguverðs eru því ekki nema brot af þeim samningum sem hafðir eru til grundvallar í útreikningi á júlímælingu vísitölu neysluverðs sem kemur í næstu viku. Það er því ólíklegt að þessi mikla hækkun á vísitölu leiguverðs skili sér inn í næstu verðbólgutölu nema að mjög litlu leyti. Við sjáum því ekki ástæðu til að breyta verðbólguspá okkar frá seinustu viku og gerum enn ráð fyrir að verðbólga aukist lítillega og verði 5,9% í júlí.
Fyrirvari
Innihald og form þessarar greiningar er unnið af starfsfólki Hagfræðideildar Landsbankans hf. (hagfraedideild@landsbankinn.is) og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem greiningin var unnin. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsfólks Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar greiningin er dagsett, en þær geta breyst án fyrirvara.Landsbankinn hf. og starfsfólk hans taka ekki ábyrgð á viðskiptum sem byggð eru á þeim upplýsingum og skoðunum sem hér eru settar fram, enda eru þær ekki veittar sem persónuleg ráðgjöf fyrir einstök viðskipti.
Bent skal á að Landsbankinn hf. getur á hverjum tíma haft beinna eða óbeinna hagsmuna að gæta, ýmist sjálfur, dótturfélög hans eða fyrir hönd viðskiptavina, s.s. sem fjárfestir, lánardrottinn eða þjónustuaðili. Greiningar eru engu að síður unnar sjálfstætt af Hagfræðideild Landsbankans og innan Landsbankans eru í gildi reglur um aðskilnað starfssviða sem eru aðgengilegar á vef bankans.