Kortavelta innanlands dróst saman um 10,5% í maí
Alls nam greiðslukortavelta heimila 105 mö. kr. í maí og var 7,6% minni en í maí í fyrra, á föstu verðlagi. Innanlands dróst kortavelta íslenskra heimila saman um 10,5% að raunvirði í maí en erlendis jókst hún um 4,5%. Heildarkortavelta Íslendinga (innanlands og erlendis) hefur nú dregist saman tvo mánuði í röð og þrjá mánuði í röð hefur kortavelta Íslendinga innanlands dregist saman.
Frekari merki um tempraða innlenda eftirspurn
Kortaveltan á fyrsta fjórðungi þessa árs var kröftugri en við höfðum búist við og heildarkortaveltan jókst í janúar, febrúar og mars. Við fjölluðum um að útlit væri fyrir að launahækkanir, og hugsanlega uppsafnaður sparnaður eftir faraldurinn, virtust trompa áhrif vaxtahækkana. Einkaneysla jókst um tæp 5% milli ára á fyrsta ársfjórðungi og nefna má að í síðustu fundargerð peningastefnunefndar Seðlabankans kemur fram að nefndin hafi rætt að „þótt árangur peningastefnunnar væri orðinn greinilegur á húsnæðismarkaði væru fáar aðrar skýrar vísbendingar um viðsnúning“.
Það sem af er öðrum ársfjórðungi hefur kortaveltan hins vegar dregist saman og hugsanlegt að áhrif vaxtahækkana séu farin að segja til sín á eftirspurnarhliðinni. Þá kann að vera að fólk geti ekki mikið lengur gengið á sparnað sem safnaðist yfir covid-mánuðina. Einnig ber að hafa í huga að kaupmáttur hefur nú staðið nokkurn veginn í stað síðustu 12 mánuði eftir 12 ára samfellda aukningu þar á undan. Þó er ekki útilokað að eftirspurnin aukist aftur yfir sumarmánuðina.
Hlutfall innanlands og erlendis stöðugt
78% af kortaveltu heimilanna í maí var á Íslandi og 22% erlendis, sem er svipað og verið hefur á síðustu mánuðum. Hlutfallið erlendis er þó áfram nokkuð hærra en vaninn var fyrir faraldur.
Í maí var framlag kortaveltu innanlands til lækkunar (-8%) á heildarkortaveltunni og framlagið erlendis til hækkunar (+1%), en þannig hefur það gjarnan verið eftir faraldurinn.
Kortajöfnuður snýst við – afgangur í maí
Um 644 milljóna afgangur var á greiðslukortajöfnuði í maí. Alls nam úttekt erlendra debet- og kreditkorta 26,9 mö. kr. í maí á meðan íslensk kortavelta (heimila og fyrirtækja) erlendis var samtals 26,3 ma. kr. Afgangur af kortaveltujöfnuði þýðir að Íslendingar (heimili og fyrirtæki) eyði minni pening erlendis en erlendir ferðamenn eyða hér á landi. Jöfnuður var neikvæður um rúman milljarð í mars en um 2,3 milljarða í apríl. Þetta kann að þýða að tekið sé að hægja hraðar á neyslu Íslendinga erlendis en neyslu erlendra ferðamanna hér, sem ætti að óbreyttu að hafa áhrif til hækkunar á greiðslujöfnuði og skapa þrýsting til styrkingar á krónunni.