Mikil hækkun íbúðaverðs, bið eftir áhrifum af aðgerðum Seðlabankans
Samkvæmt nýbirtum tölum Þjóðskrár Íslands hækkaði íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu að meðaltali um 1,4% milli september og október, sem er örlítið meiri hækkun en sást í síðustu mælingu, þegar íbúðaverð hækkaði um 1,2% milli ágúst og september. Vegin árshækkun mælist nú 17,1% og hækkar um 0,5 prósentustig frá fyrri mánuði.
Fjölbýli hækkaði um 1,6% milli mánaða og sérbýli um 0,5%. Árshækkun sérbýlis mælist nú 21% og fjölbýlis 15,8%. Hækkunin milli mánaða á sérbýli er óvenjulítil en frá því í mars hefur sérbýli að jafnaði hækkað um rúm 2% milli mánaða. Hækkunin á fjölbýli er hins vegar sú mesta milli mánaða síðan í apríl á þessu ári og eykst um 0,4 prósentustig frá fyrri mánuði.
Það virðist fátt benda til þess að íbúðamarkaðurinn sé farinn að kólna á þessari stundu en Seðlabankinn hefur gripið til fjölmargra aðgerða, síðast í morgunn með 0,5 prósentustiga hækkun stýrivaxta. Enn sem komið er virðast aðgerðirnar ekki hafa haft veruleg áhrif á verðþróunina.
Kaupmáttarþróun launa hefur ekki haldið í við raunverðsþróun íbúða sem er vísbending um að kaupendahópurinn sem hefur efni á dýrari íbúðum fari minnkandi. Lægri íbúðalánavextir vega þó á móti og hafa gert það að verkum að greiðslubyrði húsnæðislána hefur lækkað. Sú staða á þó eftir að breytast eftir því sem vextir Seðlabankans hækka. Það er mat okkar að ró muni færast yfir íbúðamarkaðinn á næsta ári þegar aðgerðir Seðlabankans eru farnar að hafa meiri áhrif til þess að stemma stigu við eftirspurnaraukningunni.
Lesa Hagsjána í heild
Hagsjá: Mikil hækkun íbúðaverðs, bið eftir áhrifum af aðgerðum Seðlabankans