Netverslun og kaup á þjónustu áberandi í nóvember
Líkt og Hagfræðideild greindi frá mældist kortavelta Íslendinga mjög sterk í nóvember og jókst samanlagt um 20% milli ára, 10% innanlands og 95% erlendis miðað við fast verðlag og fast gengi. Rannsóknarsetur verslunarinnar (RSV) birti gögn um kortanotkun Íslendinga innanlands þar sem í ljós kemur að vöxturinn var fyrst og fremst drifinn af auknum kaupum á þjónustu fremur en vörum. Það skýrist af því að ýmis þjónusta sem var ófáanleg eða óaðgengileg í fyrra vegna faraldursins er nú aðgengileg á ný, þó með takmörkunum.
Af einstaka útgjaldaliðum mældist aukningin mest í kaupum á þjónustu ferðaskrifstofa en kortavelta Íslendinga þar jókst um 640% milli ára í nóvember. Kaup á gistiþjónustu og þjónustu menningar- og tómstundarstarfsemi ríflega tvöfaldaðist milli ára, enda var lítið um tónleika- og veisluhald vegna faraldursins á þessum árstíma í fyrra. Kaup á þjónustu veitingastaða jukust um tæp 50% milli ára miðað við fast verðlag og námu alls 5,3 mö.kr. í nóvember.
Almennt virðist kortavelta innanlands vera að færast í átt að hefðbundnum nóvembermánuði, nema hvað netverslun mælist enn mjög sterk. Netverslun er nú mun sterkari en fyrir faraldurinn og eflaust er um að ræða þróun sem er komin til að vera. Netverslun í nóvember nam alls 6,2 mö.kr., og þó hún hafi dregist saman um 21% milli ára að raunvirði, jókst hún um 255% sé miðað við nóvembermánuð 2019.
13% af heildarkortaveltu Íslendinga í verslunum innanlands fór fram í gegnum netið í nóvember, en til samanburðar var hlutfallið að jafnaði 6% á fyrri mánuðum árs. Fjölmargar verslanir bjóða upp á sérkjör á sérstökum afsláttardögum í nóvember í netverslunum sem skýrir mikla aukningu í mánuðinum. Aðstæður voru þó betri í ár en í fyrra til þess að heimsækja verslanir og var hlutfall netverslunar því ekki jafn hátt í ár og í fyrra.