Í maí ákvað peningastefnunefnd Seðlabankans að taka fyrsta skrefið í hækkun stýrivaxta með hækkun um 0,25 prósentustig en stýrivextir höfðu verið óbreyttir í 0,75% frá því í nóvember á síðasta ári. Í fundargerð kom fram að allir nefndarmenn voru þeirrar skoðunar að nauðsynlegt væri að hækka vexti bankans til þess að viðhalda kjölfestu verðbólguvæntinga í verðbólgumarkmiðinu. Rætt var um hvort hækka ætti þá um 0,25 eða 0,5 prósentustig. Helstu rökin fyrir því að hækka vexti um 0,25 prósentustig voru þau að þótt innlend eftirspurn væri kröftugri en búist hefði verið við og efnahagshorfur hefðu batnað væri samt sem áður mikið atvinnuleysi og batinn brothættur. Því væri mikilvægt að taka varfærin skref.
Við teljum að vegna óvissu um efnahagsleg áhrif áframhaldandi sóttvarnaraðgerða vegna faraldursins, m.a. á ferðaþjónustugeirann, velji nefndin að halda stýrivöxtum óbreyttum a.m.k. fram í október.