Mesti halli á vöru- og þjónustuviðskiptum í 13 ár
Þetta er mesti halli af vöru- og þjónustuviðskiptum á einum ársfjórðungi síðan á fyrsta ársfjórðungi 2008. Aukinn halli á vöru- og þjónustuviðskiptum borið saman við sama tímabil í fyrra skýrist fyrst og fremst af samdrætti í þjónustuútflutningi en einnig af auknum vöruinnflutningi. Þjónustuútflutningur nam 58,7 mö.kr. og dróst saman um 54,5 ma.kr. eða 48,2%. Vöruútflutningur nam 165 mö.kr. og jókst um 13,9 ma.kr. eða 9,2%. Þjónustuinnflutningur nam 69,6 mö.kr. og dróst saman um 21,2 ma.kr. eða 23,3%. Vöruinnflutningur nam 186,8 mö.kr. og jókst um 12,5 ma.kr. eða 7,1%. Allar breytingar í inn- og útflutningi á fjórðungnum, borið saman við sama fjórðung í fyrra, litast af breytingu í gengi krónunnar en krónan var 7,3% veikari á fjórðungnum en á sama fjórðungi í fyrra.