Á sama tíma og íbúðaverð tók að hækka í kjölfar vaxtalækkana á seinni hluta nýliðins árs hefur leiguverð á höfuðborgarsvæðinu að jafnaði staðið í stað. Frá janúar og fram í maí mældist lækkun milli mánaða samkvæmt nýþinglýstum leigusamningum. Síðan tók við lítilsháttar hækkun milli mánaða fram að október þegar verðið lækkaði. Það mældist 0,7% hækkun á leiguverði milli mánaða í nóvember. Tölur desembermánaðar liggja ekki enn fyrir, en við teljum ólíklegt að verðið hafi breyst mikið frá fyrri mánuðum.
Þegar litið er til 12 mánaða hækkunar sést að frá því í mars hefur hækkun íbúðaverðs mælst ofar sambærilegum hækkunum á leiguverði og hefur munurinn aukist. Í nóvember mældist árshækkun leiguverðs 1,4% en hækkun íbúðaverðs í fjölbýli 7,0%. Það má því segja að leigumarkaðurinn hafi almennt verið talsvert rólegri en íbúðamarkaðurinn á nýliðnu ári, sér í lagi frá því að Covid-19-faraldurinn hófst.
Veirufaraldurinn hefur haft tvíþætt áhrif á leigumarkaðinn í það minnsta. Fyrir það fyrsta hafa vextir lækkað sem viðbragð við þeirri kreppu sem faraldurinn orsakaði. Það hefur auðveldað fasteignakaup og þar með hugsanlega dregið úr eftirspurn eftir húsnæði til leigu. Faraldurinn hefur einnig gert það að verkum að ferðamönnum fækkaði verulega og mikill fjöldi Airbnb íbúða fékk annars konar notkun. Einhverjar íbúðir hafa eflaust ratað í almenna leigu með þeim afleiðingum að framboð leiguhúsnæðis hefur aukist. Þetta tvennt, aukið framboð og minni eftirspurn, sem hvoru tveggja má rekja til faraldursins, hefur verulega dregið úr verðþrýstingi á leigumarkaði.
Lesa Hagsjána í heild
Hagsjá: Leigumarkaður tekur breytingum á tímum veirufaraldurs