Síðustu 8 ár, frá 2015 til 2022, hefur launavísitalan hækkað að meðaltali um 7,5% milli ára, litið til breytinga milli ársmeðaltala. Hækkunin í fyrra og hittiðfyrra var 8,3% bæði árin. Þetta eru mun meiri launabreytingar en í nálægum löndum og valda auðvitað miklu álagi á hagkerfið.
Sé litið á þróunina frá 1. ársfjórðungi 2019 til 2. ársfjórðungs 2022 hækkuðu heildarlaun um 24% hér á landi, sem er meira en þreföld hækkun miðað við þrjú Norðurlandanna.
Kaupmáttur nokkuð mikill og stöðugur þrátt fyrir mikla verðbólgu
Verðbólga í janúar 2023 mældist 9,9% en árshækkun launavísitölunnar 8,6%. Kaupmáttur launa minnkaði því um 1,2% milli janúarmánaða 2022 og 2023. Kaupmáttur er því áfram nokkuð mikill í sögulegu samhengi. Kaupmáttarvísitalan tók stökk upp á við í janúar 2022 og náði þá sögulegu hámarki en fór svo minnkandi eftir því sem leið á árið.
Síðustu 8 ár, frá 2015 til 2022 hefur launavísitalan hækkað að meðaltali um 7,5% milli ára og kaupmáttur aukist að meðaltali um 4,1% á ári. Kaupmáttur var óbreyttur milli 2021 og 2022. Það hefur ekki gerst í meira en áratug að kaupmáttur aukist ekki milli ára. Samhengi launabreytinga og kaupmáttar er mismunandi milli ára. Þannig gaf 6,3% launahækkun 2020 3,4% kaupmáttaraukningu. 8,3% launahækkun 2022 gaf aftur á móti enga kaupmáttaraukningu.
Launaþróun jafnari milli markaða
Á milli nóvembermánaða 2021 og 2022 hækkuðu laun á almenna markaðnum um 8,2% og um 7,7% á þeim opinbera, þar af 6,8% hjá ríkinu og 8,8% hjá sveitarfélögunum.
Óvenju mikið bil hefur myndast á síðustu misserum á milli launaþróunar á opinbera og almenna markaðnum og virðist það ekki fara minnkandi. Sé miðað við upphaf ársins 2015 hafa laun hækkað um rúmlega 4% meira á opinbera markaðnum en þeim almenna.
Mismunandi þróun launa innan atvinnugreina
Milli nóvembermánaða 2021 og 2022 hækkuðu laun áberandi mest í veitinga- og gististarfsemi, eða um 10,7%. Á hinum endanum er fjármála- og vátryggingarstarfsemi með 5,5% hækkun. Á þessu tímabili hækkaði launavísitalan fyrir allan vinnumarkaðinn um 8,0%. Á þessum tölum má glöggt sjá áhrif krónutöluhækkana á launaþróun. Meðaltekjur eru almennt lágar í veitinga- og gististarfsemi og því hækka laun hlutfallslega mikið. Tekjur eru háar í fjármála- og vátryggingarstarfsemi og þar hækka laun því hlutfallslega mun minna.