Íbúðaverð heldur áfram að hækka
Íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 0,7% milli apríl og maí. Vísitalan hefur nú hækkað fjóra mánuði í röð, en þar áður, í nóvember, desember og janúar, varð lengsta samfellda lækkun íbúðaverðs síðan undir lok árs 2009.
Lækkunin hefur nú gengið til baka og gott betur. Óhætt er að segja að íbúðamarkaður hafi ekki kólnað eins hratt og ætla hefði mátt. Hærra vaxtastig og þrengri lánþegaskilyrði hafa dregið mjög úr aðgengi að lánsfé og þannig slegið á eftirspurn. Á móti vegur síaukin þörf á íbúðum. Landsmönnum hefur aldrei fjölgað jafnmikið og á síðasta ári og á fyrsta fjórðungi þessa árs. Hækkandi leiguverð sýnir líka að þótt eftirspurn eftir íbúðum til kaupa hafi minnkað með breyttu lánaumhverfi er enn eftirspurn eftir húsnæði.
Sérbýli hækkar um 1,9%
Vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu byggir á þriggja mánaða hlaupandi meðaltali, annars vegar um verðþróun á fjölbýli og hins vegar á sérbýli. Verð á fjölbýli hækkaði um 0,3% í maí en verð á sérbýli um 1,9%. Verð á sérbýli sveiflast mikið, enda seljast mun færri sérbýli en fjölbýli í hverjum mánuði og þau fáu sem seljast geta verið á mjög ólíku verði.
Árshækkun vísitölunnar mælist nú 6,1% og lækkar hratt með hverjum mánuðinum sem líður nú þegar miklir hækkunarmánuðir síðasta árs detta út úr vísitölunni. Til dæmis hækkaði vísitalan um heil 3% á milli mánaða í maí í fyrra og sú tala dettur út úr árshækkuninni nú þegar talan fyrir maí í ár kemur inn. Fjölbýli hefur hækkað um 5,6% á síðustu tólf mánuðum og sérbýli um 9,0%. Dregið hefur úr árshækkuninni tíu mánuði í röð, en hún náði hámarki í 25,5% í júlí í fyrra.
Mun færri kaupsamningar en í maí í fyrra
Aðeins 392 kaupsamningar voru undirritaðir á höfuðborgarsvæðinu í maí, 40% færri en í sama mánuði í fyrra, samkvæmt bráðabirgðatölum HMS. Þeim fjölgaði þó á milli mánaða, voru 325 í apríl.
Tölurnar gætu átt eftir að breytast eftir því sem fleiri kaupsamningar berast í gagnagrunn HMS.
Eins og HMS hefur fjallað um hefur sölutími íbúða lengst og hlutfallslega færri íbúðir seljast á yfirverði en áður. Kaupendur keppa því ekki lengur um íbúðir í sölu og í staðinn bíða seljendur, gjarnan eftir því að sölukeðjur gangi upp.
Þótt íbúðaverð fari ekki lækkandi eru verðhækkanir nú ekkert í líkingu við þær sem urðu um mitt síðasta ár og mánuðina þar á undan. Eins og fjallað var um hér að framan er þannig ljóst að vaxtahækkanir og þrengri lánþegaskilyrði hafa haft mikil áhrif á íbúðamarkað. Áfram er þó velta á markaðnum og þörf á húsnæði, ekki síst þegar landsmönnum fjölgar eins og raun ber vitni.