Íbúðaverð lækkar þriðja mánuðinn í röð
Íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu lækkaði um 0,5% milli desember og janúar, samkvæmt gögnum sem Húsnæðis- og mannvirkjastofnun birti síðdegis í gær. Þetta er þriðji mánuðurinn í röð sem vísitalan lækkar milli mánaða, en svo löng samfelld lækkun hefur ekki sést síðan við lok árs 2009. Þá voru lækkanir milli mánaða þó nokkuð meiri en nú sést. Engu að síður bendir þessi mæling og þróun síðustu mánaða til þess að markaðurinn sé farinn að sýna umtalsverð merki kólnunar. Það mun gera sitt til við að ná verðbólgu niður líkt og aðgerðir Seðlabankans, sem nú virðast vera að skila nokkrum árangri, hafa miðast að því að gera.
Sérbýli lækkar hraðar en fjölbýli
Vísitala íbúðaverðs byggir á þriggja mánaða hlaupandi meðaltali, annars vegar um verðþróun á fjölbýli og hins vegar á sérbýli. Sérbýli lækkaði um 0,74% milli mánaða í janúar en fjölbýli um 0,4%. Síðustu þrjá mánuði hefur sérbýli lækkað um 4% og síðustu 6 mánuði um 2,5%. Ekki má greina jafn snögga kólnun á fjölbýli sem hefur lækkað um alls 0,7% síðustu þrjá mánuði og hækkað um 0,2% sé litið til síðustu 6 mánaða. Sérbýli hækkaði hraðar en fjölbýli þegar mestu hækkanirnar voru í fyrra og árið á undan og virðist að sama skapi einnig lækka hraðar nú.
Árshækkun vísitölunnar mælist nú 14,9% og hefur ekki verið lægri síðan í maí 2021. Árshækkun fjölbýlis mælist 15,2% og sérbýlis 14,5%.
Eigum ennþá von á að verðbólga lækki í 9,6% í febrúar
Við gáfum nýverið út verðbólguspá þar sem við gerum ráð fyrir að verðbólga hjaðni úr 9,9% í 9,6% í febrúar. Í þeirri spá gerum við ráð fyrir nokkuð minni lækkun milli mánaða á húsnæðisverði á landinu öllu. Mælingar síðustu mánaða benda til þess að, ólíkt höfuðborgarsvæðinu, sé fasteignaverð utan höfuðborgarsvæðisins ekki byrjað að lækka sem skýrir muninn. Við sjáum ekki ástæðu til að breyta þeirri spá.
Fáir kaupsamningar undirritaðir
Í janúar voru 280 kaupsamningar um íbúðarhúsnæði gefnir út á höfuðborgarsvæðinu og hafa þeir ekki verið færri síðan í janúar 2011. Það er greinilegt að verulega hefur hægt á íbúðasölu, en til samanburðar voru 529 kaupsamningar undirritaðir í desember. Hafa ber í huga að um bráðabirgðatölur er að ræða og gætu þær átt eftir að breytast eftir því sem fleiri kaupsamningar berast í gagnagrunn HMS. Janúarmánuður er oft rólegur á íbúðamarkaði en nýliðinn janúar virðist skera sig úr.
Það er nokkuð ljóst að íbúðamarkaðurinn er farinn að sýna hröð merki kólnunar enda hefur Seðlabankinn gripið til ýmiskonar aðgerða til þess að stemma stigu við þróuninni, t.d. hækkað stýrivexti verulega og hert lánþegaskilyrði. Þessar aðgerðir virðast nú vera að skila tilætluðum árangri.