Spáum 0,75 prósentustiga hækkun stýrivaxta í júní
Þegar við birtum þjóðhagsspána okkar í maí töldum við líklegast að stýrivextir yrði hækkaðir um 0,5 prósentustig í júní. Þróunin síðan gerir það að verkum að við teljum núna líklegt að nefndin taki stærri skref. Verðbólguhorfur hafa versnað, gögn um innlenda kortaveltu sýna að eftirspurnarþrýstingur er mikill og tölur hafa birst sem sýndu mikinn hagvöxt á fyrsta ársfjórðungi.
Við teljum líklegt að nefndin muni ræða 0,5-1,0 prósentustiga hækkun vaxta, en á síðasta fundi var rætt um 0,75-1,0 prósentustiga hækkun. Nefndin var þá einróma í þeirri ákvörðun að hækka vextina um 1,0 prósentustig og gaf jafnframt til kynna að vextir yrðu einnig hækkaðir næst. Að þessu sinni teljum við líklegast að hækkun um 0,75 prósentustig verði niðurstaðan, sem er vissulega stórt skref þó það sé ekki jafn stórt og síðast.