Spáum 8,0% verðbólgu í nóvember
Við spáum því að vísitala neysluverðs hækki um 0,37% milli mánaða í nóvember. Gangi spáin eftir eykst verðbólga úr 7,9% og í 8,0%. Reiknuð húsaleiga, þ.e. kostnaður við að búa í eigin húsnæði, hækkar um 1,3% samkvæmt spánni og vegur mest til hækkunar á vísitölu neysluverðs. Verð á mat og drykkjarvörum hækkar einnig en verð á bensíni og flugfargjöldum til útlanda lækkar á milli mánaða.
Spáum því að reiknuð húsaleiga hækki
Síðustu tvo mánuði hefur vísitala markaðsverðs íbúðarhúsnæðis hækkað og var hækkunin í síðasta mánuði um 1,5% sem er nokkuð rífleg hækkun á flesta mælikvarða. Nokkrar ástæður geta verið fyrir hækkunum. Kaupsamningum hefur fækkað og þannig geta sveiflur í vísitölumælingum aukist. Eins og við höfum fjallað um teljum við að nýleg fjölgun hlutdeildarlána hafi mögulega haft áhrif til hækkunar á íbúðaverðsvísitölum. Hlutdeildarlánin ýta undir sölu á nýjum íbúðum, sem eru að jafnaði dýrari en eldri íbúðir af sömu stærð. Á næstu mánuðum ætti þó að koma betur í ljós hvort og hversu mikil áhrif úrræðið hefur á vísitölu íbúðaverðs.
Við gerum nú ráð fyrir að vísitala markaðsverðs íbúðarhúsnæðis, eins og Hagstofan reiknar hana, hækki um 0,6% milli mánaða. Vextir á verðtryggðum íbúðalánum voru hækkaðir hjá mörgum lánveitendum íbúðalána fyrr í mánuðinum og við gerum ráð fyrir að áhrif vaxtahlutans hækki og verði 0,7% í nóvember.
Matarkarfan hækkar í verði
Við spáum því að verð á mat og drykkjarvörum hækki um 0,8% milli mánaða í nóvember. Við teljum að áhrif á verð mjólkurafurða eftir ákvörðun verðlagsnefndar búvara um hækkun á heildsöluverði á mjólk hafi ekki komið að fullu fram í síðustu vísitölumælingu þar sem hún tók gildi í verðkönnunarvikunni í október og muni skýra hluta þeirrar hækkunar sem við spáum í nóvember.
Flugfargjöld til útlanda lækka og bensínverð líka
Við gerum ráð fyrir að flugfargjöld til útlanda lækki um 8,9% í nóvember, en flugfargjöld lækka alla jafna í nóvember áður en þau hækka svo aftur í desember. Samkvæmt verðathugun okkar kostar bensínlítrinn að meðaltali 315,6 krónur og lækkaði úr 318,4 krónum frá fyrri mánuði. Verð á díselolíu kostar að meðaltali 320,4 krónur nú og hækkaði úr 316,1 krónu frá fyrri mánuði. Samanlagt teljum við að lækkunin verði 0,4% á milli mánaða í nóvember.
Spá um nóvembermælingu VNV
Undirliður | Vægi í VNV | Breyting (spá) | Áhrif (spá) |
Matur og drykkjarvara | 15,0% | 0,8% | 0,12% |
Áfengi og tóbak | 2,4% | 0,0% | 0,00% |
Föt og skór | 3,9% | 0,6% | 0,02% |
Húsnæði án reiknaðrar húsaleigu | 9,7% | 0,3% | 0,03% |
- Reiknuð húsaleiga | 19,2% | 1,3% | 0,25% |
Húsgögn, heimilisbúnaður o.fl. | 6,3% | 0,5% | 0,03% |
Heilsa | 3,7% | 0,3% | 0,01% |
Ferðir og flutningar (annað) | 3,8% | 0,5% | 0,02% |
- Kaup ökutækja | 6,1% | 0,7% | 0,04% |
- Bensín og díselolía | 3,0% | -0,4% | -0,01% |
- Flugfargjöld til útlanda | 1,8% | -8,9% | -0,16% |
Póstur og sími | 1,6% | -0,3% | -0,01% |
Tómstundir og menning | 10,0% | 0,2% | 0,02% |
Menntun | 1,0% | -0,1% | 0,00% |
Hótel og veitingastaðir | 5,3% | 0,1% | 0,01% |
Aðrar vörur og þjónusta | 7,2% | 0,2% | 0,01% |
Alls | 100,0% | 0,37% |
Gerum ráð fyrir að verðbólga hækki lítillega út árið en lækki eftir áramót
Við gerum ráð fyrir að vísitala neysluverðs hækki um 0,37% í nóvember, 0,8% í desember, 0,02% í janúar á næsta ári og 0,89% í febrúar. Gangi spá okkar eftir verður verðbólga 8,0% í nóvember og 8,1% í desember. Eftir áramót lækkar verðbólga og verður 7,3% í janúar og 6,7% í febrúar. Mánaðarbreytingar á vísitölu neysluverðs voru töluverðar í janúar og febrúar í ár. Þessar mælingar detta út úr ársverðbólgunni í janúar og febrúar á næsta ári og er það ekki síst þess vegna sem við spáum hraðri hjöðnun verðbólgu í byrjun árs.
Síðustu mánuði hefur skammtímaspáin okkar hækkað í hvert sinn sem við gefum út nýja spá. Það sem helst skýrir þetta er að við höfum vanspáð íbúðaverði síðustu mánuði. Við teljum nú að íbúðaverð hækki lítillega næstu mánuði, en í síðustu spá töldum við að litlar breytingar yrðu á húsnæðisverði næstu mánuði. Nýlegar hækkanir á vöxtum verðtryggðra lána ýta spánni einnig upp. Í janúar gerum við ráð fyrir hækkun á verði nýrraökutækja vegna breytinga á stuðningi ríkisins við kaup á rafmagnsbílum. Einnig tekur Hagstofan inn hækkun á lóðamati í reiknaða húsaleigu í janúar sem ýtir spánni upp. Þá hefur nýleg veiking á gengi krónunnar einnig nokkur áhrif á spána næstu mánuði.