Kortavelta innanlands dróst saman um 7,2% í apríl
Greiðslukortavelta heimilanna nam 97 mö. kr. í apríl og var 5% minni en í apríl í fyrra, á föstu verðlagi. Innanlands dróst kortavelta íslenskra heimila saman um 7,2% að raunvirði í apríl en erlendis jókst hún um 5%.
Þetta er í fyrsta sinn í rúmlega tvö ár sem heildarkortavelta Íslendinga (innanlands og erlendis) dregst saman milli ára, þegar veltan í einum mánuði er borin saman við veltuna í sama mánuði árið áður. Kortaveltan jókst hröðum skrefum eftir því sem hagkerfið komst aftur á flug eftir faraldurinn en með tímanum hægði mjög á aukningunni, eins og við var að búast. Upp á síðkastið hefur stöku mánuði dregið úr kortaveltunni innanlands en kortaveltan erlendis hefur, þar til nú, aukist nægilega mikið til að jafna út samdráttinn innanlands.
Íslendingar á ferðalögum eyða sífellt meiru
78% af kortaveltu heimilanna í apríl var á Íslandi og 22% erlendis, sem er svipað og verið hefur á síðustu mánuðum. Hlutfallið erlendis er þó áfram nokkuð hærra en vaninn var fyrir faraldur.
Í apríl var framlag kortaveltu innanlands til lækkunar (-5,8%) á heildarkortaveltunni og framlagið erlendis til hækkunar (+1%), en þannig hefur það gjarnan verið eftir faraldurinn.
Utanlandsferðum Íslendinga fækkaði um 3% milli ára í aprílmánuði á meðan kortavelta erlendis jókst um 5%, á föstu gengi. Sú þróun heldur því áfram að hver Íslendingur á ferðalagi eyði að jafnaði meiri pening en áður.
Kortaveltuhallinn jókst í apríl
Halli á greiðslukortajöfnuði jókst örlítið á milli mánaða. Kortaveltuhalli þýðir að Íslendingar (heimili og fyrirtæki) eyði meiri pening erlendis en erlendir ferðamenn eyða hér á landi. Hallinn nam rúmum milljarði í mars en um 2,3 milljörðum í apríl.
Alls nam úttekt erlendra debet- og kreditkorta 22 mö. kr. í apríl en íslensk kortavelta (heimila og fyrirtækja) erlendis var samtals 24,3 ma. kr.
Hugsanleg merki um að tekið sé að hægja á einkaneyslu
Kortaveltan á fyrsta fjórðungi þessa árs var kröftugri en við höfðum búist við og heildarkortaveltan jókst í janúar, febrúar og mars. Þar hljóta launahækkanir að hafa spilað stórt hlutverk og trompað áhrif vaxtahækkana sem að öðru óbreyttu ættu að draga úr neyslugetu almennings. Þótt vissulega beri að varast að lesa of mikið í tölur fyrir einn mánuð má vera að kortaveltutölurnar fyrir aprílmánuð séu vísbending um að lítillega sé tekið að hægja á einkaneyslunni.